Grein

Sr. Magnús Erlingsson á Ísafirði.
Sr. Magnús Erlingsson á Ísafirði.

Sr. Magnús Erlingsson | 08.11.2002 | 08:35Kristniboðsdagurinn

Annar sunnudagur í nóvember er samkvæmt venju helgaður kristniboði í íslensku Þjóðkirkjunni. Þá minnumst við kristniboðanna, sem hlýtt hafa kalli Krists um að gera allar þjóðir að lærisveinum. Við Íslendingar urðum kristin þjóð af því að hingað komu trúboðar fyrir þúsund árum síðan. Við eigum því samfélagi þjóðanna skuld að gjalda og þess vegna hefur íslenska kirkjan á seinni árum sent kristniboða og hjálparstarfsfólk til fjarlægra landa, fyrst til Kína og síðar til Eþíópíu og Kenya í Afríku.
Í vestfirskum kirkjum verður kristniboðsins minnst við messur og helgihald um næstu helgi. Hingað vestur koma þær Kristín Bjarnadóttir, sem hefur verið kennari í Kenýu, og systurnar Heiðrún og Ólöf Inger Kjartansdætur, sem eru kristniboðadætur og hafa einnig búið í Kenýu. Þær systur eru helmingur Kangakvartettsins og syngja fyrir okkur afríska sálma, en Kristín mun predika og segja frá starfi kristniboðsins.

Dagskrá heimsóknarinnar verður sem hér segir:

Á laugardag munu þær heimsækja kirkjuskólana á Ísafirði og á Flateyri. Þær taka þátt í messu í Ísafjarðarkirkju á sunnudag kl. 11, í messu í Flateyrarkirkju kl. 14 og á kvöldsamkomu í Hólskirkju kl. 20.30. Tekið verður við framlögum til starfs kristniboðsins í messunum.

Á mánudag er gert ráð fyrir að þær stöllur heimsæki skólana á Þingeyri og Súðavík og segi grunnskólabörnum frá högum jafnaldra sinna í Afríku auk þess að kynna starf kristniboðsins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi