Frétt

Páll Sigurðsson á Ísafirði rifjar upp atburði í veðrinu mikla í september árið 1936 | 28.09.2006 | 10:08Eftirminnileg berjaferð fyrir sjötíu árum

Páll Sigurðsson sjötíu árum eftir berjaferðina endasleppu.
Páll Sigurðsson sjötíu árum eftir berjaferðina endasleppu.
Eitt af alþekktustu og mannskæðustu sjóslysum sem orðið hafa við Ísland fyrr og síðar er strand franska hafrannsóknaskipsins Pourquoi-Pas? við Mýrar í miklu óveðri að morgni 16. september árið 1936. Þar fórust 38 menn, þeirra á meðal hinn heimsþekkti vísindamaður dr. Jean-Baptiste Charcot, en einn maður komst af. Flestir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kannast væntanlega við frásagnir og myndir frá þessum atburði, sem meðal annars getur að líta í Öldinni okkar. Eftirminnileg er fréttamyndin þar sem líkunum hafði verið raðað upp eftir að þeim hafði verið náð.

En það bar fleira til tíðinda í veðrinu mikla í miðjum septembermánuði fyrir sjötíu árum. Sjaldan mun hafa orðið meira eignatjón í einu ofviðri hérlendis en í þetta sinn. Auk þeirra sem fórust með Pourquoi-Pas? týndust sautján manns af eða með öðrum skipum og bátum, þar af þrír með báti frá Bíldudal. Mest tjón á mannvirkjum varð á norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum.

Tilefni þessarar samantektar er eftirminnileg hrakningaferð – berjaferð hóps af fólki frá Ísafirði með báti inn í Hestfjörð í Ísafjarðardjúpi. Lagt var af stað í rjómablíðu þriðjudaginn 15. september og komið aftur til Ísafjarðar í þokkalegu veðri kvöldið eftir, en þar á milli gekk óveðrið mikla yfir. Fremur lítill mun berjafengurinn hafa verið í þessari reisu en allir komust heilir til baka nema báturinn.

Páll Sigurðsson, fyrrum mjólkurbússtjóri á Ísafirði, sem núna er búsettur á Hlíf á Ísafirði, var meðal þeirra sem fóru í þennan berjaleiðangur fyrir sjötíu árum. Hann var þá nítján ára gamall, fæddur 15. maí 1917, en skortir núna átta mánuði í nírætt. Honum er ferðin í fersku minni enn í dag. Í samantekt Eyjólfs Jónssonar í ritinu Vestfirzkir slysadagar, sem byggð er á blaðafregnum og öðrum heimildum frá þessum tíma, kemur fram að um 50 manns hafi verið í berjaferðinni inn í Hestfjörð. Páll telur að hópurinn hafi ekki verið alveg svo fjölmennur, ef til vill ekki nema um þrjátíu manns, og raunar virðist fremur ósennilegt að öllu fleiri farþegar hafi rúmast með góðu móti um borð í tólf tonna fiskibát.

Þetta sumar hafði Páll Sigurðsson verið á síldveiðum fyrir Norðurlandi á Gunnbirni, einum af Samvinnubátunum svonefndu frá Ísafirði. Þegar haustaði var skipt frá snurpunót yfir á reknet og þurfti þá ekki eins marga í áhöfn. Páll og annar háseti til héldu þess vegna heim til Ísafjarðar en þegar þangað kom fengu þeir ekkert að gera. Að vísu voru stórframkvæmdir við Fossavatn í Engidal á vegum Rafveitu Ísafjarðar en þar var fastur mannskapur að störfum.

Meðal kunningja Páls á Ísafirði var Ingólfur Geirdal, sonur Guðmundar E. Geirdal hafnargjaldkera. Ingólfur var tveimur árum eldri en Páll. Á þessum tíma var Gunnar Andrew skrifstofustjóri sjúkrahússins á Ísafirði og deildi hann skrifstofu með hafnargjaldkeranum. „Það var búið að auglýsa berjaferð inn í Hestfjörð“, segir Páll Sigurðsson þegar hann rifjar upp atburðina. „Gunnar sagði við okkur Ingólf: – Strákar, farið þið bara til berja, ég læt sjúkrahúsið kaupa þau af ykkur ef þið tínið eitthvað. Ég átti tjald og við ákváðum að fara.“

Rjómalogn og sléttur sjór

Báturinn sem notaður var til fararinnar var Björn ÍS 443, fjórtán rúmlestir að stærð með 30 hestafla Bolindervél. Hann var á sínum tíma smíðaður í Noregi og var fyrst í eigu Marzellíusar Bernharðssonar á Ísafirði en hafði þegar hér var komið sögu verið í eigu Bergmanns Zakaríasar Jónssonar á Alviðru í Dýrafirði í mörg ár. Páll Sigurðsson segir, að meðal þeirra sem fóru með bátnum í berjaferðina 15. september 1936 hafi verið bæði börn og gamalt fólk. „Veðrið var mjög gott þegar lagt var af stað, rjómalogn og sléttur sjór. Ekki var hlustað neitt á veðurspá það ég vissi. Þetta voru vanir kallar sem voru með bátinn og enginn bjóst við neinu slæmu.“

Páll segir að eigandi bátsins, sem einnig var venjulega skipstjóri á honum, hafi ekki verið með hann að þessu sinni, heldur hafi kunningjar eigandans tekið bátinn traustataki til þessarar ferðar – sumsé fengið hann lánaðan án þess að láta eigandann vita. „Skipstjórinn í þessari ferð hét Kristján G. Jónsson, jafnan kallaður Kristján seglasaumari, en Jónas Guðnason var vélstjóri. Þeir unnu hér á verkstæðum en voru ekki munstraðir á bátinn. Aðrir í áhöfninni voru Sigurvin Hansson, eldri maður sem átti heima í Brunngötunni, og Ólafur Ásgeirsson tollvörður. Þarna var líka í för Guðmundur E. Sæmundsson með sína stráka. Hann var með litla skektu sem hann ætlaði að nota til að ferja fólkið í land“, segir Páll Sigurðsson.

„Þegar komið var upp undir landið inni í Hestfirði var lagst við ankeri og farið að selflytja fólkið í land á skektunni. Sumt af fólkinu ætlaði svo að fara aftur um borð og sofa í bátnum um nóttina en sumir voru með tjöld. Þegar mannskapurinn var kominn í land fóru sumir strax að tína ber, einkum þeir sem ætluðu að sofa í bátnum, en aðrir fóru að tjalda. Við Ingólfur vorum með fjögurra manna tjald og líklega hafa þarna verið fjögur til fimm tjöld önnur. Í einu þeirra var maður að nafni Eggert Samúelsson og var hann sá eini í ferðinni sem var með vasaljós. Það kom sér ákaflega vel þegar veðrið var orðið vitlaust um kvöldið.

Fólkinu sem ætlaði að sofa í bátnum var komið um borð þegar komið var myrkur. Við strákarnir kláruðum að tjalda og vorum að hugsa um að verða eftir þegar hitt fólkið færi aftur með bátnum og og vera þarna næstu vikuna. Við höfðum það ágætt í tjaldinu, kveiktum á prímus og hituðum okkur kaffi og fórum svo að sofa.“

Svaðilsamt að ferja á milli

„En þá byrjaði hamagangurinn. Það var hreinlega komið vitlaust veður. Eggert Samúelsson var kominn á stjá með vasaljósið og var að beina því að hinum tjöldunum, sem voru farin að losna upp. Fólkið var farið að bera grjót á tjöldin og við fórum út að hjálpa til. Báturinn dró ankerin og fór að reka út fjörðinn og það endaði með því að hann strandaði utar í firðinum. Þá þurfti að ná fólkinu í land og til þess var notuð skektan sem Guðmundur E. Sæmundsson var með. Það var dálítil kúnst. Skektan var dregin með kaðli milli báts og fjöru. Við óðum upp í mitti þegar við vorum að styðja bátinn og taka á móti fólkinu og hjálpa því í land. Þarna var stúlka sem var kölluð Imma – Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns í Hæsta, eins og hann var kallaður. Hún kom í fyrstu ferðinni með skektunni og hjálpaði fólkinu í land og fór svo aftur út í bátinn. Þetta voru margar ferðir að draga skektuna og komið hörkubrim og kolvitlaust veður.

Í tjaldinu hjá okkur var Jóhanna Bjarnadóttir, sem hafði fengið að gista hjá okkur. Hún var með teppi með sér og vildi frekar vera í tjaldinu um nóttina en fara um borð. Hún var mjög dugleg að taka á móti skektunni og hjálpa fólkinu í land. Það var töluvert basl. Þegar búið var að sækja alla sem voru um borð í Birni var ekkert annað fyrir fólkið að gera en híma í myrkrinu í skjóli við skektuna. Okkar tjald stóð rétt á móti vindinum og fauk ekki. Við Ingólfur og Jóhanna fórum þangað, hituðum okkur kaffi á prímus sem ég var með og okkur leið bara fínt. Það var samt svo mikil rigning að tjaldið vildi leka svolítið. Svo fórum við aftur að sofa.

Þegar við vöknuðum var farið að birta. Við kíktum út en þá voru bara allir farnir. Fólkið hafði farið strax í birtingu en við í okkar tjaldi höfðum orðið ein eftir. Björninn lá á hliðinni á skeri utar í firðinum. Ég veit ekki hvað klukkan var orðin. Maður leit ekki á klukku. Ég veit bara að það var orðið bjart. Allt hitt fólkið hafði farið gangandi enda ekki um neitt annað að ræða en að komast einhvers staðar til bæja. Við tókum saman tjaldið og dótið okkar og tókum það með okkur. Hitt fólkið sem hafði verið þarna í tjöldum hafði skilið allt sitt eftir.“

Fótgangandi að Eyri í Seyðisfirði

„Þegar við komum að bænum Eiði við eiðið milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar sáum við að þakið hafði fokið af íbúðarhúsinu. Þar var okkur sagt að samferðafólk okkar, sem hafði komið fyrr um morguninn, hefði haldið áfram út að Eyri í Seyðisfirði, nema ein kona sem treysti sér ekki lengra. Við héldum síðan á út að Eyri. Þar bjuggu hjónin Aðalsteinn Sigurðsson frá Bæjum og Marta dóttir Markúsar Finnbjarnarsonar. Þarna var búið að taka á móti fólkinu og koma því í þurrk og okkur var líka boðið að þurrka af okkur fötin og fara út í hlöðu. Líka fengum við kaffi og eitthvað að borða.

Á Eyri var hægt að hringja og láta vita af sér en á Eiði var ekki sími. Um morguninn hafði Huginn II verið sendur frá Ísafirði til þess að athuga með Björninn og fólkið sem hafði farið með honum í þessa ferð. Þegar komið var í Hestfjörðinn sáu menn bátinn strandaðan en ekkert fólk og bara einhverjar tuskur af tjöldunum sem eftir voru. Þeir á Huganum vissu ekkert hvað hefði orðið af fólkinu og sneru aftur til Ísafjarðar. Við vorum á Eyri í Seyðisfirði allan daginn og fram á kvöld en þá kom Huginn II aftur til að sækja hópinn. Þá var veðrið farið að lægja. Þeir voru með skektu til að taka okkur um borð og það gekk allt skikkanlega. En berjaferðin hjá okkur varð ekki lengri. Við strákarnir hættum við að vera lengur.

Þegar við komum til Ísafjarðar var þar allt á tjái og tundri. Þar má meðal annars nefna, að Víkingsbryggjan við beinamjölsverksmiðjuna á Torfnesi var komin upp í fjöru ásamt alls konar drasli og einhverjum bátum.“ Þannig segir Páll Sigurðsson frá atburðum fyrir sjötíu árum, sem eru honum enn í fersku minni. En farkosturinn í berjaferðinni afsleppu, vélbáturinn Björn ÍS 443, bar beinin, ef svo má segja, inni í Hestfirði.

bb.is | 25.10.16 | 16:54 Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með frétt Jón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 15:53Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Þingeyri á morgun

Mynd með fréttÁ undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í kosningum á Íslandi farið minnkandi, og þá sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram umræður um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og snúa henni við. Meðal annars ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli