Grein

Sr. Karl V. Matthíasson, 2. þingm. Vestfjarða.
Sr. Karl V. Matthíasson, 2. þingm. Vestfjarða.

Karl V. Matthíasson alþm. | 05.11.2002 | 09:10„Varið ykkur á kreditkortunum“

Það skiptir miklu máli að ungt fólk kunni vel á umhverfi sitt og átti sig á því hvaða meginreglur séu í gildi í samfélaginu. Skólarnir hafa meðal annars það hlutverk að undirbúa börn og unglinga fyrir lífsbaráttuna. Það er líka mikilvægt að leikreglur samfélagsins séu einfaldar og skýrar. Einnig er mikilvægt að ungt fólk komi þannig til leiks, að það óttist ekki kerfið og viti hvert og hvernig best sé að snúa sér í viðskiptum við það. Eftirfarandi er gott dæmi um viðleitni í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði til að fræða unglingana um gerð og möguleika samfélagsins.
Mér bárust eftirfarandi spurningar frá nemendum eins 10. bekkjar þessa skóla í Hafnarfirði. Það er ánægjulegt þegar ungt fólk pælir í hlutum sem þessum. Mig langaði til að deila þessu með ykkur.


Kæri viðtakandi.

Við erum í 10. bekk Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og erum að vinna verkefni og okkur langar að spyrja ykkur þriggja spurninga.

1. Hvað eru margar 1-2 herbergja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu?

2. Hafið þið einhverja lánakosti fyrir ungt fólk í íbúðaleit?

3. Hvað getur þjóðin gert til að bæta stöðu ungs fólks í íbúðarkaupum?

Vonumst eftir svari sem allra fyrst og ef þið hafið meira til að segja okkur um ungt fólk í íbúðaleit þá megið þið láta þær upplýsingar fylgja.

Með fyrirfram þökk. Nemendur 10. bekkjar Víðistaðaskóla (þjóðfélagsfræði).Svar mitt til þessa unga fólks var á þessa leið:


Ágætu tíundubekkingar.

Ég vona að ykkur gangi vel í lífinu og að skólinn sem þið sækið sé góður.

Ekki veit ég hversu margar 1-2 herbergja íbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu né á landinu öllu. Víða úti á landi er húsnæði mun ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu og margt ungt fólk gæti keypt sér frekar íbúðir úti á landi vegna hagstæðara verðs. En nauðsynlegt er að skapa fjölbreyttara atvinnulíf á landsbyggðinni en nú er.

Það gilda ákveðnar reglur um lán sem fólk fær frá Íbúðalánasjóði og svo lána bankar og lífeyrissjóðir líka.

Stór hluti mannsævinnar á Íslandi fer í að vinna fyrir lánunum sem fólk tók til þess að geta keypt sér íbúð. Mér finnst að það þyrftu að vera til mun meiri möguleikar í húsnæðiskerfinu okkar, sérstaklega fyrir þá sem eru fátækir og eiga undir högg að sækja vegna veikinda eða örorku. Unga fólkið á Íslandi byrjar á því að steypa sér í miklar skuldir þegar það stofnar heimili og er svo að vinna og vinna fyrir þeim stóran hluta starfsævinnar. (Þess vegna er mjög mikilvægt að þið temjið ykkur sparnað og heimtið ekki allt af foreldrum ykkar, þið sjáið sjálf hvað þau þurfa að vinna mikið).

Lán til íbúðakaupa ættu að vera hærrri og til mun lengri tíma. Það eru mjög margir í greiðsluerfiðleikum vegna skulda sinna.

Varið ykkur á kreditkortunum, sem bankarnir fara bráðum að bjóða ykkur og ekki fara að steypa ykkur í skuldir vegna einhverra hluta sem ykkur langar allt í einu í. Safnið frekar fyrir þeim og kaupið þá svo. Þegar fólk „á“ peninginn fyrir hlutnum, þá getur verið að það hugsi sig frekar um hvort það eigi að eyða peningnum sínum eða leggja til hliðar, svo hægt sé að kaupa eitthvað annað síðar, eiga t.d fyrir útborgun í íbúðinni.

Ég þakka ykkur svo fyrir spurningarnar og munið að lokum að þeir sem eru að búa til brennivín og eiturlyf bíða spenntir eftir því að þið komið út á markaðinn. Í þeim efnum eins og fjármálunum verða menn að vara sig og láta ekki plata sig. Best er að byrja ekki á neyslu víns og annarra vímuefna.

Með bestu óskum um að þið verið hamingjusamt og gott fólk.

Karl V. Matthíasson.

Ps. Af hverju var bara spurt um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu?

Kalli.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi