Grein

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Karl V. Matthíasson alþm. | 06.08.2002 | 10:38Belti og axlabönd

Það er hrikalegt hversu mörg fyrirtæki voru úrskurðuð gjaldþrota í júní síðastliðnum. Ástæða þessara miklu gjaldþrota er ekki síst vaxtaokrið sem viðgengst í þessu landi. Á síðustu dögum þingsins í vor vakti ég utandagskrárumræðu sem hafði yfirskriftina: „Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu.“ Þar kom ég inn á vaxtaokrið og hið séríslenska fyrirbæri sem verðbætur eru. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að allt of háir vextir ættu stóran þátt í þessum gjaldþrotum og auknum vanskilum.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var til svara og tók hún undir þessi sjónarmið að nokkru leyti a.m.k. og „toppaði“ málið með því að tala um breytilega vexti „verðbótalána“ og taldi í því sambandi óeðlilegt að bankarnir notuðu bæð belti og axlabönd. Síðan komu fyrirheit frá ráðherranum um að athugað yrði hvort verðbætt lán bæru ekki fasta vexti. Við skulum vona að ráðherranum verði ágengt í þessari viðleitni.

Ég er þeirrar skoðunar að verðbætur séu fáránlegt fyrirbæri, a.m.k. við þær efnahagslegu aðstæður sem nú er í landinu. Mér er kunnugt um að margir hafa lent hrikalega út úr þeim. Auðvitað ætti að afnema þær með öllu og taka upp eðlilegt vaxtastig.

Ríkisstjórn sem sífellt gumar af því því að hún sé svo ofsalega klár í efnahagsstjórnun ætti ekki að óttast afnám verðbóta. Og ríkisstjórn sem talar um snertilendingu í efnahagslífinu og boðar að allt sé í stakasta lagi hlýtur að geta afnumið þetta hataðasta fyrirbæri í lánakerfi peningalífsins. Þetta vita allir.

En málið er bara það að ríkisstjórnin þorir ekki að afnema verðbæturnar af því að hún treystir ekki eigin efnahagsstjórnun. „Við skulum hafa verðbæturnar, svona til öryggis“, segja ráðherranrnir sín á milli, gæti ég trúað.

Hin mjúka „snertilending“ er í raun „brotlending“ hundraða fyrirtækja og þúsunda einstaklinga og jafnvel fjölskyldna. Endalausar okurdráttavaxtagreiðslur, okurvaxtagreiðslur, okurlántökukostnaður, verðbætur og stöðugar skatthækkanir eins og eldri borgarar sýndu nýlega fram bera því vitni.

Því miður verða flugstjórarnir ekki varir við neitt. Þeir heyra ekki bofs í þeim sem lenda undir breið-þotu-dekkjum ríkisstjórnarinnar sakir glasaglaums á fyrsta farrými. Flugstjórarnir halda að þjóðin sé um borð, en þeir hófu vélina til flugs löngu áður en svo varð.

Það er komin tími til þess að vaxtaokrinu linni og að sá hluti þjóðarinnar sem hefur setið hjá í „góðærinu“ fari að njóta þess. Annars mun gjaldþrotahrinunni ekki linna og æ, stærri hluti þegnanna fara á svarta listann eða lenda í fjárnámum og gjaldþrotum að lokum.

Þá er einnig kominn tími til að hafa aukinn aga í útlánastarfseminni hér á landi. Menn geta steypt sér í botnlausar skuldir án nokkurrar fyrirhafnar, slíkt er framboð peninganna og menn láta glepjast, því miður. Lánafyrirtæki finna sífellt snjallari ráð til að auka viðskipti sín og „neyslugleði“ neytenda. Nú eru kreditkortafyrirtæki komin með eitthvað sem heitir „veltukort“ og svo er „svarta kortið“ líka komið og er það fyrir ungt fólk sem eyddi of miklu, líklega með „hvíta kortinu“ hafi ég skilið þetta rétt. Og auðvitað endar þetta allt í okurvaxtabyrðinni að lokum.

Um leið og þetta er að gerast hagnast bankarnir um milljarða, þrátt fyrir öll gjaldþrotin. Og allan þennan gróða verða þeir svo að ávaxta með því að lána nýjum viðskiptavinum, sem verða stöðugt yngri og yngri.

Hver verður framtíð barnanna okkar ef ekkert verður að gert?


– Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi