Grein

| 20.09.2000 | 17:56„Síðasta sort“

Í síðasta tölublaði Bæjarins besta er grein með fyrirsögninni „Síðasta sort“. Þar segir greinarhöfundur, að forsvarsmenn Vélvirkjans sf., sem hóf rekstur 1976, séu að gera lítið úr öðrum fyrirtækjum vegna draslaraháttar þeirra, með myndum sem hafa hangið uppi í verslun okkar að Aðalstræti 9a.
Hið sanna í málinu er, að góður og gegn maður hér í bæ, sem gaman hefur af ljósmyndun og lætur sér annt um umhverfi sitt, fékk að setja þær upp og ömuðumst við ekki við því. Myndirnar tala sínu máli og eiga fyllilega rétt á sér. Það sem kemur á óvart í þessari grein er, að greinarhöfundur treystir sér ekki til þess að koma fram undir nafni og hvað hún er rætin og illgjörn og augljóslega sett fram til að reyna að skaða Vélvirkjann sem mest og skrifuð gegn betri vitund.

Rekstri eins og Vélvirkinn er í fylgir alltaf eitthvert umstang, í það minnsta um stundarsakir. Flestir sjá líka að umgengni við húsnæði Vélvirkjans er síst verri en gerist hjá hliðstæðum fyrirtækjum, nema síður sé.

Það er rétt, að bæjarsjóður bauð fyrirtækjum upp á urðun á óbrennanlegu drasli, sem er hið besta mál, og ástæðan meðal annars sú að færa átti sorpmóttökuna þar sem bæjarsjóður hefur ákveðið að hefja gjaldtöku fyrir förgun. Bæjarsjóður hefur komið sér upp aðstöðu í porti við áhaldahús bæjarins, en vegna drasls og brotaúrgangs, sem safnast hafði fyrir sunnan til við portið, gátu þeir ekki fært sorpmóttökuna fyrr en hreinsað hafði verið til. Það skyldi þó ekki vera, að þessi grein í síðasta tölublaði Bæjarins besta og umrædd urðun sé vegna umræddra myndbirtinga og einhver eða einhverjir talið sig þurfa að taka það til sín.

Nóg er sagt að sinni og nú ætla ég út að taka til, því alltaf má gera betur og það styttist í 25 ára afmæli Vélvirkjans.

Með kveðju. Víðir Benediktsson, framkvæmdastjóri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi