Grein

Sigurlaug Hauksdóttir.
Sigurlaug Hauksdóttir.

| 30.10.2000 | 15:16Heiðvirt starf fyrir húsbóndann

Maðurinn minn, hann Guðjón Ólafsson, er framhaldsskólakennari. Hann hefur verið framhaldsskólakennari í Menntaskólanum á Ísafirði síðan árið 1983. Allt frá því að sambúð okkar hófst árið 1987 hef ég nokkuð reglulega fallið í þá gryfju að reyna að verja starf hans, aðallega þegar kennarar hafa staðið í kjarabaráttu. Í fyrstu var ég staðföst í þeirri trú að þetta væri heiðvirt starf og að kennarar þyrftu virkilega að vinna fyrir laununum sínum.

En það getur bara ekki verið að öllu þessu fólki sem ég hef rætt við skjátlist.
Nú er svo komið, að við getum ekki lengur lifað við þá skömm að Guðjón sé að „frílysta“ sig enn einn veturinn í Menntaskólanum á Ísafirði. Nú verður fjölskyldan að fara að horfast í augu við raunveruleikann og taka af honum ráðin, vegna þess að hann hefur augljóslega ekki stjórn á sér sjálfur. Það getur bara ekki verið eðlilegt að nokkur maður með snefil af sjálfsvirðingu kjósi að gera þetta, svona ár eftir ár. Á hverju vori hefur fjölskyldan beðið þess með öndina í hálsinum (þegar mögru mánuðirnir eru framundan), að nú loksins segi hann: „Nú er nóg komið, ég verð að rífa mig upp úr þessu kviksyndi skemmtana og andlegs doða og fara að vinna uppbyggilega vinnu, eitthvað sem samfélag okkar telur heiðvirt starf!“

En, nei, því miður, þá fellur hann jafnan að hausti og lætur sogast í kviksyndið á ný. Og við horfum á eftir honum inn í Menntaskólann.

Enn einn veturinn þurfum við að lifa við þá skömm að fjölskyldufaðirinn sést varla heima hjá sér, heldur liggur hann í ómennsku og ólifnaði niðri í Menntaskóla frá því eldsnemma á morgnana og langt fram á kvöld. Ekki bara virka daga, heldur allar helgar líka! Langt er síðan íhugað var að leita sérfræðiaðstoðar.

En Guðjón hefur ekki viljað horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að hann sé „ólæknandi framhaldsskólakennari“.

Þetta ástand fer illa með fjölskylduna og núna er hann á leiðinni í þriðja verkfallið eftir að fjölskyldan var stofnuð fyrir 13 árum. Enn á ný lendir sollurinn sem framhaldsskólakennarar lifa í undir smásjá þjóðarinnar. Þá skömm get ég bara ekki lagt á börnin okkar.

Þau eru nefnilega orðin það gömul að þau gera sér fljótt grein fyrir því hvílíkur ónytjungur faðir þeirra augljóslega er! Hugsið ykkur – maðurinn er í starfi þar sem einungis þarf að kenna 23 stundir á viku og hver stund er ekki einu sinni klukkutími!! Til að bæta gráu ofan á svart fær maðurinn þriggja mánaða sumarfrí þegar aðrir heiðvirðir og vinnuþjakaðir þjóðfélagsþegnar fá einungis fimm eða sex vikur.

Er þetta nokkur hemja!?

Svo maður minnist nú ekki á öll hin fríin, – páskar, jól og annað tilfallandi – það heyrir til undantekninga að kennarar vinni heila vinnuviku eins og aðrir þurfa þó að gera. Og fyrir þetta dirfist hann að taka full laun. Til að bíta höfuðið af skömminni þykjast kennarar hafa einhver aukaverk eins og heimavinnu, prófagerð annað þvíumlíkt og fá borgað fyrir það líka.

Er nema eðlilegt að heiðvirðu fólki sé ofboðið?

Börnin okkar eru komin á þann aldur að þau heyra þessa umræðu. Hvað á ég að segja við þau þegar þau fara að spyrja mig um það hvað pabbi þeirra sé að gera alla daga og öll kvöld í Menntaskólanum? Þeim má ljóst vera að ekki er hann að vinna þar, svo mikið er víst. Eins og allir vita, þá eru svokallaðir framhaldsskólanemendur skemmtanafíklar sem einungis hugsa um eitt (við vitum öll hvað það er). Hlýtur ekki að koma að því að börnin mín leggja saman tvo og tvo? Bitur sannleikurinn um föður þeirra verður þeim ljós innan skamms og ég hef áhyggjur af fjölskyldu minni.

Og það alversta við þetta allt saman er að Guðjón minn skammast sín ekki einu sinni.

Hvað get ég gert til að gera hann að heiðvirðum manni? Ég er komin í þrot.

Fyrir mína hönd og barna minna.
Sigurlaug Hauksdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi