Grein

Guðjón Þorsteinsson.
Guðjón Þorsteinsson.

| 18.10.2000 | 14:42„Neikvæðni hjálpar engum“

Eins og siður er koma upp neikvæðnisraddir þegar keppnisliðum gengur ekki eins vel og fólk vonast til. Umræðan í kringum karlalið KFÍ er engin undantekning þar. En hverjir eru það sem tala á neikvæðum nótum? Eru það hinir sönnu stuðningsmenn sem ganga í gegn um súrt og sætt með liðinu? Eða eru það þeir sem setjast í dómarasæti og dæma liðið, jafnvel án þess að hafa séð einn einasta leik? Svari nú hver fyrir sig.
Þeir sem gera þá kröfu á hverju ári að KFÍ-liðið verði í toppbaráttu, verða að skoða í byrjun hvaða forsendur liggja að baki þeim kröfum. Bestum árangri í deild náði liðið fyrir tveimur árum, þegar það varð í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og komst í undanúrslit úrslitakeppninnar. Þá voru stjörnuleikmenn í liðinu eins og Ólafur Ormsson, Ósvaldur Knudsen, James Cason, Mark Quashie og Ray Carter, að ógleymdum þeim Hrafni og Baldri, sem eru þeir einu sem eftir standa af lykilmönnum síðan þá.

Athugið þetta: Það eru aðeins tveir leikmenn, sem eitthvað mæddi á, ennþá í liðinu síðan fyrir tveimur árum.

Þar komum við að kjarna málsins. Á hverju ári hefur KFÍ þurft að leita eftir 50-60% af leikmannahópnum út fyrir bæjarmörkin. Með öðrum orðum: Það þarf að byggja upp nýtt lið á hverju einasta ári. Þegar þannig er í pottinn búið – hvernig getur fólk þá gengið með þær kröfur í höfðinu að liðið eigi alltaf að vera í toppbaráttu? Það er eðlilegt að liðið taki dýfur við og við undir þessum kringumstæðum.

Leikmenn karlaliðs KFÍ í dag eru duglegir strákar sem leggja hart að sér við að halda uppi merki félagsins. Af þeim 13 leikmönnum sem teflt hefur verið fram í fyrstu fjórum deildarleikjunum eru alls 8 heimamenn. Það hefur aðeins einu sinni áður gerst í úrvalsdeildarsögu KFÍ, en það var 1997-98. Þetta er rúmlega 61% hlutfall heimamanna. Er þetta ekki það sem fólk vill sjá? Sjá sína eigin syni spila körfubolta fyrir KFÍ? Eða er hræsnin það mikil að árangur verður að vera skilyrði?

Þeir sem skoða vilja málin án þess að líta á stigatöfluna sjá að áföll þau sem KFÍ-liðið hefur orðið fyrir í haust hefðu lagt jafnvel enn betri lið í gröfina. Í liðinu er enginn miðherji. Síðan Birgir Örn gekk á bak orða sinna í sumar hefur ekki tekist að ná í leikmann til að fylla þessa stöðu. Miklar vonir voru bundnar við Ástralann stóra en hann fór að skæla og flúði heim. Og nú er liðið á byrjunarreit hvað þetta varðar. Að vísu er bosnískur leikmaður í myndinni en ekkert er ákveðið í þeim efnum ennþá.

Af þessum sökum er Dwayne Fontana, sem leikið hefur frábærlega með liðinu í vetur, ekki að spila sína eðlilegu stöðu. Sveinn Blöndal ekki heldur, af sömu ástæðu. Og heldur ekki Hrafn Kristjánsson, sem venjulega leikur í stöðu leikstjórnanda en leikur í stöðu létts framherja núna, sem er náttúrlega staða Sveins. Ingi Vilhjálmsson hefur því þurft að axla þá ábyrgð að stjórna liðinu lengstum á sínu fyrsta ári í meistaraflokki. Vegna þessa eina manns sem vantar, hefur þurft að skikka menn til að spila allt aðrar stöður en þeir eru vanir. Það verður að segjast, að menn hafa svarað því kalli frábærlega og virkilega lagt sig alla fram við að leysa það eftir bestu getu.

Slíka vinnu á fólk að virða en ekki fordæma. Fólk á að styðja strákana á erfiðum tímum í stað þess að brjóta þá niður. Mikið er eftir af þessu móti og það er alveg á hreinu að þetta verður gífurlega erfitt. Það sem við þurfum, er að hafa fólk með okkur en ekki á móti.

Mætum á leikina og gefum okkur öll í að styðja við bakið á strákunum, þeir eiga það svo sannarlega skilið. Við trúum að það sé vilji allra að halda okkur í efstu deild og það er stefna okkar að gera það, allt annað verður plús. Við munum gera okkar besta, og það er von okkar að þú, lesandi góður, gerir slíkt hið sama.

Körfuboltakveðja.

Guðjón M. Þorsteinsson,
Karl Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi