Grein

Jón Arnar Gestsson.
Jón Arnar Gestsson.

Foreldrar á Suðureyri | 18.07.2002 | 09:53Hvers vegna við fluttum börnin okkar úr skóla á Suðureyri?

Þar sem formanni fræðslunefndar og öðrum fræðslunefndarmönnum virðist sem það sé réttlætanlegt að reka börn úr skóla til að vita hvers vegna þau eru ekki í einhverjum öðrum skóla, þá sjáum við okkur knúin til þess að koma því til skila. Ástæða þess að við kjósum að gera það á þessum vettvangi er sú að þær ástæður sem gefnar voru upp þegar við fluttum börnin hafa aldrei komið á borð skólanefndar, og svo virðist sem skólinn hér hafi ekki tekið sig á og lagfært það sem að var. Öðru nafni, málin virðast alltaf hafa verið svæfð og ekkert gert í þeim, og því viljum við að hlutirnir séu gerðir opinberir þannig að ekki sé hægt að segja það að ekki sé sagt frá því sem gerðist.
Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma, eftir samræður við skólastjóra Grunnskólans á Suðureyri, grunnskólans á Ísafirði og forstöðumanneskju skólaskrifstofu sem þá var að þetta var besta lausnin fyrir okkur og okkar börn. Það er ekkert grín að standa í því að flytja börn á milli skóla, nýir félagar, nýir siðir, nýjar reglur, sem sagt allt nýtt. Þannig að við neytum því að gera sama gjörningin aftur og þá sérstaklega vegna þess að börnin okkar vilja það ekki.

Ástæða brottflutnings á sínum tíma var sú að skólinn hér sinnti ekki þeim skyldum sem á hann eru lagðar í dag. Einelti var viðvarandi, kennarar eða starfsmenn skólans gerðu ekkert í því að koma í veg fyrir það, sérkennslu var ábótavant. Kennarar töluðu niður til krakkana og uppnefndu þau með orðum eins og sauður, asni og vitleysingur. Þetta eru orð sem allir nota til að lýsa vanþóknun á annarri persónu. Eftir margar kvartanir, ferðir til skólastjóra, umsjónarkennara og forstöðumanns skólaskrifstofu var ekkert eftir í stöðunni en að fara þessa leið.

Þegar þannig er að kennurum er illa við nemendur, þá er bara um tvennt að velja, en það er annað hvort að losa sig við kennarann eða barnið. Við fórum þá leiða að taka okkar börn úr skóla til þess að þau þyrftu ekki að láta fara svona með sig, þannig héldum við í einfeldni okkar að málin myndu leysast þar sem kennarar og aðrir starfsmenn skólans voru lausir við þessi börn og gætu einbeitt sér að því að kenna hinum, en samkvæmt þeim upplýsingum sem núverandi Skóla- og fjölskylduskrifstofa er að gefa út, þá hefur það ekkert lagast heldur hafa viðkomandi fundið sér önnur fórnarlömb til að níðast á.

Oft á tíðum er það þannig að nemendur eiga erfitt í skóla, þau geta verið óstýrilát og storkað kennara, en það að leysa málin á þennan hátt að gera lítið úr viðkomandi einstakling er bara ekki rétta aðferðin. Þar með erum við ekki að segja að börnin okkar hafi verið neitt verri en önnur.

Sama hvað talað var við viðkomandi skólastjóra og umsjónarkennara þá breyttist ekkert. Mönnum fannst ekkert að, og finnst greinilega ekkert að í dag. Þar sem fólk telur að besta leiðin sé að sækja börn í aðra skóla setja í gamla skólann og sjá til hvort eitthvað hafi breyst. Börnum okkar líkar mjög vel í skóla á Ísafirði, þau hugsa með hryllingi til þess ef þau verða skikkuð til baka af greinilega misvitrum stjórnendum skólamála hér í bæ. En við segjum við ykkur sem fyrir þessu standið að þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að okkar börn fari aftur í skólann á Suðureyri, allavega meðan stjórnkerfið sem nú er við lýði, þ.e. fyrirskipanir, fyrirlitning og afskiptaleysi.

Það síðasta sem við viljum gera er að flytja frá Suðureyri, en ef það verður ofan á, þá verður það gert í einni eða annarri mynd. Það að hætta sé á að skóli sé að leggjast niður á Suðureyri er ekki okkar vandamál, það er vandamál þeirra stjórnenda sem þar stýra. Og að ætla sér að skylda fólk til að gera það sem það vill ekki gera, ekki taka þátt í eða bara á nokkurn hátt vita af, það er alveg forkastanlegt og skulu viðkomandi hugsa um vandamálið sem hlýtur að vera í skólanum úr því svona er komið, heldur en að vera að reyna að draga saklausa aðila sem eru fyrir löngu búin að gefast upp á þessari vitleysu inn í þessi mál.

Suðureyri 17. júlí 2002.
Jón Arnar Gestsson,
Burkni Dómaldsson,
Violetta Maria Leskooska,
Agneeseke Ambrozoh.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi