Grein

Hlynur Snorrason.
Hlynur Snorrason.

Hlynur Snorrason | 18.11.2002 | 15:01Ísafjarðarbíó – Vá Vest hópurinn fagnar breyttum sýningartíma

Eigendur Ísafjarðarbíós hafa nú ákveðið að færa kvikmyndasýningar, kvöldsýningarnar, til kl. 20 í stað 21. Með þessum breytingum verður sýningunum væntanlega lokið kl. 22 í stað 23. Ég veit að margir foreldrar á norðanverðum Vestfjörðum fagna þessari breytingu mjög, enda verða þá engir árekstrar hvað varðar útivistarreglurnar og bíósýningarnar.
Foreldrar grunnskólabarna hafa margir vakið athygli Vá Vest hópsins og lögreglunnar á því að börn þeirra, sem eru á aldrinum frá 13 til 16 ára, geti ekki sótt kvikmyndasýningar á kvöldin þar sem þau megi ekki, skv. útivistarreglunum, vera á almannafæri eftir kl.22 á kvöldin yfir vetrartímann. Nú er lausn í sjónmáli hvað þetta vandamál snertir og ber að fagna því.

Það er mikil vakning meðal foreldra á norðanverðum Vestfjörðum hvað forvarnir snertir. Flestir átta sig á því að einn hluti af barna- og unglingauppeldi er að bera virðingu fyrir samfélagi sínu og þeim samfélagsreglum sem í gildi eru. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort við erum að tala um „smá brot“ á útivistarreglunum eða „stór lögbrot“. Slíkt kallar á tvöföld skilaboð sem börn og unglingar eiga erfitt með að skilja og eru ekki líkleg til farsældar.

Vá Vest hópurinn vill færa eigendum Ísafjarðarbíós bestu kveðjur og sömuleiðis vill hópurinn hvetja alla kvikmyndaáhugamenn á svæðinu til að taka þessari breytingu vel og styðja góðar og jákvæðar breytingar sem þessar. Þessi breyting mun taka gildi frá og með 22. nóvember.

Með bestu kveðjum f.h. Vá Vest hópsins,
Hlynur Snorrason, verkefnisstjóri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi