Grein

Úlfar Snæfjörð Ágústsson.
Úlfar Snæfjörð Ágústsson.

Úlfar Snæfjörð Ágústsson | 10.01.2003 | 08:41Bundið slitlag strax!

Við verðum að fá ökufæra heilsársvegi milli Ísafjarðar og Reykjavíkur til að tryggja útflutningsatvinnuvegunum hér á norðanverðum Vestfjörðum jafnræði við aðra landshluta og til þess að við fáum ferðamenn til að leggja hingað leið sína á eigin bílum. Í frumvarpi að vegáætlun, sem nú liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að við lok áætlunarinnar 2014 eftir tólf ár verði ekki kominn vegur með bundnu slitlagi milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Það er að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi fyrir okkur sem hér búum og störfum.
Í dag eru allar stærri byggðir landsins nema Austfirðir og norðanverðir Vestfirðir komnar í vegasamband með bundnu slitlagi, eins og tíðkast hjá öllum nágrannaþjóðum okkar og reyndar í allri Vestur-Evrópu.

Nú er Vesturbyggð komin með bundið slitlag fyrir þá sem ekki vilja skemma bílana sína af grjótregni á malarvegum, með því að nota ferjuna Baldur.

Siglfirðingar eru fyrir nokkru búnir að fá bundið slitlag á allan veginn, auk þess sem þeir munu á áætlunartímanum fá að auki hringveg um svæðið með tvennum jarðgöngum.

Allt Snæfellsnesið og Vesturlandsvegur um Dali verða sömuleiðis komin með bundið slitlag fyrir 2010.

Ég get ekki séð að Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi geti farið í kosningabaráttu í vetur hér vestra með samgönguráðherann sem oddvita flokksins, bjóðandi þessi kaup.

Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvort ekki væri hægt að fara aðrar leiðir en talað er um í samgönguáætluninni til þess að fá veg með bundnu slitlagi hér á milli um mitt tímabilið, án þess að hreyfa mikið við kostnaðaráætlun.

Með því að klára Djúpið fyrir 2010 þarf ekki að færa til nema 400 milljónir á milli tímabila.

Nú er verið að ljúka gerð nýs vegar um Bröttubrekku og í beinu framhaldi af því á að fara í Svínadalinn og á þeim framkvæmdum að vera lokið á árunum 2007-2010. Þar með er komið slitlag að Þorskafirði í Austur-Barðastrandarsýslu. Ég get ekki séð hvenær brúin yfir Mjóafjörð á að vinnast, en verð að gera ráð fyrir að það verði á næstu árum. Þá er einungis eftir 20 kílómetra vegur úr Steingrímsfirði yfir á Barðaströnd. Vegur þarna um Tröllatungu og Gautsdal fer um stuttan fjallveg (400m) yfir vesturenda Tröllatunguheiðar og má ætla að hann væri alltaf fær, þegar Steingrímsheiðarvegurinn er opinn.

Hópur manna undir stjórn Jónasar Guðmundssonar sýslumanns í Bolungarvík hefur kannað möguleika á að gera þennan veg og fá greiddan með veggjaldi. Væri ekki athugandi að semja við þennan hóp eða einhvern annan hóp fjárfesta um að þeir legðu veginn fyrir árið 2008? Leigðu svo Vegagerðinni afnot af veginum samkvæmt umferðarmælingu og seldu hann síðan Vegagerðinni til dæmis 15 árum síðar, eða um það leyti sem Ísfirðingar væru losna við síðustu kaflana af malartroðningunum ef reikna má venjuleg frávik frá áætlunum um vegagerð hér um slóðir.

Með þessum hætti bæri komð slitlag á veg milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 2008 án þess að mikið væri hróflað við fjárstreymi á vegaáætlun.

Hvort þessi leið eða einhver önnur verður farin, þá er það grundvallaratriði að allir íbúar á norðanverðum Vestfjörðum sameinist um eina leið og hætti ekki fyrr en framkvæmdum er lokið.

Ég vil hvetja menn til að mæta á fundinn hjá Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði laugardaginn 11. janúar og gera afdráttarlausar kröfur um úrbætur í vegamálum. Úrbætur sem duga til að tryggja að afurðir af svæðinu svo sem fiskur komist með öruggum hætti alla daga í flug á Keflavíkurflugvelli. Úrbætur svo að ferðamenn fáist til að koma á eigin bílum hingað. Það munu þeir aldrei gera í nokkrum mæli á meðan þeim er boðið upp á grjótkast og aurburð á sína góðu og dýru bíla.

– Úlfar S. Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi