Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

| 15.11.2000 | 17:12,,Þetta kalla ég að deyja ekki með sæmd“

Sárt ertu leikinn, Sámur fóstri, sagði Gunnar á Hlíðarenda þegar hann heyrði veinin í hundinum þegar böðlar Gunnars drápu hann með vélabrögðum. Mér hefur oft dottið þetta í hug í sambandi við þá misþyrmingu, sem landsbyggðin hefur orðið fyrir á undanförnum árum. Sannarlega hefur landsbyggðin verið véluð og sársaukaveinin heyrst um land allt. Eftirfarandi, ásamt mörgu öðru, sem of langt yrði upp að telja hér, hefur gerst nú á allra síðustu árum:
1. Flest hreppsfélög lögð niður.
2. Sýslufélög lögð niður.
3. Kjördæmin lögð niður.
4. Kvótinn fluttur burt.
5. Fullkomnum frystihúsum lokað, þau úrelt og þeim hent eins og hverju öðru drasli.
6. Togararnir seldir burt og rétturinn til veiða þar með.
7. Sláturhúsum lokað og gert ókleift að framleiða kjöt á besta sauðfjárræktarsvæði landsins.
8. Jafnvel guðsorðið tekið frá oss og flutt til Reykjavíkur vegna skorts á sálusorgurum í höfuðstaðnum.
9. Orkubúið, flaggskip Vestfjarða, tekið upp í skuld með góðu samþykki sveitarstjórnarmanna, sem gefist hafa upp við að standa á rétti landsbyggðarinnar eða hafa aldrei haft metnað eða dug til að gera það.

Halda menn, að þetta sem ég hef talið upp, hafi ekki haft nein áhrif á gang mála á landsbyggðinni?

Svo koma menn gapandi eins og álfar út úr hól og skilja ekkert í því, hvers vegna svo illa er komið fyrir landsbyggðinni. Ég benti á það í einhverri af mínum fyrri greinum, að öll lög, sem Alþingi setur, virka einhvern veginn, og að einn fyrrverandi ráðherra sagði: „Ég vissi ekki að lögin virkuðu svona.“ Annar ráðherra sagði: „Það var ekki meiningin að lögin virkuðu svona.“

Þetta eru mennirnir sem eru að setja okkur lög og reglur og vita ekkert hvað þeir eru að gera. Þetta er eins og að vekja upp draug og ráða svo ekkert við hann. Það voru nefnilega sett lög á Alþingi, já mörg lög, og þau virkuðu öll til tjóns fyrir landsbyggðina. Svona mætti lengi telja. Sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið hafa sofið á verðinum og ekki skilið sitt hlutverk, sem fyrst og fremst er að standa vörð um hagsmunamál byggðanna. Til þess voru þeir kjörnir en þeir eru ekki traustsins verðir. Þeir hafa látið byggðafjandsamlegt ríkisvald valta yfir hagsmuni og framtíð byggðanna úti á landi án þess að hreyfa legg né lið til varnar. Þeir hafa ekki einu sinni opnað munn, hvað þá stungið niður penna til varnar.
Því er komið sem komið er.

Það er verið að burðast við að flytja stofnanir út á land með nokkra menn innanborðs. Á sama tíma erum við að afhenda ríkinu, og í framhaldi af því einkaframtakinu, Orkubú Vestfjarða, og afsala okkur yfirráðum yfir orkulindum Vestfjarða og jafnframt réttinum til að ráða okkar málum sjálfir. Þetta er alger uppgjöf og aumingjaskapur. Á meðan slíkir menn eru í forsvari er ekki von á öðru en landsbyggðin fari halloka. Þessir menn eru fúsir til að leggjast á höggstokkinn og segja: Verði þinn vilji, kæri stóri bróðir, ég tek við því sem þú að mér réttir. Verði þinn vilji.

Er nokkur von á öðru en að komið sé sem komið er? Sveitarstjórnarmenn hafa flotið sofandi að feigðarósi og ekki staðið í stykkinu til varnar landsbyggðinni. Þeir tóku glaðbeittir við grunnskólunum og þóttust miklir menn að hafa verið trúað fyrir svo veigamiklu verkefni. En þeir hugsuðu ekki út í hver kostnaðurinn yrði, enda ekki gott að gera sér grein fyrir því hver hann yrði. Áhuginn var svo mikill, að ekkert var spekúlerað í því. Áætlaður kostnaður var einn og hálfur milljarður en samkvæmt nýjustu úttekt mun hann verða um fimm milljarðar. Hvað munar Thomsen um túkall? Við getum þá bara selt Orkubúið til að brúa bilið, en við seljum það bara einu sinni. Þegar flytja á störf frá Reykjavík út á land upphefst ramakvein út af nokkrum mönnum sem kunna að missa atvinnuna ef þeim er ekki leyft að flytja með stofnuninni. En þó að hundrað eða jafnvel nokkur hundruð frystihúsakarlar eða kerlingar missi atvinnuna er varla á það minnst.

Það er ekki lengur verið að tala um 2000-vandann. Nú er það 2002-vandinn. Þá taka ný orkulög gildi, sem að sjálfsögðu eru verk þingmanna, en þau kveða svo á, að eftir 2002 eru yfirráð okkar Vestfirðinga yfir Orkubúinu bönnuð samkvæmt landslögum og lögum Evrópusambandsins, yfirráðin tekin úr höndum okkar en við skulum bara hlýða. Þetta kalla ég ekki að deyja með sæmd. Lágmarkskrafa er að reynt sé að hamla gegn ósómanum. En það er ekki gert, heldur sagt já og amen. Nær hefði verið að segja: Heyra má ég erkibiskups


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi