Grein

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri | 22.01.2003 | 10:47Ísafjörður einn af þremur byggðakjörnum landsbyggðarinnar

Í mars 2002 var samin sérstök vestfirsk byggðaáætlun af vestfirskum sveitarfélögum í samstarfi við fjölda fyrirtækja og einstaklinga á Vestfjörðum. Ástæðan var sú hógværð í byggðaáætlun iðnaðarráðherra að minnast lítið á Vestfirði. Við Vestfirðingar erum líklega ekki nógu hógværir og sömdum áætlun með 84 tillögum að verkefnum. Áætlunin var kynnt fyrir þingmönnum, iðnaðarnefnd og ráðherra. Alls staðar fékk hún góðar móttökur og þótti okkur þá sem til einhvers hefði verið unnið. Alþingi samþykkti að lokum byggðaáætlun iðnaðarráðherra ásamt meirihlutaáliti iðnaðarnefndar. Í því áliti kemur fram að byggðakjarnar á landsbyggðinni skuli vera þrír: Ísafjörður, Akureyri og Miðausturland.
Með samþykktinni hefur Alþingi markað mikilvæga stefnu í byggðamálum. Það hefur lengi verið í umræðunni og orðin viðurkennd stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga að skilgreining fárra byggðakjarna sé nauðsynleg til að ná þeim árangri í byggðamálum að til verði staðir þar sem fólki fjölgar og þjónusta byggist upp.

Ísafjörður hefur verið höfuðstaður Vestfjarða og þjónustukjarni um langa hríð. Samþykkt Alþingis þýðir hins vegar að stefna ber að frekari uppbyggingu þjónustu á vegum hins opinbera á Ísafirði. Í þeim málum hefur ríkisvaldið mörg tækifæri og lætur því miður of mörg renna sér úr greipum því nýjar ríkisstofnanir verða yfirleitt til í Reykjavík með fjölgun opinberra starfa og þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir.

Við búum í þjóðfélagi þar sem störfum við frumframleiðslu hefur fækkað. Það hefur í för með sér að flestir vinna við þjónustu. Þar vegur starfsemi á vegum hins opinbera þyngst og þess vegna hefur Reykjavík byggst svo myndarlega upp sem raun ber vitni.

Það er skoðun undirritaðs að uppbygging fárra byggðakjarna sé skynsamleg vegna þess að þeir skapa stór áhrifasvæði. Það er einnig mín skoðun að ekki eigi að setja niður stofnanir eða flytja störf á vegum hins opinbera nema til þessara skilgreindu byggðakjarna. Með því móti næst mestur árangur og til verða kjarnar sem eru áhugaverður kostur til búsetu. Byggðarlög sem hafa burði til að stækka og taka við fleira fólki en skapa um leið áhrifasvæði í kringum sig.

Til þess að áhrifasvæði byggðakjarnanna séu sem stærst þurfa samgöngur að vera greiðar innan svæðis og til höfuðborgarsvæðisins.

Þrátt fyrir miklar framfarir í vegamálum á Vestfjörðum heyra landsmenn nú frá okkur að við viljum fá bundið slitlag frá Ísafirði til Reykjavíkur og frá V-Barðastrandasýslu til Reykjavíkur á næstu fimm árum en ekki tólf eins og nýleg þingsályktunartillaga að samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Að þeim tíma liðnum (fimm árum) viljum við hefjast handa um tengingu V-Barðastrandarsýslu og norðanverðra Vestfjarða með Ísafjörð sem byggðakjarna. Það er mikilvægur þáttur í að stækka áhrifasvæði Ísafjarðar þannig að byggðarlögin á Vestfjörðum njóti góðs af stefnu Alþingis um uppbyggingu byggðakjarna.

– Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í fyrradag, 20. janúar. Hún er birt hér með leyfi höfundar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi