Grein

Brynjólfur Þór Brynjólfsson.
Brynjólfur Þór Brynjólfsson.

Brynjólfur Þór Brynjólfsson | 11.02.2003 | 16:12Um ávöxtunarmál

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Ísafjarðabæ, sendi frá sér grein í BB með fyrirsögninni „Misjöfn ávöxtun á Orkubúspeningum Ísafjarðarbæjar“. Í greininni lýsir hann aðdáun sinni á Sparisjóði Vestfirðinga, sem í sjálfu sér er hið besta mál, en rökin sem hann færir fram fyrir þessari skoðun sinni, orka nokkuð tvímælis. Sæmundur lýsir aðkomu sinni í bæjarstjórn á ráðstöfun þessara peninga til ávöxtunar, og mælti þar með að Sparisjóðurinn fengi „góðan helming ( 60-90 %)? til ávöxtunar. Sérstakur prósentureikningur það.
Það er einkum tvennt sem Sæmundur rekur í grein sinni, sem er vert að staldra við.

Það fyrra er ávöxtunin.

Sæmundur upplýsir að upplýsingar um einstaka liði sé trúnaðarmál milli bæjarins og viðkomandi lánastofnana, en bætir við að Sparisjóðurinn hafi gert best, og sé munur á tilboði hans og annara 15,6-29,5%. Að reikna prósentu af prósentu er ekki algeng aðferð, þótt ekki sé hægt að segja að hún sé beinlínis röng, þá getur hún gefið mjög villandi mynd, þeim sem óvanir eru slíkum reikningi. Líklegt er ef þessar tölur eru réttar að Sparisjóðurinn sé að greiða 1,5-1.7% betri vexti heldur en keppinautarnir, Íslands- og Landsbanki. En hvernig má að vera að „ör-bankastofnun“ eins og Sæmundur nefnir Sparisjóðinn, getur boðið betri kjör heldur en stærstu bankastofnanir landsins? Þversögnin er sú að Sæmundur upplýsir að tilboð þessara þriggja aðila hafi verið svo lík, að aðeins hafi verið á færi spákaupmanna á ráða í hvar best væri boðið. Erfitt er að trúa að Þórir Sveinsson, einn reyndasti og hæfasti fjármálastjóri í sveitarstjórnarkerfinu, hafi ekki getað séð slíkan mun á tilboðum. Hafi Sparisjóðurinn boðið tæpum 2% betri ávöxtun heldur en keppinautarnir, er ástæðunar helst að leita í eftirfarandi:

1. Að Sparisjóðurinn láni viðskiptavinum sínum á hærri vöxtum en keppinautarnir.

2. Að Sparisjóðurinn njóti svo slæmra kjara hjá lánadrottnum að það borgi sig að yfirbjóða innlán ( lágt lánshæfismat)

3. Að innstæðan sé bundið í lengri eða skemmri tíma.

4. Að einhverjir áhættuþættir séu í ávöxtuninni, svo sem gengisáhætta, verðbréfa eða hlutabréfa kaup, (innlend eða erlend)

Einhver, einhverjir eða allir þessir þættir geta verið skýring á þessu máli. Ef Sæmundur ætlar að standa við þessa fullyrðingu sína um betri vexti Sparisjóðsins, verður hann að leggja alla útreikninga á borðið, annað er mjög svo ótrúverðugt. Ekki verður annað séð, en að hálfur trúnaður hafi verið brotinn, og þá er alveg eins gott að allur sannleikurinn komi í ljós.

Síðara atriðið, ummæli Sæmundar um Íslandsbanka og Landsbanka, eru mjög undarleg, sérstaklega með tilliti til þess að þau ritar bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.

Landsbankinn hefur haft starfsstöð á Ísafirði í 99 ár og Útvegsbankinn (síðar Íslandsbanki) sennilega í 70 ár. Allan þennan tíma hafa þessir bankar staðið undir öllu atvinnulífi á Vestfjörðum, bæði til sjós og lands. Skipst hafa á skin og skúrir í þessum málum í gegn um tíðina, en ljóst er að bankarnir hafa samanlagt lagt til milljarðaútlán umfram innlán inn á þetta svæði. Það er því allveg ljóst að ef bankarnir hefðu ekki staðið þannig að málum, væri engin byggð á Vestfjörðum. Að sjálfsögðu eiga bankarnir eins og sparisjóðirnir allt sitt undir velgengni einstaklinga og fyrirtækja hér, þess vegna verður Sæmundur að skýra mál sitt þegar hann setur fram fullyrðingar eins og þessar í grein sinni. „Þetta vildi ég til að bærinn sýndi hug sinn greinilega til þeirrar stofnunar sem hefur lagt sig fram um uppbyggingu og þátttöku í atvinnulífinu á okkar svæði. Varla hefur farið fram hjá mörgum, að stóru bankastofnanirnar hafa veðjað á aðra hluti en fjármögnun nýrra atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum undanfarin ár.“ og. „Mér fannst einnig augljóst, að Sparisjóður Vestfirðinga, sem er með sínar höfuðstöðvar í sveitarfélaginu, færi þannig í „hagræðingar“-aðgerðum sínum, að hann myndi hagræða til Ísafjarðar, en hjá öðrum yrði hagrætt til Reykjavíkur.“

Umræða um þessi mál sem önnur er nauðsynleg, en hún verður einnig að vera heiðarleg.

Virðingarfyllst,
Brynjólfur Þór Brynjólfsson, kjósandi í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi