Grein

Jónas Guðmundsson.
Jónas Guðmundsson.

Jónas Guðmundsson | 18.02.2003 | 11:58„StranDalavegur“ – ný leið

Heldur betur hljóp á snærið hjá Vestfirðingum þegar ríkisstjórnin ákvað á dögunum að veita aukalega 1.000 mkr. til vegagerðar á Vestfjörðum á næstu 18 mánuðum. Sá hluti langtímaáætlunar í samgöngumálum sem fjallar um vegi fjórðungsins og nú er til umfjöllunar á Alþingi hafði vart verið íbúum fjórðungsins mikið gleðiefni og því mikil bót að þessu framlagi – hvernig sem því nú verður varið.
Af nógu er að taka enda var í fyrirliggjandi drögum hvorki gert ráð fyrir að ljúka lagningu vega með bundnu slitlagi um Ísafjarðardjúp né milli Bjarkalundar og Flókalundar fyrr en á árinu 2014. Sama var um veg milli Hólmavíkur og hringvegarins. Þar var aðeins gert ráð fyrir vegi um Strandir og skyldi honum ekki lokið fyrr en árið 2014. Vegi milli Strandasýslu og Dalasýslu um Arnkötludal og Gautsdal (leyfi mér hér til gamans að kalla hann StranDalaveg = Strandir / Dalir), sem þó var tilgreindur sem annar möguleiki af tveimur í langtímaáætlun frá 1998, var hins vegar ýtt út af borðinu í þessum sömu drögum.

Þetta er þó leið sem Fjórðungsþing Vestfjarða, allar sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum og meirihluti íbúa vill að farin verði sem fyrst.

Grófar áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við góðan veg þessa leið, sem er um 25 km, sé um eða yfir 700 mkr. Því kann að vera nokkuð snúið að leggja fjármuni til hans, sem ekki nýttust vegfarendum að neinu leyti fyrr en vegurinn er fullbúinn. Ég ætla því að leyfa mér að minna á þá leið sem Leið ehf., félag um einkafjármögnun samgöngumannvirkja, hefur unnið að að farin verði.

Hún felur í sér að án tafar verði hafist handa við vinnu að undirbúningi og í framhaldinu að útboði og lagningu alls vegarins. Til greiðslu kostnaðar yrði fengið lán, helst með ríkisábyrgð, og vegtollar innheimtir til greiðslu þess. Hæpið er þó að vegtollar dugi einir og sér til greiðslu alls kostnaðar við veginn. Ef ríkið legði hins vegar til hans 200 til 300 mkr. er næsta víst að dæmið gengi vel upp. Á einhverjum tímapunkti, t.d. árið 2014, leysti ríkið síðan veginn til sín og greiddi eftirstöðvar lána (ef einhverjar yrðu). Ekki verður annað séð en að bæði vegfarendur og ríkissjóður gætu hagnast vel á þessu.

Á árinu 2002 óku 52.600 ökutæki um teljara Vegagerðarinnar við Ennisháls á Ströndum og var það aukning um 9.000 ökutæki frá árinu áður. Líklegt verður að teljast að stór hluti ökutækja sem þar fara um nýttu sér þessa leið, auk umferðar sem bættist við. Þykir vel mega miða við að allt að 63.000 bifreiðar, þar af um 3.000 stórar flutningabifreiðar, nýttu sé veginn á ári hverju. Ef þrír fjórðu hlutar fólksbifreiðanna greiddu 600 kr. (afsláttarkjör) fyrir hverja ferð, einn fjórði fólksbifreiðanna greiddi 1.000 kr. og þau 3.000 stóru ökutæki sem um veginn færu greiddu 3.500 kr. næmu heildartekjur tæpum 50 mkr. á ári.

Af þeirri fjárhæð bæri að greiða 14 % virðisaukaskatt (undanþága hlyti að fást fyrir lægra skattþrepi eins og hjá Speli hf. sem rekur Hvalfjarðargöng) og einhver kostnaður hlytist af innheimtu og umsýslu en um ómannaða gjaldtöku yrði að ræða. Að því tilskildu að Vegagerðin annaðist viðhald vegarins og snjómokstur má gera ráð fyrir að skattar og árlegur kostnaður yrðu aldrei meiri en 10 til 15 mkr. Eftir stæðu því allt að 35 til 40 m.kr. til greiðslu lána og kostnaðar.

Því bendi ég þeim þingmönnum Vestfjarða, sem eru að hugleiða hvernig milljarðinum verði best skipt, á að leggja til þessarar leiðar einhverja fjárhæð svo a.m.k megi ljúka hönnum vegarins og að hann verði tilbúinn í útboð sem fyrst sem síðan mætti viðhafa með fyrirvara um fjármögnun þegar þar að kæmi. Það eru nefnilega gömul sannindi og ný, að Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Ef framlag fengist frá ríkinu en að öðru leyti mætti notast við leið einkafjármögnunar, þannig að Vestfirðingar og aðrir sem nýttu sér veginn legðu sjálfir sitt af mörkum með greiðslu veggjalds, er nokkuð öruggt að vegurinn yrði lagður og við hann lokið, líklega mun fyrr en ella, meirihluta vegfarenda og íbúa fjórðungsins til hagsbóta.

Hitt er aftur annað mál, að sú leið sem hlýtur að verða framtíðarleið úr fjórðungnum fyrir íbúa norðursvæðis Vestfjarða er Vesturleiðin svonefnda, þ.e. leiðin frá Ísafirði suður í Vatnsfjörð og þaðan austur í Gilsfjörð. Full ástæða sýnist til að fara að huga meira að henni en verið hefur. „StranDalavegur“ mun hins vegar nýtast íbúum Hólmavíkur og svæðanna þar í kring um ókomna tíð.

<


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi