Grein

| 13.09.2000 | 17:33Skoðið hug ykkar varðandi Orkubú Vestfjarða

Heiðruðu sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum. Fyrir rúmum 20 árum var það mikið kappsmál hjá þáverandi sveitarstjórnarmönnum og öðrum Vestfirðingum, að fá í eigin hendur forræði yfir orkumálum fjórðungsins, og upp úr því var Orkubú Vestfjarða stofnað. Þó að síðan þá hafi margt verið ámælisvert í stjórn fyrirtækisins og oft hafi gnauðað um það og starfsmenn þess, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi, þá held ég að í heildina séð hafi stofnun fyrirtækisins og forræði okkar Vestfirðinga á þessum málaflokki verið okkur til góðs.
Því finnst mér, bæði sem gömlum starfsmanni og íbúa hér á Vestfjörðum, alveg grátlegt ef þið ætlið nú á þessum umbrotatímum í orkumálum landsins að fara að selja hlut okkar Vestfirðinga í fyrirtækinu. Er svo sorfið að sveitarfélögunum í peningamálum, að eina leiðin er að selja Orkubúið? Eru það félagslegar íbúðir sem eru að sliga sveitarfélögin? Ef svo er, þá er það skammgóður vermir að selja Orkubúið. Til hvers er að eignast íbúðir sem enginn vill búa í, í stað þess að eiga fyrirtæki sem með með styrkri stjórn og bættum rekstri mun í framtíðinni skila eigendum sínum arði? Og gerir það nú, því að gjaldskrá Orkubúsins er einhverjum prósentum lægri en Rarik og það er hagur eigendanna, þ.e. okkar.

Nú heyrist meðal manna að breyta eigi félaginu í hlutafélag, síðan muni ríkið kaupa hlut sveitarfélaganna smátt og smátt eftir því sem þau vantar peninga og að síðustu muni ríkið steypa Orkubúinu og Rarik saman, í anda sameiningar og hagræðingar. Ef mál þróast á þennan hátt, þá munum við tapa úr fjórðungnum a.m.k. fjórtán störfum. Þar á ég við nánast öll störf sem nú í dag eru unnin á Stakkanesinu á Ísafirði. Tæknideild og fjármáladeild verður lokað og það þýðir ekkert að láta sig dreyma um eitthvað annað. Ef gefin verða loforð um einhverja vinnu í stað þeirra mun það aðeins verða um stundarsakir. Seinna meir mun sökum óhagræðis ekki vera talið hagkvæmt að vinna störfin hér fyrir vestan, heldur í hinum væntanlegu höfuðstöðvum Rarik á Akureyri.

Því bið ég ykkur: Skoðið ykkar hug, athugið hvort ekki er hægt að nota fyrirtækið og styrk þess til að efla atvinnulíf í fjórðungnum. Af hverju er t.d. ekki ráðist af alvöru í Glámuvirkjunina? Fyrirtækið yrði að sjálfsögðu skuldsett í einhvern tíma en þetta skapaði vinnu á meðan á framkvæmdum stæði og skilaði stórauknum tekjum á eftir. Við yrðum sjálfum okkur nægir með rafmagn og næðum að selja orku úr þessari auðlind okkar.

Að síðustu óska ég Orkubúinu alls hins besta í framtíðinni og vona að það eigi glæsta framtíð fyrir sér – í höndum okkar Vestfirðinga.

– Henrý Bæringsson, fyrrverandi starfsmaður OV og einn af þeim sem langar til að búa áfram á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi