Grein

| 16.08.2000 | 16:46Alþjóðadagur sjúkraþjálfunar

Alþjóðadagur sjúkraþjálfunar er 8. september. Af því tilefni verður víða um land opið hús hjá sjúkraþjálfurum, þar sem almenningi gefst kostur á að koma og skoða vinnuaðstöðu, kynna sér starfsemina og þiggja léttar veitingar. Þennan dag stendur til að hafa opið hús á endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ, sem er á neðstu hæð sjúkrahússins.
Opna húsið verður betur auglýst þegar nær dregur en fram að þeim tíma munum við, sjúkraþjálfarar á Ísafirði, birta hér í BB greinar um ýmiskonar efni sem tengist okkar fagi.
Með kveðju,Veiga, Sigga Lára, Jóna Björg og Óli,sjúkraþjálfarar Ísafirði.
Alltaf að drepast í bakinu?

Mjög margir, ef ekki bara flestallir, kannast við það að hafa haft einhvers konar óþægindi frá bakinu um lengri eða skemmri tíma. Algengastir eru verkir í mjóbakinu, sem er svæðið frá rifjunum og niður að mjaðmagrind.

Stundum getur fólk tengt bakverkinn við eitthvert eitt atvik þar sem of mikið var lagt á bakið eða tekið á með röngum hætti. Ein þung lyfta eða snöggur hnykkur getur verið nóg til að fá heiftarlega í bakið. Oft er þó engin augljós orsök fyrir bakverknum og vilja það gjarnan verða þrálátustu verkirnir og erfiðastir viðureignar.

Af hverju stafar bakverkurinn?

Bakverkurinn getur átt sér ýmsar skýringar. Það getur verið komin slitgigt í bakið; það getur verið brjósklos; skrið getur verið komið í lið og svo má lengi telja hugsanlega möguleika.

Í langflestum tilfellum er þó undirliggjandi orsök sú, að vöðvar í mjóbakinu eru orðnir of veikir og veita hryggnum ekki þann stuðning sem nauðsynlegur er. Þetta getur stafað af áverka eða ofálagi, sem valdið getur tognun á vöðva, sem þá verður ófær um að gegna hlutverki sínu. Of lítið álag getur líka verið orsökin, því að við of litla notkun rýrna hreinlega vöðvar og hætta smátt og smátt að ráða við að veita hryggsúlunni stuðning.

Mjóhryggurinn treystir á vöðvana!

Beinagrindin er stoðgrind líkamans og án hennar gæti hann ekki staðið uppréttur. Mjóhryggurinn, sem er nokkurs konar miðkafli í beinagrindinni, samanstendur af fimm beinkubbum sem raðast hver ofan á annann. Á milli þeirra eru svo mjúkir liðþófar. Meiri beinagrind er ekki á þessu svæði í skrokknum. Utan á mjóhrygginn festast svo liðbönd og vöðvar og frá hverjum lið liggja vöðvar bæði upp og niður. Helsta hlutverk þessara liðbanda og vöðva er að halda hryggsúlunni stöðugri og þetta kerfi þarf að sjá um að halda uppi öllum efri hluta líkamans.

Ef þetta vöðvakerfi fer að gefa eftir á einhvern hátt eykst álagið á liðböndin og liðþófana sem því nemur. Mjóbakið verður því mun viðkvæmara fyrir áföllum og hætta getur verið á að liðir fari að hreyfast óeðlilega, sem valdið getur meðal annars brjósklosi, læsingum og seinna aukinni slithættu.

Hvað á að gera þegar maður fær í bakið?

Gamalt húsráð við bakverk er að liggja á hörðu og bíða eftir að verkurinn líði hjá. Þetta er fólk nú almennt sammála um að sé ekki alveg það rétta, því langar rúmlegur eru með því verra sem hægt er að bjóða heilbrigðum skrokk og með ólíkindum hvað vöðvar eru fljótir að byrja að rýrna við slíkar aðstæður.

Það er auðvitað réttlætanlegt að liggja fyrir ef annað er ekki hægt, en því fyrr sem fólk treystir sér að fara að hreyfa sig aftur, því betra. Flýtt getur fyrir bata að gera léttar liðkandi og styrkjandi æfingar til að hjálpa vöðvum að fara aftur að vinna á réttan hátt og liðum að hreyfast eðlilega. Í mörgum tilfellum dugar þetta og verkurinn fer á nokkrum dögum. Ef það hins vegar gerist ekki eða verkurinn fer versnandi er full ástæða til að leita læknis.

Er hægt að minnka líkurnar á bakverk?

Besta leiðin til að minnka líkurnar á bakverk er að halda bakinu í góðu formi, bæði með því að passa upp á að bak- og kviðvöðvarnir haldi góðum styrk og með því að vera almennt í góðu líkamlegu formi. Þá þarf alltaf að passa að beita bakinu rétt, sérstaklega þegar verið er að beygja sig, lyfta, spila golf eða hvað það sem kallar á að beita þurfi bakinu.

Það að losa sig við bumbuna getur gert kraftaverk fyrir bakið. Alþekkt er að óléttar konur eiga á hættu að fá í bakið og það sama á við um þá sem belgmiklir eru af öðrum orsökum. Þessir þættir koma alls ekki í veg fyrir að fólk geti fengið í bakið en þeir geta dregið úr líkunum, og það sem meira er, að fólk í góðu formi á betra með að ná sér aftur.

Byggt að hluta á punktum af hinum ýmsu netsíðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi