Grein

Magni Hreinn Jónsson<br>og Gylfi Ólafsson.
Magni Hreinn Jónsson<br>og Gylfi Ólafsson.

Gylfi Ólafsson og Magni H. Jónsson | 31.01.2003 | 14:01Opið bréf til framkvæmdastjórnar söngkeppni MÍ

Við undirritaðir höfum ákveðið að draga okkur út úr söngkeppni Menntaskólans á Ísafirði, sem er forkeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna, vegna óánægju með keppnisfyrirkomulag. Í söngkeppni framhaldsskólanna skal syngja á íslensku, afar líklega vegna virðingar við íslenskt mál, og er það réttlætanlegt. Forræðishyggja framkvæmdastjórnar söngkeppni MÍ veldur því hins vegar, að þeir sem vilja syngja erlent lag þurfa að þýða textann og getur niðurstaða þeirra þýðinga oftar en ekki talist óvirðing við íslenskt mál. Klaufalegt orðaval, málfræðilegar villur og slælegur kveðskapur í hvívetna er því miður allt of algengur í þessari keppni.
Við sjáum fyrir okkur, að ef leyft yrði að syngja á erlendum málum í undankeppninni væri hægt að fá fagmann til að þýða vinningslagið, væri það á erlendu máli, og veita þar með íslenskri tungu tilhlýðilega virðingu. Þetta fyrirkomulag tíðkast í öðrum skólum, eins og til dæmis MK þar sem fyrir fáum árum slagarinn „Burning down the house“ breyttist í meðförum Hallgríms Helgasonar í „Börnin orðin hás“ og ljómaði af kímni.

Er það virðing við það ylhýra að neyða keppendur til þess að syngja á íslensku? Hvað gerist ef keppandi hefur annað móðurmál en íslensku?

Fyrir utan óútskýrð tilfinningaleg rök framkvæmdastjórnar eru helstu rökin þau, að þegar dómnefnd velur lag sé í raun verið að velja atriði. Þegar skipt er um tungumál sé því verið að breyta atriðinu og vali dómnefndar. Verður þá bannað að skipta um búninga, bæta við dansatriði eða hjálparkokkum á sviði, eða þarf dómnefndin að samþykkja hverja breytingu, hvert skref og hverja klæðispjötlu? Er tvískinnungurinn ekki nístandi?

Við teljum að tungumálaskipti hafi hverfandi áhrif á lokaútlit atriðis og að aðrir þættir vegi langtum meira. Auk ofangreindra atriða má þar nefna stærð sviðs, hljómsveit, fleiri áhorfendur, öðruvísi hljóðkerfi, sjónvarpsmyndavélar og svo mætti lengi telja. Ef fagmaður væri fenginn í verkið væri óvissu með útkomu þýðingarinnar eytt. Dómnefnd getur svo haft þessa áhrifaþætti til hliðsjónar við val vinningslags í undankeppninni. Framkvæmdastjórn þarf þá ekki að vera með forval fyrir keppnina, byggt á annarlegum reglum og rökum.

Ennfremur hefur títtnefnd framkvæmdastjórn nefnt, að eftir undankeppnina séu einungis tvær vikur til stefnu til að þýða textann og æfa upp. Að sjálfsögðu væri búið að finna hagyrðing sem yrði í startholunum tilbúinn að taka við vinningslaginu og snara yfir á íslensku. Reynslan sýnir aukinheldur að vel ortur texti sé mun auðlærðari en illa saman klambraður texti.

Ef marka má orð framkvæmdastjórnarinnar, þá vilja allir syngja á íslensku og gerist þessara reglna því varla þörf. Ef söngvari, sem hyggst syngja útlent lag, telur það atriði sínu til framdráttar að syngja á íslensku, gerir hann það, enda hlýtur keppendum að vera frjálst að gera það sem þeim hugnast.

Við skorum því á framkvæmdastjórn að endurskoða ákvörðun sína, og vonum að framkvæmdastjórn næstu keppni beri gæfu til að snúa baki við forræðishyggjunni.

Virðingarfyllst.

Ísafirði 31. jan. 2003.

– Gylfi Ólafsson og Magni Hreinn Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi