Grein

Elías Guðmundsson.
Elías Guðmundsson.

Elías Guðmundsson | 07.11.2002 | 08:41Afsökun til Bolvíkinga

Ágætu Bolvíkingar! Eftir níðgrein Harðar Torfasonar á vef Bæjarins besta í minn garð, þá verð ég að biðja ykkur formlega afsökunar að hafa ekki borið manninn í hásæti. Menn gera mistök og kannski er Hörður ekki að segja allan sannleikann. Það er rétt hjá honum að auglýsingin fór upp samdægurs, ég vissi ekki af henni fyrr. Hann var með tónleika hjá mér kvöldið áður á Suðureyri og ég sá ekki um að hengja upp auglýsingar þar svo ég hélt að hann væri sjálfur búinn að leysa það mál líkt og hann gerði á Suðureyri.
Meistarinn talar um kulda sem tók á móti honum, en hrokinn sem kom frá honum, hann gleymdi að nefna það. Hann gleymdi líka að nefna að hann greiddi ekki húsaleigu hjá mér á Suðureyri eins og aðrir meistarar gera. Samtal okkar er lengra í grein hans en það samtal sem ég átti við meistarann. En það er rétt hjá honum, að ég benti honum á að betra væri að senda dreifibréf í hvert hús eins og hann eða einhver á hans vegum gerði á Suðureyri.

Sá eini starfsmaður sem var með lætin í eldhúsinu vill einnig koma afsökun á framfæri. En Hörður, skammast þú þín fyrir að gera lítið úr þeim starfsmanni sem var að vinna vinnu sína. Ég veit að starfsmaðurinn vinnur vinnu sína vel og hefur gert það í mörg ár. Sami starfsmaður tók á móti þér síðast þegar þú komst.

En, ágætu Bolvíkingar, reynum frekar að gera gott úr því sem við höfum og látum ekki einhverjar prímadonnur stjórna okkur. Við vitum það öll að við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti. Ég veit að við getum gert skemmtilegan Finnabæ ef við gerum það saman. En mistökin eru mín, ég viðurkenni það hér með.

Virðingarfyllst.

– Elías Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi