Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 15.05.2002 | 13:29Garðyrkjustjóri hefur látið hafa eftir sér

Í grein sem þær skrifa stöllur, Svanlaug Guðnadóttir og Guðríður Sigurðardóttir, leggja þær mér þau orð í munn að það þjóni engum tilgangi að fegra í Holtahverfi, því þau gangi svo illa um. Ég hef alltaf frekar reynt að hvetja fólk til að ganga vel um og hvetja til fegrunar en að rífa niður. Og mér þykir leitt þegar fólk leggur mér svona orð í munn. Það má til sanns vegar færa að ástandið milli Holtahverfanna er alls ekki gott. Og er þar mörgu um að kenna.
Það var lagt í að lagfæra svæðið fyrir nokkrum árum og gerður göngustígur. Þetta var að vísu gert af vanefnum eins og allt annað í fegrunarmálum bæjarfélagsins undanfarin mörg ár. En síðan var það Orkubú Vestfjarða og að ég held Síminn, sem þurftu að grafa upp leiðslur og annað. Það hefur ekki verið lagað. Lauslegar umræður hafa farið fram um lagfæringar, en það hefur ekki verið tekið nógu fast á þeim málum, og getur verið að ég eigi þar nokkra sök.

Um illa umgengni hverfisbúa vil ég segja að það má alltaf gera betur í umgengni og það er óskandi að íbúar tækju það til greina. Ég vil leggja áherslu á, að ef fólk er ekki ánægt með hvernig hefur verið staðið að lagfæringum á grænum svæðum undanfarin ár er ekki við mig að sakast, það hafa einfaldlega ekki verið lagðir neinir fjármunir í slíkt. Það hefur einungis verið varnarbarátta við að reyna að halda við því sem þegar er komið. Það er ekki hægt að gera neitt úr engu. Meðan Haraldur Haraldsson var bæjarstjóri Ísafjarðar, var lögð fram föst upphæð sem var til ráðstöfunar fyrir garðyrkjudeild, þetta var ekki há upphæð, um þrjár milljónir þegar best lét. En það var samt sem áður þá sem mesta uppbyggingin átti sér stað með að fjölga grænum svæðum. Þetta gerðist einvörðungu vegna þess að Haraldur var mjög áhugasamur um að fegra bæinn, og hann treysti mér til að vinna sem best úr þessu fé. Síðan þá hefur allt legið niður á við í sambandi við fjárframlög til fegrunarmála.

Það er einfaldlega ekki nægur áhugi á þessum málaflokki hjá því ágæta fólki sem ráðið hefur bænum síðan og ekkert meira um það að segja. Ég vil samt sem áður benda á að þrátt fyrir allt, þá hefur bærinn vakið athygli bæði gestkomandi og brottfluttra Ísfirðinga fyrir hve fallegur og snyrtilegur hann er orðinn. Við skulum muna að fyrir svona 20 árum var mjög oft talað um hve Ísafjörður væri sóðalegur bær, þetta heyrir enginn lengur.

Fyrst ég er byrjuð að skrifa þá má ég til að koma því að, að ég hef heyrt eftir einhverjum einstaklingum í hinum bæjarkjörnunum á pólitískum fundum undanfarið, að allt væri svo ómögulegt og ekkert gert og ekki sett niður blóm og svo frv. Ég vísa þessu heim til föðurhúsanna. Það hefur verið reynt að sinna öllum bæjarkjörnum, en það er nú svo að það er erfitt að fá fólk til starfa í litlu bæjarkjörnunum. Þar er talað um margskonar ástæður, sums staðar vilja menn fá hærri laun en gerist hjá bænum, annars staðar fá allir unglingarnir vinnu í fiskvinnslu sem er mjög gott. Það er alltaf til fólk sem er neikvætt og kvartar, og oft án þess að kynna sér málin. Við í garðyrkjudeild og unglingavinnu höfum reynt að vinna að því að snyrting sé sem mest framkvæmd heima, það er af þeim sem búa á staðnum. Eins og að ofan greinir þá hefur það gengið brösuglega. Við erum samt að vinna að því að koma þessu á sem bestan veg.

Í Guðanna bænum stelpur, ekki nota þessi rök að heyrst hafi eftir mér að það þjóni engum tilgangi að fegra. Ef ég hugsaði svona, þá hefði ég ekki verið eins og landafjandi um allan bæ að berjast við að setja gras og plöntur sem mest ég mátti af vanefnum, og það þrátt fyrir að sumir gangi um bæinn eins og þeir hafi aldrei geta tekið beygju í sínu lífi, en labba bara beint yfir hvað sem fyrir er. Ég get vel skilið að þið séuð ekki ánægðar með hverfið, en það er við aðra að sakast en mig. Hverjir hafa verið við stjórnvölinn undanfarin ár? Við skulum hafa það í huga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir. Höfundur er garðyrkjustjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi