Grein

Sigríður Hreinsdóttir.
Sigríður Hreinsdóttir.

| 02.11.2000 | 09:26Spurningar og svör um fótaaðgerðir

Félag íslenskra fótaaðgerðarfræðinga (F.Í.F.) hefur gert laugardaginn 4. nóvember að fótverndardegi hér á Íslandi. Markmið félagsins er að ná til allra landsmanna með það í huga að minna á hversu mikilvægir fætur okkar eru. Hvað eru þeir annað en okkar þarfasta verkfæri og þarfasti þjónn? Vil ég af þessu tilefni kynna fyrir lesendum starf fótaaðgerðafræðinga.
Hvað gera fóta-aðgerðarfræðingar?

Orðið fótaaðgerð verkar frekar ógnvekjandi á marga og hefur jafnvel neikvæða merkingu í sumum tilvikum. Svo þarf þó ekki að vera. Félagar í F.Í.F. eru vel menntaðir í sínu fagi og hafa með góðum árangri aðstoðað við margskonar fótamein og óþægindi, t.d. meðferð við líkþornum, vörtum, inngrónum nöglum, fótasveppum og sprungnum hælum, svo eitthvað sé nefnt.

Starf fótaaðgerðarfræðinga er lögverndað og starfa þeir samkvæmt lögum og reglugerð heilbrigðisráðuneytis.

Hverjir sækja þjónustu á fóta-aðgerðarstofu?

Allir geta þurft á fótaaðgerðarfræðingi að halda, allt frá börnum til aldraðra, og ekki eingöngu þeir sem hafa einhver fótamein eða óþægindi, heldur einnig þeir sem vilja huga vel að fótum sínum. Smávægileg fótamein geta valdið miklum óþægindum, t.d. inngrónar neglur, sprungnir hælar og jafnvel smáblaðra getur valdið helti sem skekkir allan líkamann og myndar bakverki, vöðvabólgu og svo mætti áfram telja..

Oft er spurt hvort það séu ekki eingöngu konur sem sækja fótaaðgerðarstofur en svo er ekki. Karlmenn þurfa á fótaaðgerð að halda engu síður en konur, þeir eru bara seinni að átta sig á þeirri nauðsyn. Til gamans má geta þess að þeir telja sig koma á stofu til að þóknast öðrum en sjálfum sér, en ánægðari viðskiptavinir eru sjaldséðir. Eins og einn ónefndur maður sagði.

„Ég komst nær himnaríki eftir að hafa farið í fótaaðgerð.“

Fyrirhyggja og forvarnir skipta miklu máli

Sveppasýkingar eru algengar. gott ráð er t.d. að nota bómullarsokka, gæta að því að vera ekki rakur á fótum og nota fótasprey ef um mikinn svita er að ræða. Það er mikilvægt að nota baðskó þegar almenningsböð eru notuð. Baðskór minnka hættu á sveppa- og vörtusmiti. Ekki má skilja þetta svo að í sundlaugum og íþróttahúsum sé ekki gætt ítrasta hreinlætis, en þar sem svo margir baðgestir nota sömu baðaðstöðu dag hvern er alltaf hætta fyrir hendi á smiti. Mjög mikilvægt er einnig að velja réttan skófatnað, stífa sóla sem ekki vinda upp á sig og stífa hælkappa.

Góð fóthirða eykur vellíðan

Í þessari stuttu grein minni hef ég stiklað á stóru um starf fótaaðgerðarfræðinga. Það er ekki ofsögum sagt að góð fóthirða eykur vellíðan.

Hugum vel að heilsunni og gleymum ekki fótunum.

Sigríður Hreinsdóttir, löggiltur fótaaðgerðarfræðingur, Fótaaðgerðarstofan SILFÁ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi