Frétt

bb.is | 05.09.2006 | 18:07Segir sveitarfélögin ráða því hvort þau vilji kenna ferðamönnum

Grunnskólinn á Ísafirði.
Grunnskólinn á Ísafirði.

Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður skóla- og fjölskylduskrifstofu segir ástæðu þess að pólsku börnin átta, sem ekki hafa fengið skólavist vegna kennitöluleysis, vera þá að þau fyrirmælin hafi verið þau að börn þurfi að vera komin með kennitölu, lögheimili, læknisvottorð og dvalarleyfi áður en þau eru tekin í skóla. „Þessi fyrirmæli koma frá nýbúaráðgjafa í upplýsingum um móttökuferli sem hún sendir út í skóla“, segir Ingibjörg. „Það segir enn fremur í 1 gr. sveitarstjórnarlaga hverjir teljist íbúar sveitarfélagsins - það eru ekki þeir sem eiga ekki lögheimili þar. Það segir í grunnskólalögum að við eigum að reka skóla fyrir öll börn í sveitarfélaginu en þau eiga að vera íbúar þess. Til að fá lögheimili á Íslandi þarf að fá dvalarleyfi og til þess þarf að fá kennitölu. Allt hangir saman. Í lögum um útlendinga kemur fram að hingað má koma og vera á landinu í atvinnuleit í allt að 6 mánuði. Foreldrar geta því verið í atvinnuleit í allt að 6 mánuði með börn án þess að vera skráð neins staðar. Það sama gildir um foreldra sem koma hingað til vinnu, ná í barn sitt til útlanda, skrá það bara á utangarðsskrá og barnið öðlast engin réttindi. Það er í því tilviki verið að uppfylla ákvæði barnasáttmálans um að aðskilja ekki börn frá foreldrum en hvort foreldrar síðan uppfylla það ákvæði sáttmálans að þau eigi rétt á grunnmenntun er annað. við höfum slík dæmi. við höfum líka dæmi um að foreldrar eru ekki að sækja um tilskilin leyfi og annað fyrir börnin.“

Í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna er skýrt kveðið á um að börn eigi rétt á að ganga í grunnskóla. 28. grein sáttmálans fjallar um þetta og þar segir:

28. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.
b) Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með.
c) Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga.
d) Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum.
e) Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.

Aðspurð um hvort þetta eigi ekki við um pólsku börnin átta segir Ingibjörg þau í raun í stöðu ferðamanna á landinu, og að ekkert segi í barnasáttmálanum um að veita þurfi ferðamönnum grunnskólamenntun. „Við eigum að stuðla að skólasókn og grunnmenntun, sem er ókeypis, en við tökum ekki þátt í því þegar fólk kemur með einhver börn til landsins án þess að hafa sagt okkur það formlega að þau ætli að búa hérna.

Breytist ekkert við að fá undanþágu

– Nú hef ég fengið staðfest að í Bolungarvík séu börn sem fái undanþágu frá þessu með kennitöluna og gangi í skóla án hennar þar til að hún fæst. Hvers vegna er þetta ekki hægt hér?

„Jú, það er alveg hægt að fá undanþágu. En það breytist ekkert við það. 2001 fæ ég fyrirmæli um það frá nýbúaráðgjafa að erlendu börnin þurfi að hafa kennitölu, lögheimili, dvalarleyfi og heilbrigðisvottorð, þegar það á við, áður en þau eru tekin inn í skólann. Eftir þessu förum við. Núna er þetta breytt því það þarf ekki heilbrigðisvottorð á öllum stöðum. Það sem að gerist í rauninni er það að það eru einhverjir skólar sem taka börnin inn án þess að þau séu með neitt, ef það þarf ekki heilbrigðisvottorð. Þannig að þeim er einfaldlega leyft að koma inn, og því er treyst að umsóknarferlið sem slíkt fari af stað. Ef við horfum á hópinn sem við erum að bíða eftir kennitölum fyrir þá var í sumum tilvikum ekki einu sinni búið að sækja um í síðustu viku.“

– Samkvæmt okkar upplýsingum höfðu að minnsta kosti einhverjir þessara einstaklinga sótt um skólavist snemma í sumar, en ekki verið sagt að þau þyrftu að vera búin að ganga frá þessum pappírum. Getur þetta staðist?

„Það getur alveg verið að þau hafi sótt um skólavist, eða skráð börnin í skóla, en svo getur hafa komið í ljós þegar farið var að athuga hvar þau eiga heima og hverjir foreldrarnir eru að þau eru hvergi skráð. Gallinn við þetta er líka sá að nú verður fólkið sjálft að sækja um þessa pappíra. Atvinnurekandinn sækir um atvinnuleyfi, fólkið verður sjálft að sækja um dvalarleyfi. Þó að fullorðna fólkið sæki um dvalarleyfi fyrir sig þá fær það ekki sjálfkrafa dvalarleyfi fyrir börnin. Það er ekki sjálfgefið. Það er ekkert í íslenska kerfinu sem hengir barnið á foreldrið. Sem er mjög slæmt, og það veldur því að nákvæmlega eitthvað svona getur gerst. Börn koma til landsins með foreldri og eru síðan í rauninni huldubörn og einhvern veginn einskis manns börn, þau eru einfaldlega ekki inni í kerfinu okkar á neinn hátt.“

Meginreglan sú að íbúar af erlendum ættum séu upplýstir um nauðsynlega pappíra

– Hefur verið rætt um það núna að koma því inn í starfsreglur hjá skóla- og fjölskylduskrifstofu að upplýsa íbúa af erlendum ættum um þá pappíra sem þeir þurfa, þegar þeir koma og skrá börnin í skólann, til þess að koma í veg fyrir að svona gerist á næsta ári, til dæmis?

„Reglan er sú að það er yfirleitt alltaf gert. Meginreglan er sú að fólk kemur með einhverja pappíra og þá er farið yfir málið. Auðvitað getur fólk komið á misjöfnum tíma, það geta verið sumarleyfi í gangi og þau geta lagt inn pappíra, eða jafnvel bara sent inn pappíra. Þessar reglur breytast núna fyrir stuttu, og þetta er fyrsta skólaárið sem við rennum inn í miðað við breyttar starfsreglur. Nú stöndum við allt í einu frammi fyrir miklu fleiri nemendum af þessu tagi, og vegna reglnanna myndast líka þetta kaos hjá þjóðskrá við að afgreiða kennitölur.“

Eins og fram hefur komið hefur Þjóðskrá verið í miklum vandræðum með að afgreiða kennitölur frá sér fyrir útlendinga og er biðtími eftir þeim nú um sex til átta vikur. Þar vísa menn á atvinnurekendur, og umsækjendur kennitalna, og segja umsóknir ekki nægilega vel unnar en atvinnurekendur hafa á móti bent á að leiðbeiningar á heimasíðu Þjóðskrár séu ófullnægjandi.

Aðspurð um hvort eitthvað sé vitað um hvenær börnin átta geti hafið nám í grunnskólanum segir Ingibjörg ljós við enda gangnanna. „Já, hún Kristín Ósk, grunnskólafulltrúi, var held ég síðast í sambandi við fólkið í morgun og þá held ég að niðurstaðan hafi verið sú að kennitölurnar ættu að vera komnar innan fárra daga. Við bíðum bara eftir því.

„Mér finnst mikilvægast í þessu að við stöndum við þetta, og tel að það sé þess virði ef þessum reglum verði breytt svo þetta þurfi ekki að vera svona. Það er sko ekki af mannvonsku sem við leyfum ekki börnunum að ganga í skólann. Ég skrifaði bréf í ágúst um víðan völl til þess að vekja athygli á því að þessi börn þau eru hérna. Þá fékk ég ábendingu frá Fjölmenningarsetri um að það væru börn hér á nokkrum stöðum sem ekki væru búin að ganga í skóla í fleiri fleiri mánuði. Það varð til þess að við tókum saman greinargerð um börn sem eru utangarðs hérna á Íslandi, um það hvernig þessi mál eru og hvað þetta er í raun og veru slæmt. Það þarf að koma í veg fyrir að fólk geti verið utangarðs án þess að taka þátt í þjóðfélaginu og breyta þessu þannig að það verði komið til móts við sveitarfélög og gefnar út almennar verklagsreglur um hvernig eigi að standa að kennslu og skólagöngu þessara barna sem geta verið hérna allt upp í sex mánuði án þess að vera nokkurs staðar skráð. Ef að félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, útlendingastofnun og samband íslenskra sveitarfélaga, ef að þessir aðilar tala saman og setja fram einhverja reglu, eitthvert viðmið, eða eitthvað ferli. Ef þetta yrði samræmt við útlendingalögin, barnasáttmálann og allt þetta, til að liðka fyrir þannig að hægt sé að uppfylla öll ákvæði alls staðar, þá væri það náttúrulega frábært. En á meðan það er ekki þá er bara lesið úr hér og þar og reynt að púsla einhverju saman.“

„Við megum ekki fara í felur með þetta“

– Er þetta orðið mikið kaos?

„Þetta er orðið stórt kaos held ég. Kannski gerði fólk sér ekkert grein fyrir því í maí þegar verið var að breyta reglum að þetta færi svona.“

– Nú veit ég að bæjaryfirvöldum finnst kannski ekki stætt á því að brjóta landslög, en væri ekki hægt að veita undanþágu með vísan til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að hverjum íslendingar eru aðilar, þar sem börnum er tryggð grunnskólamenntun?

„Þetta er vont og erfitt mál. Þó maður vilji ekki brjóta barnasáttmálann þá vill maður ekki heldur koma því þannig fyrir að ekkert verði gert í þessum málum. Við megum ekki fara í felur með þetta, ákveða að fara bara framhjá þessu og gera hitt og þetta, því þá gerist ekki neitt. Auðvitað er það eins og þú segir, við getum alveg brotið þetta. Við getum haldið áfram að brjóta endalausar reglur. Við getum brotið þessa reglu, svo getum við brotið regluna um að það þurfi ekki endilega að hafa heilbrigðisvottorðið á hreinu, svo að börnin þurfi ekki endilega að vera með foreldrum sínum þó að þetta séu einhverjir ókunnugir sem koma með einhver ókunnug börn. Maður getur alltaf farið út í eitthvað svona. Meginmálið er það að þegar það koma börn sem eru hvergi á skrá þá er ekkert sem segir okkur að þetta séu börn sem ætli að búa hérna ef þau eru ekki komin með neina pappíra eða nokkurn skapaðan hlut. Þá er þetta bara eins og hver annar ferðamaður. Þetta er eins og ef ég eða þú tækjum börnin okkar með til Mallorca í tvo mánuði og ætluðumst til þess að þau færu í skóla. Þau eru bara hérna á ferðamannapappírum. Auðvitað ræður hvert sveitarfélag hvort það vill kenna ferðamönnum eða ekki, Bolungarvík verður bara að ákveða það fyrir sig.“

Greinargerð sú er Ingibjörg vísar til um börn á utangarðsskrá fer hér að neðan:

Börn á utangarðsskrá

„Utangarðskrá er í raun skrá á einstaklingum sem hafa fengið kennitölur en hafa ekki fengið dvalarleyfi hérlendis. Þeir aðilar sem eru á slíkri skrá hafa í sjálfu sér engan rétt hérlendis varðandi lögbundna þjónustu sveitarfélagana.

Vandamálið liggur fyrst og fremst hjá foreldrum þeirra barna sem koma frá EES löndum. Samkvæmt lögum þurfa aðilar sem koma frá löndum innan EES ekki að fá vegabréfsáritun þegar þeir koma til landsins. Eins geta þessir aðilar verið í allt að sex mánuði meðan þeir eru í atvinnuleit, að öðrum kosti þrjá mánuði, áður en þeir fá dvalarleyfi, börn geta einnig verið þessa sex mánuði með foreldrum sínum eða forráðarmanni. Dvalarleyfi fæst hinsvegar ekki fyrir börn ef fæðingarvottorð og forsjárgögn liggja ekki fyrir, eins ef heilbrigðisvottorð liggur ekki fyrir, frá þeim löndum sem slíkra vottorða er þörf. Eins þurfa foreldrar/foreldri að hafa haft sjúkratryggingu í sínu heimalandi eða svokallað E-104 vottorð, ef það liggur ekki fyrir þarf viðkomandi að kaupa sjúkratryggingu hér á landi og gildir sú trygging fyrir móðir/föður og barn yngri en 18 ára sem og E-104.Dæmi eru einnig um að foreldrar með dvalarleyfi fara erlendis og sækja börn sín sem geta þá dvalið hjá foreldri á Íslandi óáreitt án allra réttinda í sex mánuði.

Í sveitarstjórnarlögum kemur fram „Hver maður telst íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.” Sveitarfélögin eru ekki ábyrg fyrir þeim sem ekki teljast íbúar. Hinsvegar eru þess dæmi að sveitarfélög hafa gert samkomulag sín á milli varðandi þjónustu við fólk sem er með búsetu í öðru sveitarfélagi en það er íbúi í og viðkomandi sveitarfélag greitt fyrir þjónustuna. Þetta á meðal annars við um skólavist. Samkvæmt viðmiðunarreglum um greiðslur vegna nemenda sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélags þá ber nemanda að sækja skólavist í þeim skóla þar sem hann hefur lögheimili, ef hinsvegar foreldri eða forráðamaður óskar eftir skólavist fyrir barnið annars staðar en þar sem lögheimili þess er ber honum að óska eftir því við það sveitarfélag sem barnið á lögheimili í fyrir 15 apríl ár hvert. Með þessum rökum synja sveitarfélögin börnunum um skólavist af því barnið á ekki lögheimili í sveitarfélaginu. Það stangast hinsvegar á við það sem fram kemur í lögum um grunnskóla þar sem segir „Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára...” „...Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla...”. Sveitarfélög geta ekki sinnt þessari lagaskyldu sinni þegar þau geta hvorki tekið þau inn í skólakerfið á meðan það vantar pappíra s.s. dvalarleyfi né innheimt skólakostnað hjá öðrum á meðan börnin eru á utangarðsskrá og ættu því jafnvel að vera á vegum ríkisins.

Verkefnið framundan er að koma í veg fyrir að börn geti verið á utangarðsskrá hér og búið á Íslandi án þess að sækja skóla eða taka þátt í þjóðfélaginu á viðunandi hátt. Til þess að breyta þessari stöðu gæti ríkið komið til móts við sveitarfélög með viðmiðunarkostnað skv. viðmiðunarreglum Sambands sveitarfélaga og gefið út verklagsreglur eða almenna reglu um hvernig skuli staðið að kennslu og skólagöngu barna þessa 6 mánuði sem þau geta dvalið hérlendis án dvalarleyfis.“

eirikur@bb.is


 bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli