Grein

Jón Arnar Gestsson.
Jón Arnar Gestsson.

Jón Arnar Gestsson | 21.08.2002 | 13:50Gatnagerðaframkvæmdir

Nú er svo komið að gatan sem ég bý við er búin að vera sundurtætt alveg síðan í byrjun júlí ef ekki lok júní. Allavega var byrjað að grafa í götuna rúmlega viku fyrir Sælu, en tímabil hjá okkur Súgfirðingum er miðað við fyrir og eftir Sælu. Og enn í dag þá er verið að skröltast í götunni, sem sagt búið að taka a.m.k. Sex vikur að gera það sem gert hefur verið og ekki er það búið enn. Allavega eru opnir skurðir og búið að rífa ofan af götunni til að lækka hana og síðan á að bæta við efni ofan á og enda á að setja slitlag ofan á allt saman, eða þetta skilst mér að eigi að koma út úr þessum framkvæmdum þegar þeim líkur.
Ekki er ég að tala um að ekki hafi verið nauðsynlegt að skipta um lagnir í götunni, það er hið mesta þarfaverk. En alla síðustu viku (12.-18. ágúst) sást ekki nokkurt tæki eða maður að vinna við götuna, og gatan eins og sprungið jarðsprengjusvæði. Og það að þetta þurfi að taka allan þennan tíma, ég einhvern vegin efast um að það hefði verið leyft í öðrum bæjarfélögum.

Og síðan gerðis smá óhapp, en það vildi svo illa til að þegar var verið að grafa skurf númer guðmávitahvað, þá fór grafan óvart í gegnum símastrenginn sem liggur inn í húsið hjá mér. En gröfumaðurinn er nú þannig gerður að hann reddar því sem hægt er að redda og lætur síðan vita. Nú hann fór og snéri saman vírana og lét síðan Landsímann vita af óhappinu þannig að hægt væri að gera fullnaðarviðgerð á strengnum. En hvað gerðist hjá LÍ? Þeir komu fimm dögum síðar þegar búið var að minna þá á að strengurinn væri slitinn. Ekki var nú verið að flýta sér mikið á þeim slóðum.

Alveg er það furðulegt hvað hlutirnir þurfa einhvernvegin að ganga hægt fyrir sig, halda þeir sem fyrir þessum ósköpum standa að við sem hér búum séum svo ánægð með að fá loksins bundið slitlag á götuna að við höfum þolinmæði í þetta í marga mánuði. Ef ég hefði séð flokka manna sem hefðu verið að vinna hér stöðugt, þá hefðu hlutirnir litið öðruvísi út. En ef satt skal segja þá hafa menn verið hér á stangli, helst þeir sem voru að klára að tengja inn nýja kaldavatnslögn í dag (20. ágúst) þar var einhver her manna að ganga frá, en samt eru þeir búnir að vera nokkuð lengi að, miðið við hvenær grafið var fyrir lögninni inn í húsið hjá mér.

Ég er nú orðin nokkuð þreyttur á þessu ástandi og vill endilega að farið verði að klára þennan spotta, allavega þannig að hægt sé að nota þessa götu þangað til hægt verður að leggja slitlagið yfir hana, en miðað við það sem á undan er gengið þá hef ég það á tilfinningunni að það hafist ekki fyrir jól. En ég vona að ég hafi rangt fyrir mér í þessu.

Með kveðju úr Sætúninu á Suðureyri
Jón Arnar Gestsson, Sætúni 8.


Greinin birtist á heimasíðu Jóns Arnars.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi