Frétt

Koma franska rannsóknaskipsins Pourquoi-Pas? til Ísafjarðar í ágúst 1936 | 28.09.2006 | 09:58Tveir heimsborgarar

Franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? við Bæjarbryggjuna á Ísafirði haustið 1936. Myndin sem Haraldur Ólafsson ljósmyndari tók er í eigu Skjalasafnsins á Ísafirði og birt hér með góðfúslegu leyfi þess.
Franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? við Bæjarbryggjuna á Ísafirði haustið 1936. Myndin sem Haraldur Ólafsson ljósmyndari tók er í eigu Skjalasafnsins á Ísafirði og birt hér með góðfúslegu leyfi þess.
Í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1997 er frásögn eftir Einar H. Eiríksson frá Ísafirði, sem á starfsferli sínum var m.a. skattstjóri í Vestmannaeyjum, undir fyrirsögninni Tveir heimsborgarar. Þeir heimsborgarar sem þar er átt við eru franski vísindamaðurinn dr. Jean-Baptiste Charcot og íslenski presturinn sr. Magnús Jónsson, fyrrum sóknarprestur að Stað í Aðalvík. Frásögninni fylgir sú mynd sem hér birtist einnig, en hana tók Haraldur Ólafsson ljósmyndari á Ísafirði haustið 1936, skömmu áður en skipið fórst við Mýrar í veðrinu mikla sem er tilefni þessarar samantektar. Einar H. Eiríksson segir m.a. svo frá:

Myndin sýnir franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? við Bæjarbryggjuna á Ísafirði í ágústmánuði 1936, þá nýkomið frá Grænlandi. Þar höfðu franskir vísindamenn undir forystu dr. Jean-Baptiste Charcot stundað rannsóknir sumarlangt, en voru nú á heimleið eftir árangursríkan leiðangur. Skipið kom til Ísafjarðar um eða rétt fyrir miðjan ágúst þetta sumar frá Scoresbysundi á Grænlandi og lá bundið við bryggjuna að ég ætla hartnær tvær vikur í blíðskaparveðri, sólskini og stafalogni – veðri eins og fegurst getur orðið á Ísafirði á lognkyrrum ágústdögum. Nokkrum sinnum sást lítill bátur, eins manns far með stórsegl við hún, líða hægt um Pollinn, borinn áfram í ljúfum andvara. Í skut þessarar örsmáu fleytu sat hinn heimsfrægi vísindamaður dr. Charcot undir stýri og sveigði fram og aftur milli Bæjarbryggjunnar og Kompaníbryggjunnar. Hann naut þess greinilega að eiga kyrrðarstund með sjálfum sér. Þessi sigling stóð aldrei mjög lengi í senn en var endurtekin nokkrum sinnum.

Þótt rannsóknaskipið væri fyrst og fremst seglskip var það búið eimknúinni hjálparvél og þurfti því á kolum að halda. Þau voru fengin hjá verslun Jóns S. Edwald. Afgreiðslumaður verslunarinnar var Pétur Friðgeir Jónsson. Sá hann um að koma kolunum um borð í skipið. En samskiptin við Frakkana voru erfið, því að þeir skildu ekki Pétur og hann skildi þá ekki. Var því leitað til manns, sem vitað var um að var vel að sér í frönsku. Sá var séra Magnús Jónsson, fyrrum sóknarprestur að Stað í Aðalvík.

[---]
En svo var það einn sumar- og sólskinsdag í ágústmánuði, að mér ásamt félögum mínum varð gengið upp á Bæjarbryggjuna. Slíkt ferðalag var í sjálfu sér engin nýlunda, nánast daglegur viðburður, meðan skipið lá við bryggjuna. En þessi dagur er mér jafnan minnisstæðari en aðrir ágústdagar sumarið 1936. Veðrið var venju fremur fagurt þennan dag, spegilsléttur sjór, fjöllin spegluðust í sjávarfletinum og ekki blakti hár á höfði. Hvergi sást skýhnoðri á lofti svo langt sem augað eygði.

Þegar við komum á Bæjarbryggjuna tókum við eftir manni í fannhvítum jakka, er stóð við borð á þilfari skipsins. Hann var greinilega að leggja á borð, kom með bolla, skálar, diska og kaffikönnu. Á borðinu lá bakki, greinilega með einhverju meðlæti. Innan stundar komu tveir prúðbúnir menn út úr yfirbyggingu skipsins. Annar þeirra var klæddur í „jacket“, þ.e. síðan svartan jakka og skipt í miðju fyrir neðan mittið, og gráröndóttar buxur, hinn fyrirmannlegasti að sjá. Þarna var þá kominn séra Magnús Jónsson. Á hæla honum kom vísindamaðurinn dr. Charcot og vísaði gesti sínum til sætis af fágaðri franskri kurteisi. Rétt á eftir þeim kom þriðji maðurinn, greinilega skipstjórinn, klæddur svörtum jakkafötum með þrjá eða fjóra gullborða á ermum. Þeir tóku sér sæti við borðið en þjónninn hellti í bolla þeirra.

Okkur strákunum varð heldur en ekki starsýnt á þessa glæsilegu þrenningu, sem settist við kaffiborðið á þilfari þessa fræga skips. Þeir hófu þegar samræður. Var ekki að sjá, að séra Magnús léti sinn hlut eftir liggja í þessu samkvæmi. Sátu þeir þarna í veðurblíðunni drykklanga stund.

Þetta var ekki í eina skiptið, sem við sáum og heyrðum séra Magnús eiga orðastað við dr. Charcot. Það gerðist þó nokkrum sinnum. Því oftar sem við sáum hann á þilfari rannsóknaskipsins, því meiri varð hrifning okkar og aðdáun á þessum manni, sem um árabil hafði þjónað einu nyrsta og afskekktasta prestakalli landsins – kannski alls heimsins.


Veðrið sem grandaði Pourquoi-Pas?


Fyrir tveimur áratugum, þegar fimmtíu ár voru liðin frá veðrinu mikla árið 1936, ritaði Trausti Jónsson veðurfræðingur samantekt sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 29. nóvember 1986. Fyrirsögnin á samantektinni var Veðrið sem grandaði Pourquoi-Pas? Þar segir Trausti meðal annars:

Aðfaranótt 16. september 1936 fórst franska hafrannsóknaskipið Pourquoi-Pas? undan Mýrum. Þó því virðist ekki að leyna að ýmsar tilviljanir hafi valdið þessu slysi, er jafnvíst að veður þetta var óvenju vont og hugsanlega það versta sem skipið hafði lent í. Vegna þess hversu mikil og váleg frétt slysið var féllu önnur slys og skaðar í þessu veðri nokkuð í skuggann. Þó var það svo, að eignatjón virðist sjaldan hafa orðið meira á landi í einu veðri en þessu.

Stutt lýsing á veðrinu

Þann 14. september nálguðust skil alldjúprar lægðar við Suður-Grænland landið. Þá hvessti af suðaustri og rigndi á S- og V-landi. Þann 15. voru skilin að eyðast yfir landinu og í kringum hádegið var komin hæg sunnan- og suðaustanátt v-lands, en enn var sunnan strekkingur um landið austanvert, enda skilin ekki komin þar yfir. Eftir klukkan 5 síðdegis fór mjög að auka vind og fór að rigna, því ný og ört vaxandi lægð nálgaðist landið úr suðsuðvestri. Á miðnætti var nærri allt landið í hlýja geira lægðarinnar, í hitabeltisloftinu, en þar var loftið bæði hlýtt og rakt og m.a. komst hitinn á Akureyri í nærri 20 stig. Úrkoma á Suðausturlandi var mjög mikil, víðast tugir millimetra, og í Hólum í Hornafirði mældist hún 122 mm.

Kuldaskilin fóru yfir Vesturland skömmu eftir miðnætti og voru komin austur fyrir land um kl. 6 um morguninn. Veðrið var verst í kringum kuldaskilin. Lægðin fór til norðurs rétt fyrir vestan land og var vaxandi allt þar til um morguninn en þá hafði vindur snúist til sv-áttar.

Tjón

Veðrið olli gríðarlegu tjóni. Alls drukknuðu 56 manns, þar af 39 á Pourquoi-Pas? Vélbáturinn Þorkell Máni frá Ólafsfirði fórst, og með honum 6 menn. Þrír fórust með báti frá Bíldudal. Þrjá menn tók útbyrðis af tveimur skipum undan Norðurlandi og 5 menn tók útbyrðis af norsku Grænlandsfari í Faxaflóa. Ekki er rúm hér til að rekja alla þá skaða sem urðu í veðrinu enda ólíklegt að þeir hafi allir komið fram opinberlega. Mest tjón varð á norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Járn tók af fjölda húsa og jafnvel fuku heil hús, bæði hlöður, fjárhús og íbúðarhús auk fjölda hjalla. Smábátar skemmdust meira eða minna í flestum höfnum á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og einnig víðast norðanlands. Mikið fauk af heyjum, bæði á Vestur- og Norðurlandi.

Austfirðir og Suðurland sluppu að mestu við hvassviðrið, en þar var mjög mikil úrkoma eins og áður sagði. Á Suðausturlandi urðu bæði skriðuföll og flóð, sem ollu umtalsverðu tjóni. Nokkuð tjón varð einnig sunnanlands af sjávargangi.

Vindhraði

Engir vindhraðamælar voru hérlendis um þetta leyti nema í Reykjavík en gögn frá þessum tíma finnast ekki og hefur mælirinn sennilega verið óvirkur. Erfitt er því að segja til um hversu hvasst varð. Auk þess varð veðrið verst um hánótt þegar engar veðurathuganir voru gerðar. Hins vegar voru síritandi loftvogir á nokkrum stöðum og má út frá þeim gera þrýstikort af landinu um nóttina. Á kortunum kemur í ljós að á Faxaflóa hefur veðrið verið verst um kl. 1 um nóttina og á Norðurlandi nokkru síðar eða um kl. 3 til 5. Fullvíst er að vindur hefur víða farið í 12 vindstig og líklegt er að mestu vindhviður á Snæfellsnesi og Vestfjörðum hafi verið yfir 55 m/s.

Veðurstofan og fárviðrið

Fyrstu fréttir af lægðinni bárust Veðurstofunni kl. 6 að morgni þ. 15. Þá var þegar ljóst að lægðin kæmi til landsins og eftir hádegið var greinilegt að vindur yrði a.m.k. 8 vindstig. Veðurspáin kl. 15 var svohljóðandi: Ný lægð um 1.400 km SSV af Reykjanesi og mun hreyfast hratt norður eftir. Suðvesturland til Vestfjarða: Sunnan stormur og rigning þegar líður á nóttina en sunnan og suðvestan kaldi og skúrir á morgun.

Þótt Veðurstofan hafi mátt sæmilega við una, er því ekki að neita að engan grunaði að veður yrði jafnslæmt og raun bar vitni. Þó allgóðar fréttir hafi borist af lægðinni, þannig að vel tókst til með staðsetningu hennar, gáfu skip í kringum hana hvergi meir en 8 vindstig þá um daginn. Í ljós kemur að eftir klukkan 12 eru engar fréttir af vindi eða þrýstingi nærri lægðarmiðjunni og ekki var viðlit að sjá hversu mikið hún dýpkaði fyrr en það var orðið um seinan. Erfitt er að segja til um hversu tækist nú til að spá um svona veður, en líklegt má telja að fyrirvarinn yrði nú betri, jafnvel þó fréttir frá skipum séu nú litlu meiri en þá. Munar þar bæði um tölvuspár og gervihnattamyndir auk þess sem veðurfréttir og spár eru ítarlegri nú.


Geysimikið tjón víða á Vestfjörðum

Í ritinu Vestfirzkir slysadagar, sem Sögufélag Ísfirðinga gaf út á sínum tíma, segir Eyjólfur Jónsson meðal annars svo frá afleiðingum veðursins mikla á Vestfjörðum fyrir sjötíu árum: Margir trillubátar frá Bíldudal voru á smokkfiskveiðum á Arnarfirði þriðjudaginn 15. september 1936. Öllum nema einum tókst að ná landi áður en veðrið komst í ham um kvöldið. Sá trillubátur týndist og fórust með honum þrír menn.

Fleiri bátsskaðar urðu í veðri þessu. Vélbátinn Rafnar frá Þingeyri rak á land á Ísafirði, en náðist aftur á flot og var gert við hann þar. Vélbáturinn Hekla lá við bryggju á Ísafirði og skemmdist talsvert. Á Ísafirði brotnaði líka einn trillubátur og tveir smábátar. Unnið hafði verið að endurbótum á Edinborgarbryggjunni og urðu í veðrinu talsverðar skemmdir á þeirri bryggju. Sjógangur var mikill á Ísafjarðarpolli og gekk sjór yfir Hafnarstræti og eyðilagði það á nokkrum parti. Á Búðum í Sléttuhreppi misstu bændurnir báða báta sína. Á Hesteyri eyðilagðist einn trillubátur og á Hekleyri urðu nokkrar skemmdir á bryggjum og plönum verksmiðjunnar þar. Í Dýrafirði brotnuðu margir opnir bátar norðan fjarðarins og líka á Þingeyri og í Haukadal.

Í Arnarfirði varð mikið tjón á skipum og bátum. Á Bíldudal lágu 12 skip og bátar á höfninni er veðrið skall á, en er því slotaði var vélbáturinn Ægir sá eini er þar var á floti. Línuveiðarana Ármann og Geysi, er lágu á Bíldudalsvogi, rak norður yfir fjörðinn. Er slotaði veðrinu hékk Ármann í festum sínum fram af Tjaldanesi, en Geysi hafði rekið á land skammt frá Auðkúlu og brotnað mikið. Hann náðist þó síðar á flot og var dreginn til Reykjavíkur til viðgerðar. Fjöldi smærri báta brotnaði eða eyðilagðist alveg norðan Arnarfjarðar. Í Lokinhömrum brotnuðu tvær trillur og tveir trillubátar á Baulhúsum og í Stapadal, einn trillubátur á Laugabóli og annar á Hrafnseyri. Margir opnir bátar ónýttust þá við Arnarfjörð.

Á Patreksfirði urðu skemmdir á bátum er lágu á höfninni þar. Sukku fjórir eða fimm þeirra og sumir ónýttust alveg. Veðurskemmdir á húsum og heyjum urðu mjög víða. Í Hnífsdal fauk íbúðarhús Ingólfs Jónssonar á Stekkjum á sjó út. Svipti veðrið húsinu ofan af Ingólfi, konu hans og þremur börnum þeirra. Stóðu þau eftir fáklædd á gólfinu. Margar smærri skemmdir urðu þar og hey sem enn var úti fauk að mestu. Í Skutulsfirði fauk heyhlaða í Brautarholti og geymsluhús á Góustöðum. Hjá Rafveitu Ísafjarðar stóðu yfir miklar framkvæmdir við Fossavatn. Þar fuku skúr, smiðja og vélskýli. Með snarræði og harðfylgi tókst að festa niður svefn- og matarskála verkamanna við Fossavatn svo þeir stóðu af sér veðrið. Nýgerður varnarveggur við Fossavatn gekk úr skorðum.

Í Bolungarvík fuku þak af íbúðarhúsi í Meirihlíð og þak af hlöðu í Þjóðólfstungu, einnig fuku þar skúr og uppborið hey. Í Álftafirði urðu mestir skaðar á Langeyri, fauk þar þak af íbúðarhúsi og þakhluti af salthúsi. Í Súðavík fauk þak af heyhlöðu. Ýmsir smærri skaðar urðu þar í firðinum og hey er úti var fauk að mestu. Í Sléttuhreppi urðu þær skemmdir helztar, að á Búðum fuku tvær heyhlöður og mestallt heyið, svo og geymsluhús þar. Á nýbýlinu Holti í Aðalvík skekktist íbúðarhúsið svo á grunni, að fólkið varð að flytja úr húsinu. Á Hesteyri fauk þak af fiskhúsi og ýmsar aðrar en minni skemmdir urðu þar á húsum.

Í Önundarfirði urðu miklir heyskaðar og þak fauk af hlöðu á Flateyri og á Vífilsmýrum fauk fjárhús. Nokkrir smærri bátar brotnuðu og fleiri veðurskemmdir urðu á Flateyri. Í Haukadal í Dýrafirði fauk hálfbyggt samkomuhús. Fjárhús og hlöðuþak fuku þar líka. Að Múla í Kirkjubólsdal fauk baðstofa er þar var í smíðum. Í Fremri-Hjarðardal skemmdist íbúðarhúsið mikið og í Lambadal fuku peningshús. Mestir heyskaðar í Dýrafirði urðu í Hvammi og í Haukadal en meira eða minna fauk af heyi á öllum bæjum þar sem ekki var búið að alhirða. Í Tálknafirði urðu talsverðar skemmdir á hvalveiðistöðinni á Suðureyri, bæði á húsum og bryggjum. Heyhlaða fauk í Botni og víðast fauk það hey sem úti var. Í Sauðlauksdal við Patreksfjörð og á Hvalskeri fuku hlöður og heyskaðar urðu miklir í Patreksfirði. Símalínur slitnuðu mjög víða í fárviðri þessu og fregnir bárust því seint af veðurtjóni á mörgum þessum stöðum.

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli