Grein

Úlfar S. Ágústsson.
Úlfar S. Ágústsson.

| 26.01.2000 | 17:05Símaskráin og eðlisgáfur Vestfirðinga

Eru Vestfirðingar gáfaðri en fólkið á höfuðborgarsvæðinu? Ég er alls ekki frá því og greinilegt er að forráðamenn Landssímans eru alveg vissir um það. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að fólkið þar, um tveir þriðju hlutar landsmanna, geti ekki fundið númer í Símaskránni nema það hafi alla símnotendur á því svæði listaða eftir stafrófsröð. Meira segja er þar hent í sama stóra pottinn íbúum Grundahverfis á Kjalarnesi og fólki á sveitabæjum í Mosfellsveit. Og þar sem flestir kunna víst stafrófið er fremur auðvelt fyrir þá að finna rétta númerið.
Í dreifbýlinu er þetta með öðrum hætti. Að finna símanúmer þar krefst mikillar þekkingar á byggðaskipan og byggðasögu og símstöðvaskipan og lagningu símalína um landið, auk verulegrar almennrar skynsemi og innsæis.
Tökum dæmi.
Reykvíkingur ætlar að hringja í Pálma Jónsson, sem fæddur er og uppalinn á Ísafirði, hefur starfað fjölda ára hjá Orkubúi Vestfjarða eftir að hann komst á legg og býr enn í Ísafjarðarbæ. Reykvíkingurinn finnur Vestfirði í símaskránni og síðan Ísafjörð samkvæmt stafrófsröð. Þar er enginn Pálmi Jónsson. Við hér fyrir vestan getum auðvitað bent manninum á að Pálmi er fluttur um set að Mjólká í Þingeyrarhreppi hinum forna, sem tilheyrir Ísafjarðarbæ.

Ef Reykvíkingurinn fær að vita það mun hann fletta upp á Þingeyri, sem í Símaskránni heitir að vísu Ísafjarðarbær Þingeyri en er samt undir Þ en ekki undir Í í stafrófsröðinni í Vestfjarðahluta ritsins. Auðvitað finnur maðurinn Pálma ekki þar heldur, því eins og við hér vitum er Mjólká tengd símstöðinni á Bíldudal, þótt í allt annarri sýslu sé.

Ef maðurinn flettir svo upp á B í Vestfjarðahluta Símaskrárinnar, þá finnur hann þar einungis Bolungarvík, því að Bíldudalur tilheyrir Vesturbyggð, sameinuðu sveitarfélagi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Ef vesalings maðurinn heldur áfram að fletta Vestfjarðahlutanum kemur hann um síðir að Tálknafirði og stoppar þar og heldur að hann hafi flett framhjá Bíldudal á leiðinni suðureftir. Það er samt ekki rétt, því eins og við hér vitum öll vildu Tálknfirðingar ekki sameinast hinum sveitarfélögunum á sunnanverðum Vestfjörðum og eru því eins og eyja milli Bíldudals og Patreksfjarðar sem tilheyra báðir Vesturbyggð.

Ef söguhetja vor hefur ekki þegar gefist upp kemur hún loks í V og þar finnur hún Bíldudal og Pálma okkar Jónsson, búsettan að Mjólká í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Reykvíkingur sem leysir þessa þraut án aðstoðar er áreiðanlega gæddur talsverðri eðlisgreind og frábæru innsæi, auk þolinmæði, og á skilið að fá verðlaun eins og sirkushestur. Að öllum líkindum er hann burtfluttur Vestfirðingur.

Við sem enn þraukum hér vestra sjáum þetta auðvitað allt í hendi okkar af því að við erum Vestfirðingar. Auðvitað er engin þörf að breyta þessu, því að við getum látið okkur nægja að hringja hvert í annað og þurfum engin símtöl að sunnan.

Vonandi fer ekki fyrir okkur eins og vesalings Skagfirðingunum, þar sem öllum, og þar með talið íbúum þess eina sveitarfélags sem ekki vildi sameinast hinum, líkt og Tálknafjörður hér vestra, var skellt í einn pott undir nafninu Skagafjörður, þannig að þar finnst ekki Sauðárkrókur, ekki Hofsós, ekki Varmahlíð.

Það virðist augljóst að forsvarsmenn Landssímans trúa því sem sagt hefur verið um Skagfirðinga, að þeir hafi ekki vit á neinu nema hrossum og konum og ferskeytlum og láti þá þess vegna lúta sömu reglum og fáráðana á höfuðborgarsvæðinu.

Ef einhverjum þykir greinastúfur þessi í flóknara lagi, þá hefur hann væntanlega ekki lent í því að leita mikið í Símaskránni. Ef hann hins vegar skilur það sem hér hefur verið sagt, þá getur hann örugglega haft nokkurt gagn af henni.
Sennilega Vestfirðingur.
– Höfundur er hafnarvörður á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi