Grein

Sigurlín Sigurðar | 18.12.2002 | 09:47Hugleiðingar um vestfirska vegi

Á ferð minni á haustdögum um Strandir og Djúpveg til Ísafjarðar vöknuðu ýmsar hugsanir um vegina á þessari leið. Þar er sannarlega þörf á að taka til hendinni. Ýmist er ekið á malarvegi eða vegi með bundnu slitlagi. Einbreiðar brýr og ræsi skipta tugum þó að þeim hafi eitthvað fækkað hin síðari ár. Svo dæmi sé tekið í næsta nágrenni Ísafjarðar er einbreið brú í Arnardal, sem ég tel viðsjárverða og lúmska í landslaginu þótt merkt sé í bak og fyrir. Ekkert er upp á merkingar að klaga. Þær eru til fyrirmyndar. Á Kirkjubólshlíð er komið vegrið og það finnst mér alveg frábært framtak.
Sums staðar eru vegir með malbiki sem hefur verið slett eftir vegarmiðjunni svo að stórhætta er að. Ekki batnar þegar svo brotnar upp úr köntunum á malbikinu. Það gefur auga leið að við þessar aðstæður ekur fólk eftir miðjum veginum. Víða liggur vegurinn í snarbröttum hlíðum og með beygjum þar sem engin vegrið eru til öryggis, en slíkt er að vísu vel merkt með örvum og stikum. Sums staðar eru vegir í bröttum hlíðum svo mjóir, að þeir passa rétt fyrir flutningabíla. Hvers vegna eru þeir ekki breiðari? Í snjó og hálku getur það verið hreint kraftaverk að komast þessa vegi heilu og höldnu.

Þessi hugvekja gildir líka um ástand vega vestari leiðina frá Þingeyri um Hrafnseyrarheiði og síðan um Dynjandisheiði í Vatnsfjörð. Þessi kafli virðist hafa verið gleymdur í fjörutíu ár frá því akvegurinn um Dynjandisheiði var lagður. Þar er ekkert viðhald sem hægt er að tala um, heldur er vegurinn heflaður þegar snjóa leysir og búið. Mikil er þolinmæðin hjá fólki þar vestra en ekki er hún endalaus, allra síst nú þegar tíminn mældur í peningum og allir að flýta sér samkvæmt tíðarandanum í dag.

Væri ekki ráðlegt hjá þeim sem stjórna vegamálum að skoða ástand þessara vega? Þótt oft hafi gengið hægt og hljótt, þá er jafnan spurt hvar eigi að taka peningana. Er ekki annars spurningin um forgangsverkefni í tísku núna? Þá má minna á það sem hefur sparast í snjómokstri á undanförnum árum.

Hvað er að frétta af alþingismönnum þessa landsvæðis? Eru þeir ekki alltaf á fullu fyrir sitt kjördæmi? Reyndar vantar sárlega konur á Alþingi fyrir þetta svæði til að lýsa blessaða karlana upp. Konurnar eru sko vanar að láta verkin tala svo að eftir er tekið.

Nú er að hlaupa landfræðilegur ofvöxtur í kjördæmið, þegar hið nýja Norðvesturkjördæmi verður til. Ef Sturla Böðvarsson verður áfram ráðherra og jafnframt þingmaður í hinu nýbakaða kjördæmi, þá fer hann létt með að koma málum áleiðis svo eftir verði tekið, eins gert hefur verið á Snæfellsnesinu. Sama er hvaðan gott kemur, hvort heldur er frá hægri eða vinstri. Fleiri og fleiri vilja koma vestur og njóta frábærar menningar og gestrisni sem er í boði árið um kring.

Væri ekki ljúft ef fólk gæti farið sinna erinda á allra næstu árum, afslappað
eftir góðum akvegi, og notið kyrrðar og fegurðar vestfiskra fjalla og fjarða?

– Sigurlín Sigurðar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi