Grein

Elías Guðmundsson.
Elías Guðmundsson.

| 18.10.2000 | 15:25Góðærið nær til Súgandafjarðar

Allt tal um niðursveiflu í vestfirsku samfélagi hefur bergmálað í öllum fjölmiðlum undanfarin ár og hafa fréttamenn keppst við að gera lítið úr okkur sem búum hér fyrir vestan. Við, þetta ,,úti á landi pakk“ eins og við erum oft kölluð, getum ekki endalaust hlustað á svona málflutning og þess vegna tók ég þá ákvörðun að vekja athygli á  nokkrum staðreyndum  sem varða minn heimabæ.
Ef ég byrja á að nefna mannfjölda, þá voru 275 manns á Suðureyri 1. desember 1996 en 1. desember 1999 voru  Súgfirðingar orðnir 317 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en það er um 15 % aukning og einnig er fjölgun þetta árið, en nákvæmar tölur liggja þó ekki fyrir enn. Svo má nefna að árið 1995 var skráður kvóti Súgfirðinga, 839 tonn og samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er skráður kvóti á Suðureyri í dag, 1.341 tonn sem er aukning um tæp 60 %. Þetta er fyrir utan þann stóra flota af smábátum sem sækir Súgandafjörð heim á hverju sumri og má nefna að landaður afli hefur aukist úr 3.552 tonnum í 5.456 tonn eða um rúmlega 56 % á síðustu fimm árum. Fjöldi fyrirtækja, skráðum á Suðureyri hefur fjölgað úr 17 í 23 síðustu fimm árin samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu. Leiguhúsnæði hefur verið að skornum skammti undanfarin ár, en þó eru enn fasteignir til sölu hér í nafla alheimsins.

Ef minnst er á menningarmálin í Súgandafirði, þá hefur sami krafturinn verið í uppbyggingu þar og má þar nefna Sæluhelgi Súgfirðinga sem má kalla þjóðhátíð Súgfirðinga og dregur sú hátíð sífellt fleiri og fleiri gesti til sín á hverju ári. Svo má nefna leikfélagið Hallvarð súganda sem reis upp úr rekkju fyrir þremur árum og hefur sett upp þrjár leiksýningar síðan. Einnig var listaverkum komið fyrir í Súgandafirði síðastliðið sumar. Þar má nefna ,,Vestfirsk öfl“ sem sett var á Sjöstjörnuna. Tólf steindir gluggar voru settir í kirkjuna og ,,Dropi í hafið“ var sett í fjöruborðið við Kleif.

Svona er lengi hægt að telja upp, hvernig góðærið hefur skilað sér til Súgandafjarðar en það sem mætti, að mínu mati, skýra þessa velgengni er nálægðin við gjöful fiskimið og að miklu leyti jarðgöngin okkar.  Í dag eru jarðgöngin nýtt vel og má geta þess að meðalumferð um þau á dag jafngildir því að hver Súgfirðingur fari rúmlega eina ferð í gegn um göngin á dag. Skýringin liggur líklegast í því að fjöldi Ísfirðinga og Súgfirðinga vinna ekki þeim megin við göngin þar sem þeir eru búsettir. Vissulega fara allir flutningar í gegnum göngin og telur það mikið þegar umferð  í göngunum er skoðuð.  Svo virðist einnig vera að Súgfirðingar séu hættir að treysta á opinbera aðstoð og bjargi sér þess í stað bara sjálfir og miðað við þessar staðreyndir, gera  þeir það bara nokkuð vel.

Hvað þessar staðreyndir varðar, þá hafa lánastofnanir því miður misst trúna á því að veðsetja fasteignir sem ekki er hægt að hafa með sér á brott frá Suðureyri. Þetta er vegna ranghugmynda sem þeim hefur verið bornar á borð undanfarin ár af fjölmiðlum og er þetta gott dæmi um það hvernig fjölmiðlar geta haft áhrif á byggðaþróun í landinu. Ég ,,sveitalubbinn“ gekk á milli lánastofnana nú í haust og athugaði hvort áhugi væri fyrir hendi að fjármagna fyrirtæki á Suðureyri í samvinnu við óstofnað hlutafélag á Suðureyri.  Nei, sögðu flestir. Það var ekki hægt vegna þess að enginn vildi taka veð í fasteign á svona stað þar sem allt væri á hraðri leið niður á við, var mér yfirleitt sagt. Þegar ég var búinn að láta hafa mig að fífli þá fór ég að velta fyrir mér hvort það væri staðurinn Suðureyri sem ætti undir högg að sækja eða hvort fordómar og vanþekking lánastofnanna væri að gera mér erfitt fyrir með að fá fjármagna í svona verkefni.

Þegar ég velti þessu fyrir mér þá held ég að við ,,þetta úti á landi pakk“ séum búin að láta fjölmiðla gera okkur að fíflum, og svo vona ég að fjölmiðlar fari nú að láta okkur í friði og snúi sér frekar að jákvæðari fréttaflutning af málefnum á landsbyggðinni.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi