Grein

Ingi Þór Ágústsson | 03.02.2003 | 07:50Opið bréf til fréttamanna Ríkisútvarpsins á Ísafirði

Föstudaginn 24. janúar sl. var lesin frétt í Svæðisútvarpi Vestfjarða sem kom mér í opna skjöldu. Í fréttinni var því haldið fram að ég væri félagi í Samfylkingunni. Ég verð að játa það að ég heyrði ekki fréttina þegar hún var lesin heldur var hringt í mig daginn eftir og mér bent á að lesa síðu 147 í Textavarpinu. Ég las fréttina og var brugðið, því ég hef aldrei verið flokksbundinn í Samfylkingunni. Í fréttinni var því haldið fram að þeir einstaklingar sem áður tilheyrðu þeim flokkum, sem mynda Samfylkinguna í dag, hafi sjálfkrafa verið skráðir í Samfylkinguna við myndun hennar og þyrftu að skrá sig út af þeim lista sjálfir.
Nú er það ekkert launungarmál, og var vel auglýst í kosningabaráttunni fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor, að ég hef setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu og sem formaður Röskvu seinasta árið mitt í Háskólanum. Á þeim tíma sem ég starfaði fyrir Röskvu tók ég aldrei þátt í neinu flokksstarfi fyrir flokka sem nú tilheyra Samfylkingunni og hef aldrei beðið um að vera settur á félagslista neins af þeim flokkum. Það sama gildir um Samfylkinguna. Til að fá það staðfest sendi ég tölvupóst til Karls Th. Birgissonar, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Karl sendi mér bréf um hæl þar sem hann staðfesti það sem ég vissi – ég hef aldrei verið skráður félagi í Samfylkingunni.

Mér finnast vinnubrögð fréttamanna RÚVÍS óvönduð við undirbúning þessarar fréttar og veit hreinlega ekki hvað þeim gekk til. Ef fréttamenn heyra orðróm sem þennan, þá hefði ég haldið að staðfestingu þyrfti til að geta birt hann. Ég veit ekki mikið um fréttamennsku, en eitt veit ég þó að orðrómur er ekki frétt nema hún fáist staðfest. Minnsta mál hefði verið að hafa samband við mig til að fá álit mitt á henni eða, líkt og ég gerði, senda tölvupóst til framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og fá orðróminn staðfestan.

Í svæðisútsendingu RÚVÍS föstudaginn 31. janúar var beðist velvirðingar á þessum fréttaflutningi og vil ég þakka fyrir það. Ég vonast þó til þess að forstöðumaður RÚVÍS birti bréf á þessum vettvangi þar sem hann biður mig formlega afsökunar á ofangreindri frétt.

Með bestu kveðjum og lifið heil.

– Ingi Þór Ágústsson,
flokksbundinn sjálfstæðismaður,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi