Grein

Herdís Á. Sæmundardóttir.
Herdís Á. Sæmundardóttir.

Herdís Á. Sæmundardóttir | 06.02.2003 | 12:00Unga fólkið og landsbyggðin

Breytingar í atvinnuháttum landsmanna hafa verið gríðarlegar á síðustu árum og áratugum. Störfum hefur fækkað í grunngreinunum, landbúnaði og sjávarútvegi, en vaxið í hvers kynst þjónustustörfum. Þessar breytingar hafa að sjálfsögðu komið misjafnlega niður á einstökum landssvæðum, fólki hefur fjölgað mjög á höfuðborgarsvæðinu, þar sem störfum í þjónustu og opinberum rekstri hefur fjölgað mjög og að sama skapi hefur fólki fækkað á landsbyggðinni.
Ný rannsókn Hagfræðistofnunar Hásóla Íslands leiðir í ljós að 40-60% þeirra sem fæddir eru á árunum 1968-1972, hafa yfirgefið heimabyggðir sínar. Jafnframt leiðir skýrslan í ljós að 60-70% fólks í þessum aldursflokki og sem hefur tekið lán hjá LÍN til framhaldsmenntunar, hefur flust frá Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Þetta fólk snýr ekki aftur til sinna heimahaga ef það fær ekki störf við sitt hæfi. Þegar sú kynslóð, sem nú ber uppi atvinnulífið á landsbyggðinni verður komin á eftirlaun, er hætt við að fáir verði til að taka við og vandamálin sem við stöndum frammi fyrir því stærri og vandleysanlegri.

Ástæða þess að fólk flyst suður er fyrst og fremst sú að þar eru störfin sem krefjast langskólamenntunar. Störf sem ákveðið hefur verið að skuli vera þar en ekki úti á landi. Í fyrrnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar er bent á nokkrar leiðir til að auka aðdráttarafl landsbyggðarinnar. Í fyrsta lagi er bent á samgöngubætur sem auka aðgengi og stytta vegalengdir að stærri þéttbýlisstöðum. Í Norðvesturkjördæmi eru verkefnin næg í samgöngumálum. Það ætti t.d. að vera algjört forgangsatriði að tengja byggðarlög á Vestfjörðum við hringveginn með uppbyggðum vegum og bundnu slitlagi. Í öðru lagi bendir Hagfræðistofnun á mikilvægi menntastofnana á framhalds- og háskólastigi, fyrir búsetuþróun. Í Norðvesturkjördæmi eru 3 skólar á háskólastigi, Hólaskóli, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Viðskiptaháskólinn Bifröst, auk þess sem unnt er að sækja fjarnám á háskólastigi á nokkrum stöðum. Stofnanir sem þessar draga að sér langskólagengið fólk og hafa því mjög mikla þýðingu fyrir umhverfi þeirra. Það ætti að vera augljóst að efling menntunar almennt sem og möguleika þessarra stofnana til þess að vaxa og þróast er ein mikilvægasta undirstaða þess að störfum sem krefjast langskólamenntunar fjölgi og þá um leið að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni.

Sannarlega eru því sóknarfærin í þessu stóra Norðvesturkjördæmi næg. Það veltur fyrst og fremst á gildismati og vilja manna, hvort tekst að nýta þessi sóknarfæri og jafna búsetuskilyrði landsmanna. Fólksflóttinn er með öðrum orðum, ekkert lögmál, heldur snýst fyrst og síðast um almenna efnahagsstjórnun og raunhæfa áætlun um uppbyggingu og eftirfylgni áætlana. Í ljósi þess sem að framan er sagt og þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað á suðvesturhorninu og eru í farvatninu á Norðaustur- og Austurlandi, hlýtur það að teljast eðlileg og sjálfsögð krafa að á næstu árum verði lögð sérstök áhersla á aðgerðir til eflingar atvinnulífsins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi.

Herdís Á. Sæmundardóttir, framhaldsskólakennari Sauðárkróki. Höfundur skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi