Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

| 09.02.2000 | 14:55Skammdegisferð í Reykjanes

Við ákváðum þrjár systur fyrir skömmu að fara í skammdegisferð inn í Reykjanes. Tilgangurinn var að létta af sér skammdegis-
drunganum og gera eitthvað fyrir okkur sjálfar. Við fórum af stað eftir vinnu síðdegis á föstudegi og ókum sem leið lá inn í Reykjanes. Áður vorum við búnar að ganga frá leigu á Hveravíkinni, sem er lítill bústaður niðri við sjóinn. Þangað komum við um kvöldmatarleytið og vorum búnar að útbúa þorrabakka, þar sem þorrinn er nú hér í öllu sínu veldi. Eftir matinn fórum við í laugina og það var alveg yndislegt.
Daginn eftir var auðvitað byrjað á að fara í laugina. Svo var afslöppun og við settum á okkur allskonar maskara og mýkingarkrem. Verst hvað við hlógum mikið hver að annarri með þennan fína maska sem ekki mátti brotna meðan hann var að þorna. Og svo var enn farið í laugina. Um kvöldið fórum við í kvöldmat hjá Grétu forstöðukonu í Reykjanesi. Við höfðum meira að segja herramann með okkur til borðs, því við vorum svo heppnar að séra Baldur í Vatnsfirði kom þarna að og við buðum honum náttúrulega að snæða með okkur.

Sunnudagurinn byrjaði líka á laugarferð og svo vorum við bara í rólegheitum uns tímabært var að fara heim. Við komum reyndar við í Vatnsfirði hjá séra Baldri og þágum kaffi og með því. Hann sýndi okkur kirkjuna og ýmislegt forvitnilegt sem hann er að hugsa sér að gera á þessum merkilega stað. Við gátum ekki stoppað eins lengi og við vildum í þetta sinn en erum ákveðnar að koma við hjá honum aftur. Við komum svo heim til Ísafjarðar hressar og kátar.

Ég er nú bara að segja þessa sögu til að benda öðrum á hve indælt það er að eiga þessa paradís inni í Reykjanesi, rétt við túnfótinn hjá okkur. Það er yndislegt að taka frá eina helgi í skammdeginu og skella sér í Reykjanesið. Þar er tekið ljúfmannlega á móti gestum og þeir geta verið í algjörri afslöppun. Það geta verið nokkrar konur sem taka sig saman og fara, eða saumaklúbbar, eða hjón með lítil börn, nú eða bara afi og amma með barnabörnin. Hugsið ykkur bara sleppa amstrinu og skella sér í Reykjanes og láta dekra þar við sig í kyrrð og ró, sem endurnærir sálina.

Við vorum einstaklega heppnar með veður en vissulega er hægt að vera þarna þótt veðrið sé ekki svona gott. Ég vil benda fólki á þennan möguleika. Það voru ánægðar og hressar systur sem komu til baka eftir þessa góðu helgi. Og það er víst að svo verður um fleiri.

Notum betur og meira þessa aðstöðu sem er í Reykjanesinu. Það þarf ekki endilega að þvælast eitthvað langt í burtu. Þarna er hægt að njóta í kyrrð og næði þessarar frábæru sundlaugar og hjartahlýju gestgjafana, sitja í ylvolgri lauginni og horfa á litadýrð himinsins í ljósaskiptunum, hlusta á þungan sjávarniðinn í fjarska, fuglasönginn. Svo er fjaran heillandi og upplagt að fara í gönguferðir til allra átta. Allt umhverfið svo mátulega ferskt og náttúrlegt. Verði er auk þess mjög stillt í hóf, þannig að þetta er alls ekki dýr ferð.

Svo vil ég bara þakka kærlega fyrir mig. Það er alveg áreiðanlegt að við systurnar eigum eftir að bregða okkur oftar inn í Reykjanes í svartasta skammdeginu.
– Með kveðju. Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi