Grein

Herdís Hübner.
Herdís Hübner.

Herdís Hübner | 02.05.2002 | 11:33Hugleiðingar um stríð og frið í tilefni morgundagsins

,,Það er vorhret á glugga, napur vindur sem hvín...? Þessi orð úr Maístjörnunni hans Halldórs Laxness eiga svo sannarlega við núna, þegar fimbulvetur hefur læðst aftan að okkur á þessu yndislega nýbyrjaða vori. Naprir vindar blása við eldhúsgluggana hér á Ísafirði okkur til mikillar hrellingar svo jaðrar við þunglyndi.
Raunar eru það þó aðrir skjáir sem hafa valdið mér meira hugarangri að undanförnu, til að mynda sjónvarpsskjárinn sem birtir mér vindana sem blása annars staðar í heiminum. Það sýnast mér ennþá stærri stormar en þeir sem gnauða hér á bárujárninu. Það er ekki friðvænlegt um að skyggnast á skjánum; hvert sem litið er virðast hatur og tortryggni vera að taka völdin. Heimurinn er að vígbúast sem aldrei fyrr; þjóðirnar standa gráar fyrir járnum hver á móti annarri út um allar trissur.

Það er þó friður á Íslandi, á flestum heimilum a.m.k. Og ég efast ekki um að öll viljum við hafa það þannig áfram. Það er svosem ekki margt sem bendir til annars en að það verði svo. Ef eitthvað ógnar þeim hluta heimsfriðarins, þá gæti það helst verið aðild okkar að Nató.

Eftir fáeina daga verður haldin í Reykjavík mikil hershöfðingjasamkoma á vegum Nató. Mér finnst furðulegt að varla hefur heyrst hósti eða stuna frá Íslendingum af því tilefni. Finnst öllum það alveg eðlilegt og sjálfsagt að fulltrúar vopnaskaksins skuli þyrpast til okkar friðsæla lands nú á vordögum? Mig grunar að náttúran sé að mótmæla tiltækinu með þessum fimbulkulda sem hún skellir á okkur síðustu dagana. Geta þessir vígbúnaðarkarlar ekki bara verið heima hjá sér? Hvurn fjandann eru þeir að vilja hingað? Al Quaeda hlýtur að finnast þetta fínt skotmark. Eða einhverjum öðrum óvinum sem Vesturveldin hafa skapað sér vegna hroka og yfirgangs í öðrum heimshlutum.

Mér finnst það sárara en tárum taki að Íslendingar skuli skipa sér í þennan flokk og vilja taka þátt í hernaðarbröltinu. Ég vildi óska að við stæðum fyrir utan og gætum með góðri samvisku átt heilbrigð samskipti við allar þjóðir heims.

Það besta sem við getum gert okkur til varnar, er að láta aðra í friði og standa utan við hernaðarbandalög. Það kom Bandaríkjamönnum t.d. ekki að miklu gagni þann 11. september sl., að eiga fullkomnara vopnabúr en flestar aðrar þjóðir, það var lítil vörn í öllu því dóti. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að við værum öruggari ef við létum aðra um þetta hernaðarbrölt og stæðum hér vopnlaus og friðsöm. Við værum ekki einungis öruggari, heldur göfugri og við gætum með því sýnt að við værum þroskuð þjóð, vaxin upp úr þeirri firru að halda að ofbeldi leysi einhvern vanda.

Víða um heim heldur fólk að það geti best tryggt öryggi fjölskyldu sinnar með því að hafa skammbyssu í náttborðinu. Íslendingar hafa löngum dregið dár að slíkri heimsku. Við vitum að byssurnar í náttborðinu valda meiri skaða en þær leysa. Það sama á við um vígbúnaðinn allan.
Ég heyrði það í útvarpinu í morgun að á þessum degi (30. apríl) hefði Víetnam stríðinu lokið og að Hitler hefði svipt sig lífi á þessum degi. Vonandi lýkur einhverjum kafla í ofbeldissögu heimsins í dag, þótt ekki sjáist mikil teikn á lofti um það.

Það heyrast vélarskruðningar í gegnum veðurhvininn á glugganum hjá mér. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum hljóðum, ég veit að þetta er ekki skriðdreki, heldur bara jarðýta. Hún er ekki komin til að ryðja húsinu mínu niður, heldur er hún að moka burt snjónum svo ég komist leiðar minnar. Ef ég ætti heima einhvers staðar annars staðar hefði ég kannski ástæðu til að óttast svona hversdagsleg hljóð. Ég prísa mig sæla og sendi hrjáðum heimi hlýjar kveðjur í huganum og óskir um betri tíð í öllum skilningi.

Ísafirði, 30. apríl 2002,
Herdís M. Hübner.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi