Grein

Ragnar Bragason.
Ragnar Bragason.

Ragnar Bragason | 04.11.2002 | 07:40Svar til síðasta ræðumanns

Og aftur til þín, Kristinn. Æææ og harmleikurinn heldur áfram. Kristinn, Kristinn, Kristinn (þú fyrirgefur að ég endurtek nafnið þitt svo oft en þetta er fallegt nafn sem merkir mannkærleikur). Það sem hefur farið sérstaklega fyrir brjóstið á þér er það orðalag sem ég vel. Ég bið þig innilega fyrirgefningar ef það hefur komið illa við þig en ég hef aldrei verið mikið fyrir að tala undir rós. Ég lít ekki á að ummæli mín séu á neinn hátt niðrandi um þig sem manneskju, þau snerust eingöngu um þessa tilteknu atburðarás.
Hverjar eru rangfærslurnar sem þú segir mig hafa komið með í bréfi mínu til þín? Rangfærslur geta, athugaðu, aðeins átt við staðreyndir, ekki skoðanir.

Það eina sem þú getur nefnt er að leikstjórinn hafi að fyrra bragði lýst yfir möguleikanum á að tónlist þín gæti verið fjarlægð án nokkurra lagalegra vandkvæða. Það nefndi hún í framhaldi af því að þú leggur fram hreint fáránlega kröfu um að sýningunni síðastliðinn miðvikudag yrði frestað á meðan tónlistinni þinni yrði komið fyrir heilli og óskaddaðri á réttum stöðum! Það er sú krafa sem lýsir vanþekkingu þinni, og líka að eftir góðan nætursvefn og umhugsunarfrest að þú hafir ekki séð að þér, beðið aðstandendurna forláts og leiðrétt mál þitt.

Ég gerði ekkert atriði úr því að þér hefði verið greitt fyrir þína vinnu.

En hefði ég gert það átta ég mig ekki á fullyrðingu þinni um að með því væri ég ekki að gera Kómedíuleikhúsinu greiða. Þú fyrirgefur Kristinn, en þetta hljómar eins og dulbúin hótun frá þér.

Ertu virkilega ennþá á þeirri skoðun að leikstjórinn hefði átt að fara að kröfu þinni? Hann hefði átt að endurhugsa tímasetningar og leiktúlkun eingöngu til þess að tónlistin þín gæti hljómað „óskemmd“ út sýninguna? Leikrit gengur út á leik og frásögn. Tónlistin er aðeins til að styðja ofangreint. Muggur er ekki söngleikur eða tónleikar, Kristinn. Muggur er leiksýning.

Í guðanna bænum ekki reyna að gera píslarvott úr sjálfum þér. Það varst þú sem hótaðir lögfræðingum, það varst þú sem, skriflega, tjáðir stjórnendum sýningarinnar að þeir gætu notfært sér tónlist þína á hvaða listrænan hátt sem þau kusu.

Sú tilfinning sem bærðist mér í brjósti þegar ég skrifaði bréfið til þín var ekki heift, reiði né sárindi, sem er eingöngu á valdi minna nánustu að veita, heldur samúð, vonbrigði og sorg. Þær tilfinningar sem kvikna helst hjá mér þegar ég verð vitni að því að fólk hegðar sér af vanþekkingu.

Þér ferst Kristinn að tala um virðingarleysi. Það varst fyrst og fremst þú sem sýndir sýningunni virðingarleysi með því að hafa að vettugi listrænar ákvarðanir leikstjórans og senda út opinbera tilkynningu um málið.

Og svo að við tölum aðeins um staðreyndir að endingu, þá var ekki fundin tónlist á geisladiskum fyrir sýninguna síðastliðinn miðvikudag. Það var samin ný tónlist á sólarhring til að fylla þá eyðu sem varð þegar hin var fjarlægð.

En gaman að sjá hvað ég hef kveikt í þér. Þú tekur kröftuglega til orða í síðustu málsgrein þó svo að það sé bara ómarktækt bull.

Kær kveðja.

– Ragnar Bragason

P.s.
En ef þú þarft fræðslu um „veruleikann“ í lífi listamanna, þá endilega hafðu samband. Ég skal með glöðu geði fara yfir það með þér og benda þér á tugi þjáningarbræðra þinna sem hafa gengið í gegnum sömu hremmingar og þú. Ég er í símaskránni.


Tengt efni:

bb.is 30.10.2002
Tónlist Kristins J. Níelssonar fjarlægð úr leikritinu Muggi

bb.is 31.10.2002
„Ekkert annað en lúalegt bragð til að koma höggi á sýninguna“

bb.is 01.11.2002
Svarbréf til Ragnars Bragasonar


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi