Frétt

mbl.is | 27.09.2006 | 16:46Virkjað í óþökk náttúrunnar

Franska dagblaðið Liberation birtir í dag opnugrein um framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði. Undir fyrirsögninni „Virkjað í óþökk náttúrunnar“ er hin risastóra virkjun við Kárahnjúka sögð byggð þvert á ráðgjöf sérfræðinga og að hluta gegn almenningsálitinu til þess eins að drífa gangverk amerísks álvers. Íslendingar sjálfir muni ekki fá þá orku til afnota. Rakin er forsaga virkjunarinnar og álversins og dregin fram þau sjónarmið að framkvæmdirnar hafi þótt nauðsynlegar til að stöðva hnignun á Austurlandi og fólksfækkun sem rakin er til afleiðinga kvótakerfis í sjávarútvegi og minnkandi afla. Blaðamaðurinn hefur í því sambandi til nokkurra viðmælenda sinna sem segja að ekkert nema auðn og frekari burtflutningur hafi blasað við ef ekkert hefði verið að gert.

Blaðið segir að lengi hafi blundað með Íslendingum áhugi á að virkja hina miklu möguleika sem í fallvötnum landsins fælust. Í því sambandi hafi verið horft til orkufreks iðnaðar. Fjörutíu árum seinna séu Íslendingar orðnir mestu álframleiðendur heims, miðað við höfðatölu. Þá segir að þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sem sé heimamaður á Austfjörðum, og Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi öðrum fremur knúið á um Kárahnjúkavirkjunina. Þeir hafi engu skeytt um andstöðu umhverfissinna og jarðfræðinga. Stærð mannvirkisins hafi heldur ekki vaxið þeim í augum. Ráðist hafi verið í framkvæmdir þrátt fyrir alla andstöðuna.

„Ríki heims þurfa ál, líka til þess að smíða flugvélarnar sem eiga að flytja ferðamenn til Íslands. Er ekki betra að gera það með endurnýjanlegri orku hér en kolum?“ hefur blaðið eftir Sigurði Arnalds, upplýsingafulltrúa Kárahnjúkavirkjunar. Þessu viðhorfi eru umhverfissinnar ekki sammála, segir Liberation. „Þetta er mestu náttúruspjöll af mannavöldum í sögu landsins,“ hefur blaðið eftir Steingrími Sigfússyni alþingismanni og formanni Vinstri grænna. Vikið er að hungurverkfalli móður Bjarkar Guðmundsdóttur í mótmælaskyni við virkjunina árið 2004. Ennfremur segir blaðið Björk hafa fordæmt mannvirkið með þeim orðum að „náttúrunni væri fórnað í þágu framfara.“

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni iðnaðarráðherra að með Kárahnjúkavirkjun og álverinu á Reyðarfirði sé verið að reisa Austurland við. Hann svarar andstæðingum framkvæmdanna með því að segja: „Eigum við að hafna framförum og tjónka fremur við ríkum bandarískum túristum með því að lifa hér heldur sem eskimóar?“ Vitnað er í Andra Magnússon rithöfund sem gefur lítt fyrir „áróður sem gengur út á að fegurð Íslands sé óvinur framfara.“ Greint er frá baráttu Guðmundar Ólafssonar líffræðings og ásakana í hans garð um að hafa falsað ljósmyndir til að upphefja fegurð náttúrunnar sem fer undir vatn á virkjanasvæðinu.

Þá segir Ómar Ragnarsson frá hótunum í sinn garð sem honum bárust gegnum eiginkonu og vini vegna umfjöllunar hans um breytingar á náttúru Kárahnjúkasvæðisins. Vitnað er og til þess að 700 Austfirðingar hafi skrifað undir skjal þar sem þess var krafist að hann væri rekinn úr starfi hjá sjónvarpinu sem komið hafi honum til varnar.

Þá segir í greininni að fjöldi sérfræðinga hafi lýst efasemdum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Kárahnjúkasvæðinu. Getið er skýrslu Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings hjá Orkustofnun frá 2002 þar sem varað er m.a. við jarðfræðilegum óstöðugleika á svæðinu. Henni hafi verið stungið undir stól og ekki aflétt leynd af henni fyrr en í sumar. Landsvirkjun er þó í greininni sögð hafa tekið tillit til sjónarmiða hans við undirbúning sinn og þáverandi iðnarráðherra neiti því að hafa hafa haldið skýrslunni leyndri til að geta hraðað framkvæmdum.

Segir í greininni að skipulagsleg meðferð virkjanaframkvæmdanna hafi verið formsatriði. Þótt þar til bærar stofnanir hafi sagt áhrif virkjunarinnar vera „gríðarleg, óafturkræf og neikvæð“ hafi umhverfisráðherra engu að síður veitt framkvæmdaleyfi hálfu ári seinna. Fyrir Steingrími Sigfússyni hafi það verið staðfesting á því að um „samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Alcoa“ hafi verið að ræða.

Liberation segir að rauðum dreglum hafi verið rúllað út og Íslendingar bugtað sig fyrir ameríska risanum. Samningar um verð sem þeir borgi fyrir raforku frá Kárahnjúkum sé leyndarmál. Árni Finnson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir bið blaðið að verðið hafi verið það lágt að Alcoa hafi ákveðið að loka tveimur álverum í Bandaríkjunum og flytja framleiðsluna í staðinn til Íslands.
Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði segist efast um arðsemi virkjunarinnar. Þá sýni skýrslur um mannfjölda að fólki hafi ekki fjölgað á Austurlandi vegna framkvæmdanna. Aðeins fjórðungur starfsmanna Impreglio á virkjanasvæðinu séu Íslendingar. Hitt séu aðallega Kínverjar sem unnið hafi við gerð Þriggja gljúfra stíflunnar risavöxnu í Kína. „Vinnubúðirnar eru hryllilegar, launin undir lágmarksákvæðum kjarasamninga og starfsandinn í molum,“ segir Guðmundur Guðmundsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, um ástandið á virkjanasvæðinu en þess er svo getið að hann sé faðir Bjarkar.

Blaðið segir að til að róa efasemdaröflin hafi Alcoa og Landsvirkjun sótt peninga í eigin vasa til að byggja nýja vegi á Austurlandi. Þannig hafi Alcoa stytt ferðatíma milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar með því að grafa göng milli fjarðanna. Fyrirtækið hafi reist íþróttahús, gefið hátæknibúnað til sjúkrahúsa, fjármagnað ferðir skólafólks á Austurlandi og borgað för lögreglumanna á námskeið í Bandaríkjunum.

Þá segir Liberation, að viðhorf íbúa á Austurlandi til framkvæmdanna séu tekin að breytast. Rætt er við Guðmund Ármannsson bónda sem sagðir er hafa tekið við búi af föður sínum á Fljótsdal. Háspennulínur frá virkjuninni fari yfir dalinn hans og framkvæmdirnar hafi valdið usla í sveitinni. „Elsti sonur næsta nágranna míns ætlaði að taka við búinu. Hann fórst í slysi á virkjunarsvæðinu. Sá þarnæsti er fluttur burt, hann segir raflínurnar hafa heilsuspillandi áhrif á börn sín. Þriðji nágranninn og sá fjórði hafa þegið bætur fyrir línumöstrin sem rísa á jörðum þeirra og selt búfénað sinn. Sá fimmti hætti og ákvað heldur að fara í störf sem var að finna annars staðar,“ segir Guðmundur við Liberation.

Blaðið segir að þegar starfsemi hefjist í álverinu í Reyðarfirði árið 2009 verði starfsmenn um 450. Hafi Alcoa lofað að ráða einungis Íslendinga. „Alfreð, sem býr í Neskaupstað, trúir því mátulega,“ segir blaðið. „Alcoa bauð nemendum upp á þjálfun í störfum í álverinu. Aðeins tveir tóku boðinu en voru hættir áður en námskeiðinu lauk,” segir Alfreð.

Blaðið segir loks að skýrslur bendi til áframhaldandi íbúafækkunar á Austurlandi þrátt fyrir framkvæmdir. „Þeir eru á góðri leið með að drepa samfélagið hér,“ segir Guðmundur Beck, bóndi í Reyðarfirði, við Liberation. Hann tók þátt í mótmælum á álverssvæðinu í sumar og segir Alcoa hafa stefnt sér og krefjist 130.000 evra í bætur vegna tjóns sem mótmælin ollu.

Guðmundur segist íhuga að flytja burt. „Að minnsta kosti meðan andi nornarinnar vaknar ekki,“ segir hann við Liberation. „Nornin?“ spyr blaðið og segir að samkvæmt sögnum hafi hún sökkt ræningjaskipi sem kom inn í Reyðarfjörð árið 1627 og látið herflugvél farast í hlíðum fjarðarins 1941. Nýlega hafi svo kirkja í Eskifirði brunnið til kaldra kola. Lýkur frásögn blaðsins með því að sagt er að presturinn hafi verið fylgjandi álverinu.

bb.is | 27.10.16 | 16:51 Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með frétt Sjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli