Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

| 13.09.2000 | 17:40Horfum til einkaframtaksins

Það hafa orðið okkur mörgum gríðarleg vonbrigði hversu ríkið hefur dregið lappirnar við að færa verkefni út á land. Enginn vafi er á því að þetta er algjörlega í andstöðu við stefnumótun ríkisstjórnar og Alþingis. Á grundvelli þessarar stefnumótunar töldum við mörg, að fjölmörg verkefni sem nú eru unnin á höfuðborgarsvæðinu yrðu í framtíðinni framkvæmd utan þess. Það hefur hingað til farið á aðra leið og valdið vonbrigðum og vandræðum, eins og allir vita.
Þeim mun ánægjulegra er það að fylgjast með hvernig einkaframtakið er að vinna á þessu sviði. Þar þurfa menn að hugsa um budduna sína og tjóar ekki að sækja sér fjárhagslegan styrk oní vasa skattgreiðenda. Þeir sjá sér hag í því að koma starfsemi sinni fyrir úti á landi, í mörgum tilvikum, og vinna þá í samræmi við það. Þar er vinnumarkaðurinn stöðugri og húsnæðiskostnaður margfalt lægri. Vitaskuld sjá framsýnir einkaframtaksmenn einnig færi í því að fasteignaskattheimtan á landsbyggðinni muni stórlækka þegar efnd verða fyrirheit ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.

Góð tíðindi

Nýjustu áformin á þessu sviði urðu opinber gerð í síðustu viku er Gallup, öflugasta fyrirtækið á sviði skoðanakannana, lýsti vilja sínum til að setja niður starfsemi hér vestra. Þetta eru góð tíðindi. Enginn er sá Íslendingur sem ekki þekkir til starfsemi fyrirtækisins, vegna þeirra viðurhlutamiklu skoðanakannana sem það framkvæmir með reglulegum hætti. Vaxandi umsvif og aðrar aðstæður sýna stjórnendum þessa fyrirtækis fram á, að á Vestfjörðum sé gott starfsumhverfi fyrir rekstur af þessu tagi. Það væri fagnaðarefni ef hluti af starfsemi fyrirtækisins (og vonandi sem stærstur hluti) yrði unninn hér fyrir vestan. Það mun væntanlega koma í ljós á næstunni ef viðtökur við auglýsingum þess verða góðar.

Ríkisfyrirtækjunum skotið ref fyrir rass

Þar með gerist það með rækilegum hætti, að einkafyrirtækin skjóta trénaðri ríkisstarfseminni enn einu sinni ref fyrir rass. Í sumar benti ég einmitt á þetta í umræðunni sem þá átti sér stað um hlut hins opinbera í því að setja niður starfsemi á landsbyggðinni.

Þá þegar lá ljóst fyrir um allnokkur einkafyrirtæki, sem gagnstætt hinu opinbera voru að færa starfsemi af höfuðborgarsvæðinu og út á land – einfaldlega af því að stjórnendum fyrirtækisins þótti það skynsamleg aðgerð. Og enn er þetta að gerast.

Horfum til einkaframtaksins

Af þessu getum við Vestfirðingar dregið einn afgerandi lærdóm. Við eigum að beina sjónum okkar að einkafyrirtækjunum og reyna að laða þau með starfsemi sína til okkar. Á Vestfjörðum höfum við margt að bjóða, bæði fyrirtækjum og fólkinu sem í þeim starfar. Við vitum líka að margt ungt fólk flutti af landsbyggðinni vegna þess að það fann ekki verkefni við sitt hæfi í heimabyggðinni. Margir eru hins vegar óðfúsir að snúa til baka ef aðstæður bjóðast á atvinnumarkaðnum.

Það er því höfuðmál að okkur takist að skapa þessi atvinnutækifæri. Við vitum það nú af fenginni reynslu, að sáralítil von er til þess að það gerist með því að opinber verkefni verði sett hér niður, né annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Reynsla síðustu vikna bendir hins vegar eindregið til þess, að einkafyrirtækin séu í vaxandi mæli farin að horfa til landsbyggðarinnar. Við eigum þess vegna að einbeita okkur að því að auðvelda þeim það eins og við framast getum.

– Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi