Grein

Rúnar Óli Karlsson.
Rúnar Óli Karlsson.

Rúnar Óli Karlsson | 12.12.2002 | 14:51Mugison – Lonely Mountain

Út er kominn diskurinn Lonely Mountain með Mugison, eins manns hljómsveit Arnar Elíasar Guðmundssonar sem hefur undanfarin ár verið búsettur í Lundúnaborg við nám í tónlistarupptökum. Hann spilar á öll hljóðfærin á diskinum nema hvað tveir aðstoðarkokkar hræra með honum í tónlistarpottunum í tveimur af átta lögum disksins. Tónlistin er tilraunakennd og ekki auðvelt að bera saman við margt annað sem ég þekki. Samt kom upp í hugann skífan The Kid með Radiohead og Tom Waits.
Flest lögin eru í rólegri kantinum og hefur Örn Elías beitt ýmsum sniðugum brögðum til að blanda saman ólíkum hljóðum sem saman mynda skemmtilega heild. Það má t.d. heyra bregða fyrir hefðbundnum hljóðfærum, kaffikönnu að trekkja og sampler-hljóðum og greinilegt að mikið er búið að kúra yfir útsetningunum. Eins og allri góðri tónlist þarf að gefa diskinum tíma til að malla undir geislanum nokkrar umferðir og batnar hann við hverja hlustun.

Mugison-nafnið er tilkomið vegna þess að Örn Elías er sonur Guðmundar M. Kristjánssonar hafnarstjóra Ísafjarðarhafna (Mugga).

Áhugi Breta hefur kviknað á Mugison og er lag með honum að koma út hjá frægu útgáfufyrirtæki þar í landi. Platan mun svo koma út í heild sinni í Bretlandi hjá Accidental Records en það er eitt þriggja útgáfufyrirtækja tónlistarmannsins Matthew Herbert. Hann er án efa einn afkastamesti tónlistarmaður Bretlands um þessar mundir og hefur unnið með fjöldanum af þekktu tónlistarfólki, m.a. Björk. Fregnir herma að platan muni verða tekin fyrir í Morgunblaðinu eftir áramót þegar blaðið gerir eftirtektarverðustu skífum ársins skil.

Ég mæli með því að allir sem hafa áhuga á tilraunakenndri popptónlist fjárfesti í gripnum sem seldur er m.a. hér í bæ á mjög viðráðanlegu verði.

Nánari upplýsingar má finna á mugison.com.

– Rúnar Óli Karlsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi