Grein

Ásbjörn Þorgilsson.
Ásbjörn Þorgilsson.

Ásbjörn Þorgilsson | 14.11.2002 | 09:09Vestfirðingar, rísum upp!

„Vér mótmælum allir“ sagði Vestfirðingur einn fyrir langalöngu. Sem fæddur og uppalinn Vestfirðingur hefur undirritaður þungar áhyggjur af framtíð hins vestfirska samfélags, og þannig er sjálfsagt komið fyrir mörgum Vestfirðingum. Sennilega líka Vestlendingum og Norðlendingum. Til að bæta gráu ofan á svart stöndum við nú frammi fyrir því, að þeir þingmenn sem við höfum valið til að vera fulltrúar okkar á þjóðþinginu hafa brugðist gjörsamlega og afhent fulltrúum borgríkisins sem myndast hefur á suðvesturhorni landsins sjálfdæmi um örlög okkar. Eftir næstu þingkosningar verður vald þessara fulltrúa peninga- og verðbréfabraskara sem borgríkið þrífst á algjört og við komum engum vörnum við til að verja tilverurétt okkar og afkomu.
Undirritaður telur að hér verði að bregðast skjótt við. Ég er þess fullviss að margir Vestfirðingar muni brosa út í annað þegar þeir lesa tillögur mínar og afgreiða þær sem lélegan brandara, eða í versta falli heimsku afdalamanns norður á Ströndum. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, en bið þá viðkomandi að hugleiða þá stöðu sem við nú erum í og af hvaða hvötum og stjórnvisku við erum stödd þar sem við erum í dag.

Tillögur mínar snúast í stuttu máli um það að við í hinu nýja Norðvesturkjördæmi lýsum yfir menningar- og efnahagslegu sjálfstæði svæðisins frá yfirráðum borgríkisins á suðvesturhorninu. Tökum í okkar hendur stjórn okkar landshluta til lands og sjávar. Grunnurinn að þessari hugmynd er ekki frá undirrituðum kominn. Ég minni á að fyrir nokkuð mörgum árum síðan var stofnaður flokkur sem nefndur var Þjóðarflokkurinn. Illu heilli náði hann engum árangri og hugsjónir hans voru svæfðar í fæðingu. Úr því að þá þótti ástæða til að varpa fram þeirri hugmynd að skipta landinu upp í fylki, því þá ekki nú, þegar svartsýnustu spár hugmyndasmiða Þjóðarflokksins eru að koma fram?

Ég vil biðja kjósendur á þessu landsvæði að draga fram landakort og afmarka þetta svæði með blýanti, frá innstu dölum til ystu marka fiskveiðilögsögu okkar, og velta því svo fyrir sér. Þarna hafa þeir þá dregið línu landfræðilega utan um auðugasta svæði landsins, bæði til sjávar og sveita. Innan þess eru auðugustu fiskimið í Norður-Atlantshafi, gnægð jarðhita, yfirdrifið vatnsmagn til virkjana, öflug landbúnaðarsvæði, ægifagurt landslag og stórbrotið, óhemju magn rekaviðar, vel menntað fólk og góður grunnur að hugbúnaðariðnaði.

Síðast en ekki síst eigum við hraust og framsækið æskufólk sem virkja verður í það framtíðarverkefni sem endurreisn og uppbygging svæðisins kallar á, svo sem í samgöngumálum og endurreisn þeirra atvinnugreina sem eyðilagðar hafa verið á undanförnum árum. Gera þarf átak í landbúnaði, úrvinnslu sjávarafurða, iðnaðargreinum (skipaviðgerðir og -smíði), tæknigreinum í rafeinda- og hugbúnaðargeiranum, ferðaþjónustu og uppbyggingu verslunar jafnt innanlands sem til útlanda.

Ég skora á kjósendur á þessu svæði að hugleiða það í alvöru hvort þessi hugmynd er framkvæmanleg og ég skora jafnframt á menn og konur að tjá sig um málið. Þessi hugmynd er langt í frá að vera vitlausari en sú heimska sem við upplifum á hverjum degi í samfélaginu í dag.

Kjósendur í Norðvesturkjördæmi, við skulum taka höndum saman og koma fram með róttækar kröfur um stjórn á eigin málum. Krefjumst yfirráða yfir auðlindum svæðisins og nýtingu þeirra.

Baráttukveðja,

Ásbjörn Þorgilsson
Djúpavík, Árneshreppi, Ströndum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi