Grein

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri | 28.01.2003 | 15:12Vestfirskir vegir, flýting framkvæmda

Á undanförnum árum hafa vegfarendur á Vestfjörðum séð miklar breytingar til batnaðar í vegamálum. Vegirnir lengjast, hækka og breikka. Bundið slitlag lengist og smám saman fer þetta í rétt átt. Þingmenn og samgönguráðherrar hafa löngum verið ötulir stuðningsmenn vegagerðar í fjórðungnum enda mikið verk að vinna. Nú er svo komið að tæplega 80% af leiðinni Ísafjörður – Reykjavík um Ísafjarðardjúp er með bundnu slitlagi. Afgangurinn er malarvegir á Ströndum og við Djúp, sumir lagðir fyrir hálfri öld.
Þrátt fyrir miklar framfarir í vegamálum í fjórðungnum heyra landsmenn nú frá okkur Vestfirðingum að við viljum fá bundið slitlag frá Ísafirði til Reykjavíkur á næstu fimm árum en ekki tólf eins og nýleg þingsályktunartillaga að samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerði um þetta sérstaka samþykkt sl. haust. Þessar áherslur hafa verið ræddar að undanförnu og vill undirritaður lýsa yfir ánægju með hversu vel er tekið undir sjónarmið okkar af þeim sem búa utan Vestfjarða og sýna stöðu mála hér mikinn skilning. Þá hafa þingmenn og ráðherra samgöngumála tekið okkar málflutningi vel.

Við lítum svo á að vegir séu fyrir alla landsmenn, góðir vegir á Vestfjörðum eru mikilvægir fyrir þá sem búa annars staðar á landinu og öfugt. Umferð hefur aukist verulega vegna ferðaþjónustu og landflutninga en flutningar á sjó hafa minnkað.

Flestir þéttbýlisstaðir landsins eru nú þegar komnir með vegtengingu með bundnu slitlagi alla leið til Reykjavíkur. Það er enginn annar staður á fastalandinu af sambærilegri stærð og Ísafjarðarbær og nágrenni (5.500 íbúar) sem ekki er tengdur inn á þjóðveg nr. 1 með bundnu slitlagi. Hvað þá að slíkur staður eigi eftir að bíða í tólf ár þar til það verður að veruleika.

Til að setja þetta í annað samhengi má nefna sem dæmi, að verði framkvæmdum ekki hraðað með breytingum á framlagðri samgönguáætlun, verður sex ára sonur undirritaðs orðinn átján ára og væntanlega búinn að vera með bílpróf í heilt ár þegar komið verður bundið slitlag alla leið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.


Grein þessi birtist í DV fyrir skömmu.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi