Grein

Jón Bjarnason alþingismaður.
Jón Bjarnason alþingismaður.

Jón Bjarnason, alþm. | 29.07.2002 | 15:40Sparisjóðirnir – hugsjónir eða tómar skeljar?

Sparisjóðirnir voru stofnaðir snemma á síðustu öld. Meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, í reynd almennings, þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Þeir hafa veitt almenna fjármálaþjónustu á sínu starfssvæði og unnið á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á sínu heimasvæði. Markmið þeirra hefur ekki verið að hámarka arðgreiðslur til einstakra stofnfjáreigenda. Afar ströng skilyrði voru sett fyrir starfsleyfum sparisjóðanna. Þeir voru menningar- og þjónustustofnanir og nutu af þeim sökum skattfrelsis allt til ársins 1983.
Í samþykktum sparisjóðanna er kveðið á um slit sjóðsins:

„Aðeins er heimilt að sameina sparisjóðinn öðrum sparisjóði. Þegar skuldir sparisjóðsins hafa verið greiddar vegna slita á starfsemi sparisjóðsins skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum sjóðsins. Þeim eignum er þá kunna að vera eftir skal ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfsvæði sparisjóðsins.“

Í þessu endurspeglast sá grundvallarmunur sem er á sparisjóði og hlutafélagsbanka sem starfar eins og hvert annað fyrirtæki.

Í hugum fólks stendur heitið sparisjóður fyrir ofangreindum gildum. Sé þessum grundvallarmarkmiðum breytt, eru jafnframt brostnar forsendur fyrir því að halda peningum saman í nafni viðkomandi sparisjóðs. Ber þá að leysa hann upp og ráðstafa eigum hans eins og stofnsamþykktirnar kveða á um.

Skyldur og horfnir sparisjóðir

Fyrir nokkrum áratugum gekk ákveðin hrina yfir þar sem margir sparisjóðir hurfu inn í eða urðu stofn að útibúum annarra bankastofnana, fyrst og fremst Búnaðarbanka eða Landsbanka. Öflugir sparisjóðir, svo sem Sparisjóður Akraness, Sparisjóður Dalamanna og Sparisjóður Sauðárkróks, svo nokkrir séu nefndir, hurfu inn í næsta bankaútibú þar sem höfuðstóll þeirra brann upp. Yfirtökurnar voru gerðar í því ljósi að þessir bankar voru þá að fullu í ríkiseign og enn litið á þá sem þjónustustofnanir fyrir fólk og atvinnulíf en ekki fyrirtæki sem bæri fyrst og fremst að skila hámarksarði til eigenda sinna.

Þetta hafði takmarkaða breytingu í för með sér á meðan viðkomandi útibú starfaði eftir gildum sparisjóðanna og naut verulegs sjálfstæðis og sinnti sínu nærumhverfi. Nú eru flest útibúin orðin valdalitlar afgreiðsludeildir frá miðstýrðum höfuðstöðvum, sem geta borið aðra hagsmuni fyrir brjósti en að efla þjónustu við íbúa í fjarlægum héruðum. Lokun útibúa hlutafélagavædds Landsbanka víða um landið á síðasta vetri er gott dæmi þar um. Við einkavæðingu og sölu ríkisbankanna þarf að kanna réttarstöðu þeirra sparisjóða og þess fjármagns almennings, sem hvarf inn í þá banka sem nú er verið að selja í hendur einkaaðila. Var sá samruni eða yfirtaka á sínum tíma án skilyrða.?

Einkavæddur og seldur Búnaðarbanki eða Landsbanki mun ekki bera neinar staðbundnar skyldur og starfar á allt öðrum forsendum en sparisjóðirnir gera samkvæmt skipulagsskrám sínum.

Hvar er sparisjóðurinn minn ?

Sú var tíðin að dreifræði og fjölbreytni var styrkur atvinnulífs og þjónustustarfsemi hérlendis. Fyrirtækjum var stjórnað þar sem þau störfuðu, af fólki sem þekkti vel til staðhátta og gerði sér gjörla grein fyrir því að reksturinn snerist um fólk en ekki dauðar tölur.

Fari hlutafjárvæðing og sala á sparisjóðunum í gang með þeim hætti sem nú er til umræðu má búast við skriðu sem ekki verður stöðvuð. Eitt er víst að mörg byggðarlög sem nú njóta góðs af starfsemi sparisjóðs munu standa snauðari eftir ef þessum þjónustustofnunum verður fórnað á altari gróðasjónarmiða fjármagnseigenda í fjarlægum landshlutum. Mér verður hugsað til Sparisjóðs Mýrasýslu, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Strandamanna, Sparisjóðs Þórshafnar o.s.frv. sem í fljótu bragði virðast óaðskiljanlegur hluti sinna nærsamfélaga en gætu samt orðið auðveld bráð stórra fjármálstofnana. Yfirlýsingar bankastjóra Búnaðarbanka, Landsbanka og Íslandsbanka þessa dagana staðfesta að svo muni fara nái vilji þeirra fram að ganga.

En er það vilji þjóðarinnar? Ég held ekki!

„Margur verður af aurum api“

Títtnefndir stofnfjáreigendur sparisjóðanna eiga aðeins brot af heildarfé sparisjóðanna. Um 90% er í eigu sparisjóðsins sjálfs. Þeir sem aðhyllast einkavæðingu almenningseigna keppa nú um yfirráð á þessum samfélagsverðmætum. Annað hvort er það gert með því að hlutafélagavæða sparisjóðina eða með því að kaupa stofnfjáreigendurna út jafnvel á yfirverði.

Hins vegar mega sparisjóðir ekki starfa sem tómar skeljar göfugra markmiða sem frumherjarnir se


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi