Grein

Gylfi Guðmundsson.
Gylfi Guðmundsson.

| 27.10.2000 | 08:29Flotið að feigðarósi?

Nú þessa dagana eru sveitarstjórnir á Vestfjörðum að fjalla um hvort breyta eigi félagsformi OV úr sameignarfélagi í hlutafélag. Þegar þetta er ritað hafa sveitarstjórnir Ísafjarðarbæjar, Vesturbyggðar og Tálknafjarðar samþykkt tillöguna fyrir sitt leyti, en samkvæmt lögum um Orkubúið þurfa allar sveitarstjórnir fjórðungsins að samþykkja tillöguna til að hún öðlist gildi. Eins og lesendum mun kunnugt er verið að flýta fyrir þróun, sem hefur verið boðað að muni verða innan tveggja ára með tilkomu nýrra Orkulaga, en megintilgangurinn er að flýta fyrir að einstök sveitarfélög geti selt eignarhlut sinn í Orkubúinu.

En hvers vegna vilja sveitarstjórnir selja?
Jú, það er vegna þrýstings frá félagsmálaráðuneytinu um að lækka skuldir vegna félaglega íbúðakerfisins. Ég segir lækka, því að sum sveitarfélög eru það illa sett að eignarhlutur þeirra í Orkubúinu dugar aðeins til að lækka skuldirnar niður í landsmeðaltal. Á sama tíma er að störfum nefnd, sem er að fjalla um vanda félagslega íbúðarkerfisins og hvernig létta megi af sveitarfélögum þeim klafa.

Af hverju ekki að bíða eftir að hún ljúki störfum? Af hverju liggur svona á að selja? Hvaða hvatir liggja þar að baki? Á sama tíma og sveitarfélög annars staðar á landinu reyna allt hvað þau geta til að efla hlut sinn í orkuöflun, sbr. Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, samstarf orkufyrirtækja á Norðurlandi o.fl., þá ætlum við að afhenda ríkinu (Rarik) öll vatnsréttindi og virkjunarkosti á Vestfjörðum, auk dreifikerfis og fasteigna, fyrir skyndigróða sem verður horfinn á morgun.

Hvað fáum við í staðinn?

Það er alveg öruggt að raforku- og hitareikningar heimila og atvinnureksturs hækka um 17-21%, því að gjaldskrá Rarik verður tekin upp hér. Skattgreiðendum mun fækka því að störfum mun fækka. Öll fjármálaumsýsla og rekstrarumsýsla mun flytjast til höfuðstöðva Rarik. Og hvar verða þær? Örugglega ekki á Vestfjörðum.

Óhjákvæmilega munu nokkrar fjölskyldur flytja úr fjórðungnum vegna færri atvinnutækifæra. Höfum við efni á því? Höfum við efni á því að tapa fleiri atvinnutækifærum en þegar orðið er? Hafa sveitarfélögin efni á að tapa útsvarstekjum? Hafa þjónustufyrirtæki efni á því að tapa þeim viðskiptum, sem örugglega flytjast úr fjórðungnum?

Ég segi nei.

Gylfi Guðmundsson,
innkaupastjóri Orkubús Vestfjarða.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi