Grein

Albertína Elíasdóttir<br>og Kristrún Helga Ólafsdóttir.
Albertína Elíasdóttir<br>og Kristrún Helga Ólafsdóttir.

Vinnuskóli Ísafjarðarbæjar | 07.06.2002 | 15:22Sumarstarf Vinnuskólans að byrja

Á miðvikudaginn, 12. júní, byrjar Vinnuskóli Ísafjarðarbæjar þriðja starfsár sitt undir Félagsmiðstöð Ísafjarðarbæjar. Starfsemi Vinnuskólans hefur breyst gríðarlega frá því sem var í upphafi og verða í sumar starfandi níu deildir. Fjölmennasta deildin er almenn deild sem sinnir að mestu þeim verkum sem Vinnuskólinn hefur unnið til þessa. Leiklistardeild eða Morrinn verður starfandi í sumar eins og fyrri sumur, umhverfisdeild sinnir ýmsum verkefnum, t.d. á útivistarsvæðum, og þjónustudeildin sinnir verkefnum fyrir stofnanir Ísafjarðarbæjar. Sláttur og garðaþrif er deild sem býður upp á slátt, grashirðu og hreinsanir á heimagörðum en húsa- og málningardeild hefur umsjón, eftirlit og viðhald með áhöldum og tækjum, auk þess að stunda létta málningarvinnu.
Þá hefur sú hefð skapast að Vinnuskólinn lánar unglinga til ýmissa starfa, svo sem á íþróttavelli, golfvelli og í gróðursetningu. Einnig verða unglingar sendir til hreinsunarstarfa á Hornströndum nokkrum sinnum yfir sumarið ásamt flokkstjóra líkt og síðustu sumur. Það verkefni er unnið í samstarfi við Náttúruvernd ríkisins.

Í sumar mun ný deild taka til starfa í Vinnskólanum og nefnist hún deild 21. Hún mun starfa að umhverfismálum í samræmi við Staðardagskrá 21 sem Ísafjarðarbær er aðili að. Ákvörðun um gerð Staðardagskrár 21 var tekin á heimsráðstefnunni í Ríó vorið 1992. Staðardagskrá 21 er eins konar heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Hugmyndin á bak við deild 21 Vinnuskólans er að reyna að vekja áhuga hjá unglingunum á umhverfismálum og fá þá til að hugsa um umhverfi sitt, og þá ekki bara í sambandi við umhverfismál, heldur einnig að læra að taka tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta umhverfisins.

Í sumar munu þessir unglingar starfa að skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum sem öll miða að því að bæta umhverfið og örva eftirtekt. Af verkefnum má nefna ljósmyndaverkefni þar sem farið verður um Ísafjarðarbæ og teknar myndir af svæðum sem við teljum góð, slæm eða falleg. Hugmyndin með því verkefni er að fá unglingana til að svara spurningunni hvernig þau vilji að Ísafjarðarbær verði í framtíðinni. Þetta er einungis eitt af mörgum verkefnum sem unnið verður að í sumar og verða mörg þeirra verða einmitt unnin í samstarfi við fyrirtæki í bænum. Við viljum nota tækifærið og þakka þeim fyrirtækjum sem við höfum þegar talað við og öll hafa verið meira en til í að aðstoða okkur.

Síðustu ár hefur verið lögð mikil áhersla á að laga ímynd Vinnuskólans. Sem dæmi um breytingu má nefna að allir flokkstjórar eru reyklausir og þess sama er óskað af unglingunum og er þeim ekki leyft að reykja á vinnutíma. Lögð er áhersla á arðsemi af vinnunni enda fundum við síðasta sumar fyrir jákvæðri viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart vinnusemi unglinganna í Vinnuskólanum. Ekki heyrist lengur talað um letingja sem slóri allan daginn, heldur höfum við frekar verið að fá hrós fyrir vel unnin störf enda duglegir unglingar sem hafa verið að starfa hjá okkur.

Það er spennandi sumar framundan hjá Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar með frábærum unglingum og þróttmiklu starfi. Gleðilegt sumar!

Fyrir hönd Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.
Kristrún Helga Ólafsdóttir, yfirflokkstjóri.
Albertína Elíasdóttir, flokkstjóri.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi