Grein

Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Vesturlandi.
Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Vesturlandi.

Jóhann Ársælsson alþm. | 01.08.2002 | 15:36Sparisjóðirnir

Mikil umræða hefur staðið að undanförnu um þær fyrirætlanir stofnfjáreigenda í SPRON, að selja Búnaðarbankanum yfirráð yfir bæði sínum eignarhlut og fjármunum sem samkvæmt stofnskrá eiga að renna til tiltekinna þjóðþrifamála. Þetta telja stofnfjáreigendur sig geta á grundvelli þeirra laga um viðskiptabanka og sparisjóði, sem sett voru á Alþingi á árinu 2001. Ýmsir þingmenn, m.a. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hafa sagt að þetta stæðist ekki lög og væri andstætt vilja Alþingis. Þeir hafa talað eins og þeir værru undrandi á því að mál af þessu tagi gæti komið upp. Þó var ítrekað varað við nákvæmlega þessum afleiðingum lagasetningarinnar í umræðum um málið á Alþingi.
Hvað borgar hann mikið til stjórnarinnar?

Pétur Blöndal alþingismaður fer fyrir hópi manna sem ætla að selja sinn hlut í SPRON og vilja fá í leiðinni verulega fjármuni fyrir þau yfirráð sem þeir hafa samkvæmt lögunum yfir fé sem þeir eiga ekki. Í umræðum um málið spurði ég hann eftirfarandi spurningar:

„Síðan langar mig að spyrja hv. þm. sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér, hvernig hann sjái fyrir sér stöðu þessara sparisjóða og gagnvart því að aðilar myndu vilja eignast þá. Þá þarf að ná samningi við þá sem stjórna sparisjóðunum um kaupin. Það er sem sagt hægt að kaupa sig inn í veisluna, finnst mér, kaupa sparisjóðina upp með samningi við fáa stofnfjáreigendur, samningi við stjórnir sparisjóðanna og í gegnum þetta. Ég spyr: Er hugsanlegt að menn séu að verðleggja eigið fé sem þeir eiga ekki inni í þessari sölu, þ.e. ráðin yfir því eigin fé sem er í öllum sparisjóðnum?“

Þó að þingmaðurinn kysi að svara því ekki beint hvaða stöðu stofnfjáreigendur fengju var svarið athyglisvert. Hann sagði: „Síðan er spurning hvað gerist í samningum við stjórn. Ég benti á það áðan að stjórnin verður að samþykkja framsal á hlutum. Þar af leiðandi verður stjórnin á þeim tímapunkti áður en breytt verður í hlutafélag afskaplega valdamikil. Hún hefur þetta allt í hendi sér. Hún gæti t.d. heimilað að einhver stór aðili keypti alla hluthafana út á mjög háu verði og þá er spurningin, ég þori varla að segja það: Hvað borgar hann mikið til stjórnarinnar?“

Þjóðin hefur fylgst full undrunar með darraðardansinum um SPRON. Pétur Blöndal hefur kosið sér það hlutskipti að vera í fyrirsvari fyrir menn sem vilja græða á fé sem þeir eiga ekki með því að selja yfirráðin yfir því. Orð hans á Alþingi eru opinber gögn.

Eftirfarandi spurningar hljóta að vakna:

– Hefur sá hópur stofnfjáreigenda, sem hann fer fyrir, boðið stjórn SPRON fé fyrir að samþykkja fyrirhugaðan gerning?

– Hefur hópurinn, sem hefur lýst því yfir að hann ætli að setja stjórn SPRON af, boðið aðilum sem eiga ríflega hluti eða geta tryggt yfirráð yfir slíkum hlutum stjórnarsetu með góðum kjörum?

Ádeiluverð hroðvirkni á Alþingi

Vinnubrögð Alþingis við þá lagasetningu sem hefur valdið þessum umbrotum er ádeiluverð. Afstöðu stjórnarliða er ágætlega lýst í andsvari viðskiptaráðherra við áhyggjum, viðvörunum og athugasemdum mínum við frumvarpið.

Ráðherrann sagði: „Hæstv. forseti. Það er þetta með hver á hvað. Ég segi það aftur við hv. þm.: Hver á að fara með þennan eignarhlut ef ekki þeir sem eru þó stofnfjáreigendur? Við höfum bókstaflega ekki aðra útgönguleið ef við viljum yfirleitt breyta lögum um sparisjóði og gera þeim mögulegt að eiga möguleika í þeirri hörðu samkeppni á fjármagnsmarkaðnum. Ég tel eðlilegt að hv. þm. og aðrir hafi efasemdir um málið og um þetta atriði en ég hef ekki heyrt að nokkur hafi getað bent á betri leið til þess að ná fram því markmiði sem ég held að við öll eða allflest stefnum að í sambandi við frv.“

Þetta svar sýnir, að áhuginn fyrir því að leita leiða sem ekki hefðu hættur af því tagi sem sannanlega mátti sjá fyrir var enginn, og niðurstaða stjórnarmeirihlutans var samkvæmt því gamla máltæki, að betra er illt að gera en ekki neitt. Sú krafa hvílir nú á Alþingi að taka þetta mál til vandaðrar meðferðar, þar sem tekið verði fullt tillit til þess skýra vilja sem fyrir liggur í stofnskrám sparisjóðanna um það hvert arður af starfsemi þeirra skuli renna.

– Jóhann Ársælsson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi