Grein

Snorri Sturluson.
Snorri Sturluson.

Snorri Sturluson | 14.01.2003 | 10:13Fiskveiðistjórnunarfarsinn, 2. þáttur

Fyrir 10 mánuðum síðan skrifaði ég grein í BB vegna skyndilokanahrinu á línuveiðar á grunnslóð út af Vestfjörðum, sem þá reið yfir. Nú virðist sama vitleysan vera að endurtaka sig og þessa dagana er svo komið, að stór hluti miðanna á grunnslóðinni er lokaður línuveiðum. Þetta er slík aðför að hinum smáu sjávarbyggðum Vestfjarða, sem byggja afkomu sína að mestu á línuveiðum smábáta, að ég get ekki orða bundist. Skrúfað er fyrir lífsbjörgina rétt sisvona eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Á þessu ári eru 3 lokanir á línuveiðar á Íslandsmiðum. Hvar eru þær? Jú, allar út af norðanverðum Vestfjörðum. Eins og hvergi annars staðar sé veiddur blandaður fiskur. Er þetta tilviljun eða hreinar ofsóknir á hendur Vestfirðingum? Ég taldi það skyldu mína að leggja mitt litla lóð á vogarskálina í baráttunni gegn þessum ósköpum og reit því hæstvirtum sjávarútvegsráðherra bréf um mál þetta og ætla hér að leyfa mér að vitna í það:

„Svo virðist sem ekki þurfi annað en að sendur sé út af örkinni starfsmaður Fiskistofu og að hann fari með tommustokkinn af stað, þá komi lokanir í kjölfarið. Enda er það svo, sem reyndar hefur oft verið bent á áður, að á núgildandi viðmiðunarreglum, samræmdum á landsvísu, fellur Vestfjarðastofninn oftastnær. Það er kominn tími til þess að stjórnvöld ákveði hvort þau ætla að leyfa nýtingu Vestfjarðamiðanna með þeim fiski sem þar er eða ekki. Um þrennt er að ræða.

Að breyta viðmiðunarreglum um lokunarhæfi miðanna og eða hafa þær mismunandi og sveigjanlegar og viðurkenna þar með, að á hinum mismunandi svæðum Íslandsmiða er mismunandi stór fiskur óháð aldri. Jafnvel getur verið um mismunandi stofna að ræða með mismunandi erfðaeiginleika. Sumir vísindamenn telja að verið sé að breyta erfðaeiginleikum stofna með mikilli sókn í stærri fiskinn og að meðalstærð miðuð við aldur fari lækkandi. Með sömu verndarviðmiðunum værum við því stöðugt að vernda eldri fisk..Fordæmi eru fyrir breytingum á viðmiðunarmörkum og minnist ég breytinga á viðmiðunum vegna ýsu í Faxaflóa og einnig náðist að hnekkja lokunum fyrir norðan á grundvelli aldursgreininga.

Að hætta að mæla og ákveða þar með að veiða jafnt úr stofninum eins og hann er á miðunum. Margir vísindamenn telja að jöfn sókn í marga árganga sé heilbrigðasta nýting stofns og sú sem tryggir hámarksafrakstur þegar til lengri tíma er litið. Þessu til stuðnings vil ég vitna til þeirra vísindamanna sem telja að það sé einmitt hin harða sókn í stærsta fiskinn, sú helför sem farin hefur verið gegn stærstu og hæfustu einstaklingum stofnanna, sem er að koma fram sem uppdráttarsýki í stofnunum og valdi að lokum hruni þeirra. Jónas Bjarnason hefur lýst þessu flestum betur og kallar þetta „holdsveiki hafsins“. Í ljósi þessa orkar það meir en lítið tvímælis, að á sama tíma og stærstu verksmiðjutogarar mega þrælast upp á 12 mílur eða ofar, stærstu netabátar mega sigta stórfiskinn úr stofnunum upp í fjörur og öflugir snurvoðabátar með dulbúin troll mega skarka inn um flóa og firði, þá eru litlum bátum með vistvænustu veiðarfæri í heimi bannaðar veiðar á hefðbundnum heimamiðum allt út á 18-19 mílur frá landi.

Í þriðja lagi er hægt að loka miðunum til lengri tíma með reglugerð. Ef það er sannfæring ráðuneytisins að línuveiðar smábáta á grunnslóð við Vestfirði, sem tíðkaðar hafa verið um aldir, séu að ganga af fiskistofnum dauðum, þá verður svo að vera. Vestfirðingar vita þá hvað til síns friðar heyrir og geta gert viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.

Í ljósi þess sem hér að framan er sagt óska ég eindregið eftir því að ráðuneytið taki þetta mál til sérstakrar umfjöllunar með hlutaðeigandi aðilum og kanni hvort ekki sé hægt að finna einhvern flöt á því sem tryggt geti meiri stöðugleika gagnvart útgerð smábáta og fiskvinnslu þeim tengdum á Vestfjörðum. Hin smáu og viðkvæmu hagkerfi í vestfirskum sjávarþorpum eiga nóg með að glíma nú við óhagstætt gengi krónunnar, okurvexti, lækkandi afurðaverð erlendis og gífurlegan niðurskurð í aflaheimildum, þó að lokanir á heimamiðum bætist ekki þar ofan á.“

Tilvitnun lýkur.

Hér er um mikið alvörumál að ræða. Fyrstu viðbrögð hjá rekstraraðilum í sjávarútvegi í Súgandafirði voru þau, að segja ætti upp öllu starfsfólki og sjá til hverju fram yndi. Þessi varð þó ekki raunin að þessu sinni enda algjört neyðarúrræði. Nú verða menn að leita leiða til að koma vitinu fyrir stjórnvöld í málinu og að koma á fundi með hlutaðeigandi aðilum með fulltingi vestfirkra þingmanna. Hér er um verðugt baráttumál að ræða, hvar í flokki


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi