Grein

Hálfdán Ingólfsson.
Hálfdán Ingólfsson.

| 27.09.2000 | 18:06„Samkeppni“ olíufélaganna

Þann 15. september 2000 sendi ég eftirfarandi tölvupóst til Skeljungs hf., sem, eins og kunnugt er, þykist reka bensínstöðvar undir merki Shell um allt land:
Til þeirra sem málið varðar.
Á Ísafirði er „munaðarlaus“ bensínstöð, þ.e. engin merki olíufélaga sjást á eða við stöðina. Það var því léttir að sjá á heimasíðu ykkar að Skeljungur gengst við henni. En, undur og stórmerki, það gerir Esso líka á heimasíðu sinni! Ég er því engu nær um faðerni stöðvarinnar þegar upp er staðið.
Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er yfirstandandi áróðursherferð Skeljungs vegna hins nýja Formúlu 1 eldsneytis. Ég ætlaði mér að setja þannig bensín á bílinn minn áðan og aðspurðir sögðu strákarnir á stöðinni að vissulega væri þetta Shell-stöð og auðvitað væru þeir með Formúlu 1 bensín.

Þar sem ég er áhugamaður um Formúlu 1 kappakstur falaðist ég eftir hinum auglýsta tölvudisk að bensínkaupunum loknum, en þá runnu tvær grímur á starfsmennina sem könnuðust ekki við að hafa fengið slíkt til dreifingar. Þegar ég gekk betur á þá varðandi bensíntegundina urðu þeir að viðurkenna að þeir hreinlega vissu ekki hvaða bensín þeir væru að selja mér!

Nú þætti mér vænt um ef einhver hjá Skeljungi gæti upplýst mig nánar um stöðu mála. Sérstaklega er ég forvitinn um eftirfarandi:

1) Er bensínstöðin á Ísafirði Shell-stöð eins og segir á heimasíðu ykkar?
2) Ef svo er, hvers vegna er ekki boðið upp á Formúlu 1 bensín og annað það sem yfirstandandi auglýsingaherferð Skeljungs gumar af?
3) Nákvæmlega hver er uppruni þess eldsneytis sem selt er á stöðinni á Ísafirði?
Með fyrirfram þökk fyrir greinagóð svör.
Hálfdán Ingólfsson, Móholti 9, Ísafirði.

Viku seinna, þann 22. september 2000, höfðu þessir háu herrar ekki hirt um að svara fyrirspurn minni.

Við nánari eftirgrennslan, þ.e. í samtölum við starfsmenn stöðvarinnar, kom í ljós eitthvað í þá veru, að rekstraraðilar Shell, Esso og Olís-stöðva reki stöðina sameiginlega. Bensínið sem Ísfirðingar kaupa er frá Esso en hinir aðilarnir tveir hirða hvor sinn þriðjung söluhagnaðar af eldsneyti. Ennfremur virðast þessir þrír aðilar hafa komið sér saman um grisjun bensínstöðva í hinum dreifðu byggðum, svo sem á Austfjörðum, þar sem sami leikurinn virðist vera í gangi.

Starfmennirnir sögðust hafa grennslast fyrir um t.d. Formúlu 1 tölvuleik Shell sem margir viðskiptavinir höfðu spurt um, og fengið þau svör að hér væri ekki selt Formúlu 1 bensín og þeir fengju því enga leiki til dreifingar.

Margauglýst kostaboð hinna ýmsu olíufélaga virðast því ekki ná til viðskiptavina óskilgetnu bensínstöðvanna. Þær virðast á undraverðan hátt skipta um faðerni eftir því hvaða kostaboð viskiptavinur spyr um hverju sinni.

Þetta vekur upp spurningar: Hvernig samræmist þetta háttalag lögum um samkeppni? Hefur Samkeppnisstofnun skoðað málið,eða er hún bara sýndarstofnun sem sett var upp til að slá ryki í augu almennings?

Áhugamenn um Formúlu 1 sem langar í tölvuleikinn geta þó huggað sig við, að í Súðavík er skilgetin Shell-bensínstöð. Þar má fá leikinn gegn því að kaupa nokkra lítra af bensíni.
– Hálfdán Ingólfsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi