Grein

Einar Oddur Kristjánsson.
Einar Oddur Kristjánsson.

Einar Oddur Kristjánsson | 15.10.2002 | 09:35Hvar á Orkubú Vestfjarða heima?

Allt frá upphafi rafvæðingar hefur það verið meginmál allra sveitarstjórnarmanna og alþingismanna að reyna eftir fremsta megni að byggja upp dreifikerfi og tryggja varaafl á svæðinu. Með stofnun Orkubús Vestfjarða tóku Vestfirðingar þessi mál í sínar hendur, fyrst og fremst vegna þess að þeim þótti þessir hlutir ganga seint fram undir forræði ríkisins. Í stuttu máli má fullyrða að allt hafi gengið eftir um þau markmið sem sveitarstjórnarmenn Vestfjarða settu sér í upphafi þegar fyrirtækið var stofnað. Ég þykist kunna þetta mjög vel því þá var ég í hópi sveitarstjórnarmanna á svæðinu. Sala vestfirsku sveitarfélaganna á hlut sínum í Orkubúinu á seinasta ári var mörgum mikið tilfinningamál og margir hörmuðu þá gerð. Aðalatriði málsins er þó að Orkubú Vestfjarða er mjög góð rekstrareining. Það hefur tekist ákaflega vel að byggja upp traust og öruggt dreifikerfi, mjög mikið varaafl er til staðar á svæðinu og fyrirtækið er í stakk búið til að selja rafmagn á hagstæðara verði til neytenda hér á Vestfjörðum en aðrir.
Hvað sagði ríkisstjórnin?

Þegar sveitarfélögin seldu ríkinu eignarhlut sinn fylgdi með mjög skýr yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að þetta rekstrarform, þ.e. Orkubúið, skuli vera óbreytt að minnsta kosti þangað til og ef ný lög um skipan raforkumála tækju gildi. Í nokkur ár hefur staðið til að breyta raforkulögum á Íslandi vegna nýrrar tilskipunar frá Brüssel, sem ætlað er að taka gildi hér á landi vegna EES-samningsins. Í upphafi gerðu menn ráð fyrir að það væri nauðsynlegt að skilja algjörlega að dreifingu og framleiðslu á rafmagni og því væri nauðsynlegt að sundra öllum raforkufyrirtækjum landsins. Nú ætla menn hins vegar að þessa þurfi ekki, heldur sé nægjanlegt að skilja þessa þætti að bókhaldslega. Það er því engin nauðsyn sem knýr okkur til þess að skipta Orkubú Vestfjarða upp í einingar.

Hvað segir Valgerður?

Á liðnu sumri talaði iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mjög fyrir þeirri hugmynd að sameina Orkubú Vestfjarða Rafmagnsveitum ríkisins og Norðurorku á Akureyri. Ég hef mótmælt hugmyndum hennar harkalega alls staðar, af þeirri augljósu ástæðu, að sameiningin yrði ríkinu til einskis ávinnings en Vestfjörðum til óendanlegs tjóns. Þessi hugmynd Valgerðar um sameiningu orkufyrirtækjanna er algjörlega hennar einkaáhugamál. Engin slík ákvörðun hefur verið tekin í núverandi ríkisstjórn Íslands og ég er þess fullviss að engin slík ákvörðun mun verða tekin af núverandi ríkisstjórn.

Hvað með framtíðina?

Sameiningar fyrirtækja eru erfiðar og sársaukafullar aðgerðir sem reynsla sýnir að mjög oft misheppnast. Engin vissa liggur heldur fyrir um að slík sameining hafi nokkra hagkvæmni í för með sér. RARIK og Orkubú Vestfjarða eru sannarlega í eigu sama aðila, þ.e. ríkissjóðs. Þessi fyrirtæki munu geta náð öllum þeim framlegðaráhrifum sem möguleg eru með náinni samvinnu og samstarfi. Ég hef þegar beitt mér fyrir því innan stjórnar RARIK að þetta sameinaða starf hefjist nú þegar. Orkubú Vestfjarða er öllum íbúum svæðisins gríðarlega mikilvægt og því brýnt að allir standi vörð um þetta fyrirtæki sem lengi hefur verið og mun verða farsælt Vestfirðingum.

– Einar Oddur Kristjánsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi