Frétt

Svava Ingþórsdóttir – Bergþór Böðvarsson | 10.10.2006 | 11:00Af hverju að þegja á meðan allt of margir deyja?

Svava Ingþórsdóttir.
Svava Ingþórsdóttir.
Bergþór Grétar Böðvarsson.
Bergþór Grétar Böðvarsson.
Okkur hefur verið innrætt frá æsku að tala ekki um sjálfsvíg, af hverju? Getur verið að það sé vegna þess að í 5. boðorðinu segir „Þú skalt ekki morð fremja“, af því að það er ekki rétt að taka líf annarra eða sitt eigið líf og að okkur þykir svo sárt að hugsa og tala um það af því við forðumst dauðann eins og heitan eldinn? Lifum við kannski ennþá í gamla tímanum og höfum við sömu lífsviðhorf og þá? Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að dauðinn er hluti af lífinu, við komum öll til með að deyja einhverntímann, sumir, því miður, fyrr en aðrir.

Staðreyndir

Sú staðreynd, að frá árunum 2001 – 2004 hafa 125 einstaklingar framið sjálfsvíg hér á Íslandi og samkvæmt nýjustu tölum þá munu 3 til 4 einstaklingar að meðaltali svipta sig lífi í hverjum mánuði, segir okkur að það eru gífurlega margir sem þjást og kveljast svo mikið að þeir velja að taka sitt eigið líf. En hafa skal í huga að það leikur sér enginn að því að taka sitt eigið líf. Slík ákvörðun er yfirleitt afleiðing sjúkdóma og/eða erfiðra aðstæðna sem einstaklingurinn sér ekki fram úr.

Oft hefur maður heyrt setningar á borð við „Stína tók sitt eigið líf,” „Pétur fékk hjartaáfall og dó,” „Guðrún barðist við krabbamein í mörg ár sem að lokum dró hana til dauða.“ Þetta hljómar eins og að Pétur og Guðrún séu virtari fyrir að deyja af því að þau höfðu ekkert með það að ákveða, en það gleymist alveg að nefna að hvorki Stína, Pétur né Guðrún völdu sér þann sjúkdóm eða aðstæður sem gerði það að verkum að þau dóu. Og væntanlega börðust þau öll fyrir lífi sínu uns til yfir lauk. Það, að einhver skuli fremja sjálfsvíg og/eða hugsa um að taka sitt líf ber að virða, ekki hvetja eða hampa, heldur virða einfaldlega af því við berum virðingu fyrir lífinu.

En þó svo að við virðum lífið eins og það er þá þurfum við öll að reyna eftir mætti að ná til þeirra einstaklinga sem eru komin í öngstræti með líf sitt og reyna að fá þau til að sjá vonina. Hjálpa þeim til að ná sér upp úr vanlíðaninni þannig að þau nái að bera virðingu fyrir lífinu, náunganum og sjálfum sér á nýjan leik.

Samfélagsleg þagnarskylda

Það að það skuli vera samfélagsleg þagnarskylda varðandi sjálfsvíg og lítil virðing borin fyrir þeim, gerir það að verkum að þeir sem glíma við alvarlegan sjúkdóm og/eða erfiðar aðstæður þora ekki að segja frá því, vegna hræðslu við fordóma eða stimplun, ...fyrr en það er jafnvel orðið of seint að hjálpa þeim. Og þeir fáu sem þora að tala hljóta ekki áheyrn okkar hinna því að við forðumst að hlusta þegar talað er um dauðann.

Samfélagsleg þagnarskylda gerir það líka að verkum að þessi málaflokkur hlýtur allt of lítinn stuðning í verki frá bæði ríki og borg. Með auknum stuðningi hins opinbera mætti örugglega draga meira úr sjálfsvígum og fækka þeim einstaklingum sem svipta sig lífi í hverjum mánuði.

Umræðan

Að undanförnu hefur mikið verið talað um skort á umferðaröryggi á Íslandi, því það er allt of mikið um banaslys í umferðinni. Þann 16. september 2006 höfðu 20 manns látið lífið í umferðaslysum á árinu. Þjóðin tekur höndum saman og segir „Stopp“ okkur stendur ekki á sama“, ráðherra kemur fram í fjölmiðlum og segir að áhersla verði lögð á aukið eftirlit svo koma megi í veg fyrir banaslys í umferðinni.

Vátryggingarfélögin hafa staðið fyrir auglýsingaherferðum til að koma í veg fyrir umferðaslys. Við erum „heppin“ að það skuli vera fjallað svo mikið um þennan málaflokk því vissulega eru banaslys í umferðinni kostnaðarsöm fyrir samfélagið, ekki bara peningalega séð heldur líka gífurlega kostnaðarsöm á andlega heilsu þeirra sem sárir eftir sitja með sorgina í hjarta sínu yfir því að hafa misst einhvern sér nákomin.

En sjálfsvíg ættu ekki síður að fá umfjöllun. Á hverju ári eru á milli 30-40 einstaklingar sem deyja og á bak við þá eru einnig margir sem þjást svo mikið að þeir eru jafnvel ófærir um að sinna sjálfum sér, börnum sínum, maka eða vinnu

Samfélagslegur stuðningur

Við tvö sem þetta skrifum erum bæði greind með geðsjúkdóm, geðklofa og geðhvarfasýki, og vitum því að það getur verið mjög erfitt og mikil vinna að vera andlega veikur. Við bæði höfum oft lent í þeim aðstæðum að eiga þá ósk heitasta að svipta okkur lífi og oft höfum við kallað á hjálp með þeirri aðferð að gera sjálfsvígstilraun eða reynt að láta þessa heitustu ósk okkar rætast. En sem betur fer hefur okkur ekki tekist það, þökk sé þeim sem á okkur hafa hlustað, talað við okkur þegar engin annar hefur nennt að skipta sér af okkur, þeim sem hafa farið með okkur í bíó, á kaffihús eða einfaldlega nennt að vera með okkur og leyft okkur að finna að, þrátt fyrir okkar „greiningu, líðan eða ljótu hugsanir“, þá erum við hluti af lýðræðislegu samfélagi þar sem öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Hjálpin er til

Góðir vinir, félagar, nágrannar og/eða notendahópar geta skipt sköpum fyrir fólk sem glímir við þunglyndi. Þeir geta hjálpað fólki að mynda félagsleg tengsl og komið þannig í veg fyrir að fólk einangrist um of með sína hræðilegu líðan. En það eru ekki allir sem eru svo lánsamir eiga góða vini, félaga eða nágranna, og það þora heldur ekki allir að leita, einir síns liðs, til notendahópa af ótta við fordómana eða stimplunina sem er til staðar í Íslensku samfélagi.

Sumir hafa þó verið svo lánsamir að hafa notið liðveislu eða félagsliða og það hefur hjálpað þeim að brjótast út úr sínum erfiðu aðstæðum og/eða að takast á við sinn sjúkdóm og gert það að verkum að þeir ákveða, sem betur fer, að taka ekki sitt eigið líf.

En því miður þá vitum við til þess að störf eins og liðveisla, félagsliði og önnur umönnunarstörf eru svo illa launuð að það fæst ekki nógu mikið fólk til starfa og oftar en ekki stoppar fólk stutt við, vegna lélegra launa og lítils skilnings stjórnvalda á mikilvægi þessara starfa. Þetta bætir ekki vanlíðan þeirra sem þurfa á aðstoð að halda og eru jafnvel mörgum sinnum búnir að óska eftir aðstoð. Það virðist vera að ríkisvaldið tími ekki að borga þessu fólki mannsæmandi laun fyrir að bjarga mannslífum, og flestum virðist standa á sama.

Hvað mannslíf á Íslandi varðar þá, því miður, göngum við ekki til góðs.

Að lokum um okkur tvö

Svava:
„Ég hef fengið ýmsa geðkvilla um 9 ára skeið s.s. geðklofa, þunglyndi, kvíða og svo persónuleikaröskun. Oft hef ég verið í sjálfsvígshættu og stundum reynt sjálfsvíg. Svo mikil var örvæntingin og neyðin. Sjálfsvígstilraunir mínar hafa oft verið hróp á hjálp þegar maður getur ekki talað það út. Svo þetta hefur ekki verið neitt auðvelt. Oft er ekki hlustað fyrr en maður framkvæmir eitthvað, því miður.

En ég er á lífi í dag og fyrir það er ég þakklát. Ég lifði af allt það sem á undan er gengið. Ég á yndislega fjölskyldu og vini sem styðja mig í baráttunni. Og svo er ég með frábært stuðningsnet í kringum mig á Ísafirði sem hefur hjálpað mér mikið.

Ég hef einnig staðið í þeim sporum að manneskja sem var mér mjög nákomin framdi sjálfsvíg og þekki því sorgina sem því fylgir“.

Bréf sem Bergþór skrifaði 24. janúar 1993:

„Góðir lesendur, vinir, vandamenn og allt það góða og yndislega fólk sem ég hef kynnst í gegnum ævina. Þetta hljómar eins og kveðjubréf en ég ætla að vona að svo sé ekki, allavega ekki núna eða næstu árin. En einhvern tímann kemur að því að við deyjum en ég ætla að vona að ég fái að lifa nokkra tugi ára í viðbót, þ.e.a.s. ef ég get haldið það lengi út, því síðustu vikur hafa reynst mér erfiðar og satt að segja þá hugsa ég stundum um að ljúka þessu af. En það er alltaf eitt sem hefur haldið í mér lífi og það eruð þið sem hafið verið með mér og stutt mig í gegnum allt sem á undan er gengið.

En ef það skildi eitthvað koma fyrir mig þá vil ég að þið vitið að ég mun alltaf elska ykkur og ég lofa að berjast eins mikið og ég get svo lengi sem þið eruð hjá mér, meiru get ég ekki lofað. Það eru erfiðir tímar framundan, stór hindrun sem ég ætla að komast yfir, en Guð veit, ég veit og ég vil að þið vitið að ég er logandi hræddur við það sem framundan er. Því miður er ég ekki sterkari en það að ég græt næstum á hverju kvöldi, en ég held í vonina og hugsa til ykkar, því svo sannarlega vil ég ekki bregðast ykkur.

Þið hafið reynst mér svo vel og mér þykir fyrir því að ég hef ekki sýnt ykkur þakklæti á móti, en ég bara þori ekki að trufla ykkur með einhverju um mín ömurlegu andlegu veikindi, það er líka svo ljótt að tala um dauðann“


Sem betur fer þorði ég að tala, um dauðann, mínar hugsanir og láta í ljós mína hrikalegu líðan sem þarna var og þau sem á mig hlustuðu, fjölskylda, vinir og nágrannar, komu í veg fyrir að ég tæki mitt eigið líf og eiga þ.a.l. mikinn þátt í að ég skuli geta gert það sem ég geri í dag. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Bergþór

Vertu til staðar

Við vildum óska þess að aðrir myndu hlusta eins vel og þetta fólk gerði og kerfið færi að meta mannslíf meira en það gerir. Þannig gætum við örugglega bjargað fleiri mannslífum en við gerum í dag, svo við tölum nú ekki um hvernig við getum komið í veg fyrir þá vanlíðan, ósvöruðu spurningar og erfiðu sorg sem eftirlifendur burðast með árum saman.

Við viljum hvetja fólk sem býr við svo alvarlega sjúkdóma er um ræðir og/eða erfiðar aðstæður að leita sér upplýsinga á vefsíðu Landlæknisembættisins – Þjóð gegn þunglyndi, hringja í símanúmer Rauðakrossins 1717, eða tala við þá sem standa þeim næst.

Við viljum líka hvetja þig, lesandi góður, til að hlusta og segðu öðrum að hlusta líka. Það eitt getur bjargað mannslífum.

Svava Ingþórsdóttir er greind með geðklofa. Hún stundar sjúkraliðanám við Menntaskólann á Ísafirði

Bergþór Grétar Böðvarsson greindist meðgeðhvarfsýki árið 1989. Í dag starfar hann sem fulltrúi notenda geðsviðs LSH.


bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli