Grein

Guðjón M. Þorsteinsson.
Guðjón M. Þorsteinsson.

Guðjón M. Þorsteinsson | 31.05.2002 | 09:47Íþróttabærinn Ísafjarðarbær

Ég undirritaður hef verið tengdur íþróttamálum í um 27 ár og hef allar götur síðan reynt eftir megni að hafa mig allan að við að halda merki íþrótta á lofti. Ég hef mikla reynslu á sviði íþrótta og hef verið þátttakandi í frjálsum, sundi, fótbolta, handbolta, körfubolta, skíðum, golfi, skák, blaki, badminton og tennis. Ég hef spilað með landsliði og verið fararstjóri á nokkur stórmót með félags og landsliðum. Og hef einnig verið þjálfari í mörgum þessara greina fyrir utan að vera stjórnarmaður og framkvæmdarstjóri. Ég er handhafi silfurmerkis frá KKÍ, ÍSÍ og HSV og er virkilega hreykinn af því.
Margir spyrja sig hvað er svona merkilegt við það? Eiginlega ekkert er svarið, nema ef til vill það að ég hef lagt mig fram um að styðja við bakið á íþróttafólki og dreg mig ekki í dilka þegar kemur að því að koma okkur á kortið hér í Ísafjarðarbæ. Og þá er mér nokk sama hverjir skara fram úr hverju sinni. Það vill nefnilega þannig til að allar þessar íþróttagreinar hjálpa hvor annari við að styrkjast og eflast, ótrúlegt en satt! Og nægur er efniviðurinn!

En eitt er eilítið skrítið í þessum efnum. Það er þessi óþarfa öfund og rifrildi á milli íþróttagreina. Það vill svo einkennilega til að þetta er staðreynd enn í dag og ég er alltaf jafnhissa. Hvernig stendur á því að á meðan við erum að berjast fyrir tilveru okkar á móti liðum á stór Reykjarvíkursvæðinu ógurlegum kostnaði við að koma okkar fólki á mót suður, þá erum við að eyða púðri í að rífast innbyrðis hérna í okkar bæjarfélagi. Ekki mér vitanlega hefur íþróttahreyfingin hér í bæ sest niður og reynt að fá ódýrari fargjöld t.d. Er það ekki stórmerkilegt?

Við rífumst um krónur og aura, aðstöðu og aðstöðuleysi. En viti menn, einhvernveginn tekst okkur að koma upp afreksfólki í öllum íþróttagreinum hér í bænum. Þrátt fyrir aðstöðuleysi okkar! Við eigum landsliðsfólk í flestum greinum sem eru stundaðar hér og þá tekst okkur líka að sameinast eina helgi og verða í fimmta sæti á síðasta landsmóti. Okkar fyrsta mót og þar vorum við að taka þátt í öllum mögulegum og ómögulegum íþróttagreinum og eina helgi vorum við samnefnari íþrótta undir fána HSV. Það er nokkuð gott myndi ég segja, miðað við að við höfum enga aðstöðu og við tölumst varla við, nema að rífast um styrki, tíma og annað fáránlegt.

Ég er búinn að vera að reyna að vera samnefnari íþrótta og reyni að mæta á alla viðburði sem að tengjast íþróttum hér, þegar ég get. En ég hef fengið minn skerf af öfund og reiðiköstum frá misvitru fólki, sem hefur ekki á stundum haft fyrir því að kynna sér mig né mitt félag. Ég er maður sátta og samlyndist og er á því að ef að við sameinumst um eitt stórt mál þá eigum við eftir að verða stórveldi í íþróttum. Þetta stórmál er að setjast niður á málþing um íþróttir, þar getum við talað um hvað okkur vantar til að gera okkar fólki hærra undir höfði. Ég veit vel að aðstaða okkar hér í bænum er ekki næginlega góð, en ég veit líka að með innstilltu átaki frá okkur öllum þá munum við koma okkur upp þeirri aðstöðu sem að okkur sæmir. En við verðum að sýna þolinmæði og samstöðu. Þetta gerist ekki á einni nóttu, það er mergur málsins.

Ég er þess fullviss að ef að við förum að tala saman og kynnast hvort öðru betur þá munu hlutirnir ganga hraðar fyrir sig í því að koma Ísafjarðarbæ á kortið sem íþróttabær. En til þess að svo megi til takast þá verðum við að sýna hvort öðru áhuga, grennslast fyrir um hvað hver er að gera og mæta á atburði sem að eiga sér stað hér. Öll íþróttastarfsemi á rétt á sér, en við komust aldrei nægjanlega á flug ef að við ætlum að pukrast sitt í hvoru horninu og eyða ekki orðum á hvort annað nema til þess að öfundast og rífast. Það yrði mikil bragabót ef við byrjuðum í dag að eyða smá tíma í að kynna okkur stefnu hvors annars og mæta og styðja við bakið á hvort öðru, óháð íþróttagrein, kyni og aldri þátttakenda.

Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og hef trú á fólki sem byggir þennan bæ. Sýnum samstöðu og verum sýnileg. Það er fyrsta skrefið til stór afreka.

Áfram íþróttir.

Virðingarfyllst, Guðjón M. Þorsteinsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi