Grein

| 03.02.2000 | 15:39Skíðaganga – holl og góð hreyfing fyrir alla

Skíðaganga hefur verið stunduð hér á Ísafirði frá því snemma á öldinni. Margir iðka hana sem keppnisíþrótt en ennþá fleiri stunda hana sér til heilsubótar og ánægju.
Skíðaganga hefur góð áhrif á flesta þætti sem viðhalda og bæta hreyfigetu okkar. Henni fylgja mjúkar og stórar hreyfingar sem liðka liðamótin, blóðflæðið eykst og líkaminn hitnar. Maður mæðist og styrkir þar með hjarta og æðakerfi og bætir úthaldið.
Annar þáttur sem þjálfast við skíðagöngu er jafnvægið, sem eykst ótrúlega fljótt eftir nokkuð reglulega iðkun. Þá styrkjast vöðvarnir og samhæfing verður betri. Það er líka heilsubót fyrir sál og líkama að ganga í hreinu lofti í fallegu umhverfi og láta hugann reika.

Á Ísafirði er mjög góð aðstaða til að fara á gönguskíði á svæðinu í Tungudalnum, þegar snjór er nægur á láglendi. Þar er troðin braut á golfvellinum og upp í efri skóg, ef aðstæður leyfa. Á Seljalandsdalnum er frábært og fjölbreytt göngusvæði og nú er verið að leggja veg upp á Harðarskálaflötina gömlu, þannig að hægt verður að spenna skíðin á sig þar og fara beint í troðna og upplýsta braut. Á vorin er svo hægt að fara upp á Breiðadalsheiði.

Á vegum Skíðafélags Ísfirðinga er mjög öflugt starf varðandi gönguþjálfun. Yfirþjálfari í norrænum greinum er Stella Hjaltadóttir og stunda 49 manns þjálfun hjá henni í vetur, þar af 15 í yngsta flokknum, sex til níu ára. Fimm af elstu krökkunum eru nú við æfingar og keppni í Noregi. Norrænugreinanefnd Skíðafélagsins er að skipuleggja kennslu fyrir almenning og verður hún vonandi auglýst fljótlega.

Það er ótrúlegur fjöldi fólks sem nú þegar stundar skíðagöngu nokkuð reglulega en ég vil hvetja enn fleiri til að draga skíðin fram úr geymslunni og byrja að ganga. Við vitum að ánægjan verður meiri eftir því sem færnin eykst. Það er auðvelt að leggja bílnum við Ljónið eða á Skógarbrautinni og ganga af stað inn Tungudalinn.

Skíðaganga er fyrir alla. Það eru orð að sönnu. Allir aldurshópar geta stundað gönguna og hver og einn stjórnar sínum hraða. Gangan er líkamsþjálfun sem hægt er að stunda fram eftir öllum aldri. Það eru ekki margir yngri sem hafa fallegri göngustíl en Sigurður Jónsson (Búbbi prentari) sem nýlega hélt upp á 80 ára afmæli sitt.

Að lokum langar mig að beina orðum mínum til ykkar sem farið í geymsluna í leit að skíðum, skóm og stöfum. Ef þið finnið umframbúnað sem enginn á heimilinu hefur not fyrir, þá vantar okkur í göngunefndinni búnað til að lána fólki á öllum aldri til þess að prófa í upphafi kennslunnar. Tekið verður á móti búnaðinum í Vestursporti næstu tvær vikur.
– Sigurveig Gunnarsdóttir, norrænunefnd SKÍ


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi