Grein

Jón Fanndal.
Jón Fanndal.

Jón Fanndal Þórðarson | 19.10.2002 | 13:59Jarðgöng

Vaxandi áhugi er fyrir því að fá jarðgöng úr Engidal yfir í Súðavík. Áhugamenn um þetta verkefni báðu mig að reifa málið til að koma því á umræðustig og skal ég fúslega verða við þeirri beiðni, jafnmikill áhugamaður um jarðgöng og ég er. Sverrir Hermannsson sagði fyrir mörgum árum að besta byggðastefnan væri betri vegir og bættar samgöngur. Margt vitlausara hefur verið sagt.
Flestir eru þeirrar skoðunar, að sú byggðastefna sem rekin hefur verið hafi engu skilað landsbyggðinni. Flóttinn af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sannar það. Sem betur fer hefur nú hægt á þessum fólksflótta og vonandi fer dæmið að snúast við. Jarðgöngin undir Breiðadalsheiði eru sú framkvæmd á Vestfjörðum sem hæst rís. Það var mikið gæfuspor þegar í hana var ráðist og hefur engin ein framkvæmd síðari ára skilað jafnmiklu til að treysta byggð á svæðinu.

Þröngsýni

Þröngsýni er afleitur löstur, ekki síst hjá þeim sem þurfa að taka ákvarðanir er varða framtíðina. Þröngsýni er líka dýr löstur. Því miður eru mörg dæmi um afdrifaríka þröngsýni sem varða samgöngur á okkar svæði. Ég vil nefna fjögur dæmi máli mínu til stuðnings og verð að fara allar götur aftur til áranna upp úr 1960. Þá var undirritaður nýfluttur vestur og verið var að mæla fyrir vegi kringum Kaldalón.

Ég benti á að auðvelt væri að fara þvert yfir lónið á móts við bæinn Lónseyri en sú vegalengd er innan við kílómetri og var hægt að aka á hvaða bíl sem var yfir leirurnar um fjöru. Þarna þurfti aðeins stutta brú og uppfyllingu. Í staðinn var lagður ca. 15 km langur vegur hringinn í kringum lónið með þremur brúm og hefur sú stærsta tvisvar sópast burt í snjóflóðum og krapastíflum. En það sem verst var við þessa framkvæmd var það, að þessi vegur lokaðist alltaf í fyrstu snjóum og var lokaður af þeim sökum sjö til átta mánuði á ári.

Mistök númer tvö voru þau að ekki skyldi vera ráðist í jarðgangagerð til Bolungarvíkur áður en umtalsverðum fjármunum var varið í vegskála og aðrar lagfæringar á veginum um Óshlíð. Nú er svo komið að óhætt er að afskrifa jarðgöng til Bolungarvíkur. Því miður.

Mistök númer þrjú eru þau að Hestfjörður var ekki brúaður í stað þess að leggja veg kringum fjörðinn. Þeirri vegagerð er ekki lokið enn, tæpum 40 árum eftir að hafist var handa við lagningu hans. Þessi brúargerð kom til umræðu á sínum tíma og var tæknilega framkvæmanleg en þótti ekki hagkvæm framkvæmd að mati þeirra sem um málið fjölluðu og ákvarðanir tóku. Ef þeim fjármunum, sem veitt hefur verið í veginn í Hestfirði frá upphafi og á eftir að veita í hann, hefði verið varið í brúargerð yfir fjörðinn, hvað halda menn þá að margar brýr væru komnar yfir kjaftinn á firðinum fyrir þá upphæð? Reikni nú einhver stærðfræðingurinn.

Þá eru það jarðgöngin úr Engidal yfir í Álftafjörð, sem eru tilefni þessara skrifa. Það er vonandi ekki öll nótt úti enn. Þó alltaf sé verið að lagfæra veginn um Súðavíkurhlíð, þá hefur ekki enn verið veitt það stórum fjárhæðum í þann veg að ekki sé réttlætanlegt að leggja þann veg af og fara út í jarðgangagerð. Því fyrr því betra. Það þarf ekki að tíunda nauðsyn jarðganga á þessu svæði, bæði hvað varðar styttingu vegarins og af öryggisástæðum.

Með tilkomu jarðganga yrði ekki nema fimm mínútna akstur úr Engidal til Súðavíkur og slysahætta á þeirri leið nánast engin, þar sem vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð legðist af. Það var mikið gleðiefni þegar sú ákvörðun var tekin að brúa Mjóafjörð. Því miður verður einhver seinkun á þeirri framkvæmd. Við skulum samt vona að ekki verði hætt við þá brúargerð og engin ástæða til að ætla að svo verði, en seinkunin er að sjálfsögðu vonbrigði.

Það var ekki meining mín með því að rifja upp áðurnefnd þröngsýnismistök að eltast við fortíðardrauga, heldur að minna á hvaða afleiðingar þröngsýni getur haft. Ég vil heldur horfa til framtíðar og læra af mistökunum. Nú hafa orðið það miklar hugarfarsbreytingar, að væru áðunefndar framkvæmdir á dagskrá í dag er enginn vafi á því að Hestfjörður og Mjóifjörður yrðu brúaðir og jarðgöng gerð til Bolungarvíkur og Súðavíkur.

Þó ég leggi áherslu á Súðavíkurgöng, þá ætla ég ekki að fara út í neina forgangsröðun í jarðgangagerð. Ég vil minna á nauðsyn þess að tengja vestursvæðið við norðursvæðið með jarðgöngum undir Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Flestir landshlutar bíða eftir jarðgöngum. Mín skoðun er sú, að jarðgangagerð ætti stöðug


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi