Frétt

Ásvaldur horn / Tímaritið Syrpa 1920 | 16.01.2002 | 12:14Búðarránið á Skutulsfjarðareyri

I.

Þegar verzlunarstjórinn á Skutulsfjarðareyri opnaði búð sína eitt vorið, sá hann skjótt að þar höfðu ránsmenn leikið lausum hala þá um veturinn. Þeir höfðu farið þar óvina-höndum um skonsur og skápa, og það svo tilfinnanlega, að heilir strangar af klæðum og léreftum voru alveg horfnir. Heilar brauðtunnur og brennivíns-kaggar, fyrir utan ölkúta og önnur smærri ílát, var einnig horfið. Já, tóbaksrullur og mýmargt annað af því allra dýrmætasta og elskulegasta var alt saman farið til fjandans – eitthvað út í veður og vind. Þetta voru svo miklar hrellingar og harmkvæli fyrir kaupmanninn, að nærri lá að hann yrði brjálaður þegar í stað. Bölvandi og öskrandi barði hann járnslegnum stígvéla-hælunum niður í gólfið, svo brakaði í öllu, og um leið sveiflaði hann höndunum út í loftið með kreptum hnefum, eins og han sæi þar búðarþjófa-greyin í höggfæri. Annað veifið æddi hann fram og aftur um búðar-kitruna, blótandi og sparkandi öllu, eins og mannýgt naut. Hefði hann átt ráð á eldingum þrumu Þórs, hefði hann vafalaust látið þær jafna um ránsmennina þegar í stað. Tapið var svo mikið, að nema mundi mörgum hundruðum dala. Þegar fyrsta skelfingar-skruggan var alveg liðin hjá, svo að ofurlítið jafnvægi eða kyrrð komst á geðslagið, sá hann, að það myndi vera vænlegast, að senda eftir sýslumanninum, og láta han hefja rannsókn meðal bænda umsvifalaust, að minsta kosti þar í nágrenni við kaupstaðinn, því að þeir, þar í nágrenninu, þótti honum vera einna líklegastir til að hafa framið þessa óhæfu. Fregnin um ránið flaug nú eins og eldur í sinu út um allar sveitir. Bændur skulfu á beinum af ógn og skelfingu, er þeir fréttu þetta. Allir bjuggustu við því, er minst varði, að verða dregnir fyrir lög og dóm. Þarna var sem sé maður, er hafði alt í hendi sinni, maður, sem þeim fanst vera orðinn jafn-voldugur kónginum, - og að sumu leyti honum fremri, því hann gat látið konunginn segja já og amen við öllu. Af tvennu illu fanst þeim betra að eiga Satan sjálfan fyrir óvin, en einokunar-kaupmanninn. Það var hægt að verjast kölska með bænum og sálmum, en hvorugt af þessu dugði við kaupmanninn. Þar voru engin vopn til varnar.

Rannsóknin, eða þjófaleitin, varð með öllu árangurslaus; ekkert fanst, er gæfi minstu vísbendingu um hvar sökudólganna væri helzt að leita. Búðin var líka rannsökuð hátt og lágt, og það mjög grandgæfilega, en þar fundust engin vegsummerki, er sýnt gætu, hvernig þeir hefðu opnað hana. Líklegast af öllu þótti það, að þjófarnir hefðu opnað búðina með lykli, og var því rannsóknin ítarlegust hjá öllum, er eitthvað kunnu að málmsmíði.

Kaupmaðurinn var ekki í góðu skapi þessa dagana. Oft hafði hann vondur verið og fautalegur, en nú tók út yfir, er hann sá, að ekkert hafðist upp úr þjófaleitinni. Hann var fyrir löngu búinn að hugsa þjófunum þegjandi þörfina, ef þeir fyndust. Þeir áttu, sem sé, að fá þrælkunarhúss-vist, eða gálgann. Hann treysti sér til að ráða því, hver örlög þeirra yrðu, dauði, eða þrælkun æfilöng. Og hið síðara áleit hann miklu æskilegra og skynsamlegra; með því eina móti urðu þó kvalirnar langvarandi. Honum var vel kunnugt um það, hve Birmarhólms-vistin var ægileg og djöfulleg fyrir alla stórglæpamenn. Hann gat ekki valið þeim annan verri stað, en þótti hins vegar sjálfsagt, að þeir yrðu dæmdir í hina þyngstu hegningu.

Svo leið sumarið, og kaupmaðurinn bjóst til heimferðar. En nú var að mun betur gengið frá öllu áður hafði verið. Nýr lás, af alt annari gerð, var settur fyrir búðarholuna. Áleit kaupmaðurinn, að fáir eða engir menn væru þeir til á Íslandi, er smíða kynnu lykil sem opnaði slíkan kynja-lás. Sagði hann, að þjófunum myndi nú verða ógreiðari inngangan, ef þeir leituðu þangað aftur í annað sinn. Samt fór hér alt á sömu leið, sem fyr. Þegar kaupmaðurinn kom til Íslands vorið eftir, sá hann, að þjófarnir höfðu ekki gengið frá, eða staðið ráðalausir yfir nýja lásnum. Þeir höfðu opnað hann. Og þeir höfðu rænt búðina; og það svo tilfinnanlega, að nú var flestu því sópað á braut, er eigulegast var í vöruleifunum. Og nú var líka þýfið miklu meira virði í dalatali, og sýndi það, að nú hafði ránsmönnunum vaxið hugrekki og áræði að miklum mun. Kaupmaðurinn þóttist nú sannfærður um, að bak við ránið stæði slungið og öflugt þjófafélag, og hlytu sjálfsagt einhverjir af meðlimum þess að vera þar í nágrenninu. Alþýðan trúði því, að búðin væri opnuð með hinum gamla lásagaldri, og að einhver af meðlimum félagsins hlyti að kunna þessa fornu list. Kaupmaðurinn var sem frávita af heift, og vissi hreint ekki, hvað til bragðs skyldi taka. Þá var þingstaður í Tungu, yzta bæ við vesturhorn Skutulsfjarðar. Vildi kaupmaður nú helzt stefna þangað öllum bændum og búalýð til eiðtöku, er verzlun sóttu til Skutulsfjarðareyrar. En sýsluvaldið sýndi honum fram á, að slíkt væri gagnstætt öllum landslögum. Menn væru ekki skyldir til að mæta, nema á sínu varnar-þingi.

Á þeim tímum fór miki orð af fjölkyngi Íslendinga, og ýmsir voru dregnir tafarlaust fyrir lög og dóm í þeim sökum, og sviftir lífinu eða húðstrýktir. Kaupmaðurinn var, sem flestir í þá daga, bæði æðri og lægri, hræddur við fjölkyngi og afar hjátrúarfullur. Hann sá því þann kost beztan, að fara hér sem varlegast og ýfa ekki skap viðskiptamanna sinna á þennan hátt. Hann vissi, að fjölkyngismenn voru til meðal annara þjóða, og snjallasta ráðið myndi vera að leita til þeirra, ef þessi ófagnaður héldi áfram. Hjátrúin varð því heiftinni yfirsterkari í þetta sinn. En hann hafði njósnarmenn á ýmsum stöðum, ef ske kynni, að hægt væri að finna sökudólgana á þann hátt, svo lítið bæri á. En hann yfirgaf svo Ísland um haustið, að hann var engu nær. Á ýmsan hátt reyndi hann að girða fyrir væntanlegt vörutap, ef ræningjarnir kæmu í þriðja sinn. Hann lánaði því sem mest af vöruleifum til viðskiftamanna sinna. Það var þó mun betra, en að láta þær verða þjófum að bráð, enda þótt hann kynni að tapa einhverju hjá óskilamönnum. Það var því ekki um auðugan garð að gresja, er búðinni var lokað í þetta skifti. En það fór, sem hann grunaði; þjófarnir komu í þriðja sinn og rændu. En nú var tapið ekki mjög tilfinnanlegt, og miklu minna eð áður hafði verið. Þó nam það nokkurri fjárupphæð.-

Kaupmaðurinn fékkst lítið um ránið í þetta skifti, og gerði að minsta kosti engan hávaða út af því. Han sendi aðeins skýrslu um ránið til eigendanna, og skýrði þeim sem nákvæmast frá því öllu bréflega. Svo lét hann alt liggja í þagnargildi.-

En eigendur verzlunarinnar, úti í kóngsins Kaupmannahöfn, voru ekki aðgerðalausir, því nú tóku þeir til óspiltra málanna. Nú var fenginn fjölkyngismaður norðan úr Finnmörk, sá er æfður var í „mundlaugar-galdri“. Var galdur sá talinn öflugasta og áreiðanlegasta aðferðin til að finna ránsmenn og þjófa. Menn voru þá lítt æfðir í að rekja slóðir glæpamanna á annan hátt; það er list nútímans. Tilraunn hepnaðist ágætlega. En þjófarnir voru aðeins tveir menn. Sáust þeir fyrst að verki, þar sem þeir voru að ná úr einum búðarglugganum, og því næst að saga í sundur járnstengurnar með stálsög. Verkið gekk furðu rösklega, þegar inn var komið. Það, sem var of fyrirferðarmikið til að komast gegnum gluggann, var látið vera kyrt, nema brauðtunnurnar; þær voru opnaðar og tæmdar í poka. Þegar verkinu var lokið, var gengið frá búðarglugganum eins og áður hafði verið. Meðan ránið var framið, sat Finninn yfir mundlauginni, þögull og ærið skuggalegur ásýndum, og hafði votta að því, sem var að gerast. En það var dálítill galli á þessum mundlaugar-vísindum. Annar þjófurinn hafði grðimu fyrir andlitinu, og varð því ekki þektur. Hann kom þar fram í sama gerfinu, sem hann hafði þegar hann var að ræna. Hinn var Hornstrendingur, Jón að nafni, alþektur listamaður á allar smíðar, og ágætis-maður, að almanna dómi. Staldraði hann nokkra stund við búðargluggann einn, eftir að verkinu var lokið. Var það skoðun manna, að hann hefði eitthvað þekt í fornum fræðum, og getað hulið með þeim missmíðin, sem orðin voru
á glugganum, enda sáust ekki vegsummerkin fyr en hann var tekinn fastur.

Nú töldu allir, að björninn væri unninn, því auðvelt væri að kúga Hornstrendinginn til sagna, eða þá að lokka hann til að segja til félaga síns, með fögrum loforðum um væga hegningu eða fulla uppgjöf saka, ef það sýndist heppilegra. Auðvitað þyrfti ekki að efna loforðið, þar sem slíkur stórglæpamaður ætti hlut að máli.-

Það leið nú ekki á löngu unz Hornstrendingurinn var tekinn til fanga; þótti það býsna skrítið, að þar fanst nálega ekkert af hinum stolna búðarvarningi. Var því álitið, að hinn maðurinn, er grímuna hafði, væri aðal-þjófurinn. Jón hefði aðeins hjálpað til að vinna verkið, án þess að taka hlut af ránsfénu.-

Þegar farið var að prófa sökudólginn vildi það ekki ganga eins greitt og menn ætluðu, að fá hann til að segja til félaga síns. Hann stóðst allar tilraunir í þá átt; fögur loforð um frelsi, sem grimmilegustu hótanir, var jafn árangurslaust. Hann þekti aldarháttinn og vissi, að fagurmælum var lítið að treysta undir svona kringumstæðum. Hins vegar var hann of mikill drengskaparmaður og göfugmenni til þess, að hann vildi bjarga sjálfum sér undan hegningu á þann hátt, að fórna til þess lífi eða hamingju félaga síns.-

Þegar ekkert dugði til að vinna bug á þrjózku fangans, var vöndurinn tekinn og honum beitt hlífðarlaust hvað eftir annað, ef ske kynni að hann fengist þá heldur til að opinbera sannleikann. En Hornstrendingurinn sat fastur við sinn keip, og ákvað með sjálfum sér að láta heldur lífið, og frelsa á þann hátt félaga sinn undan refsingunni, hvort sem hún yrði heldur öxin eða Brimarhólms-vistin.

Á Tunguþingi var gerð hin síðasta tilraun. Þá skyldi skríða til skarar. Þar var beitt hinni miskunnarlausustu húðstrýking, er lögin leyfðu við stór-afbrotamenn. Þann dag var þar fjölmenni mikið saman komið úr ýmsum áttum. Þar voru, meðal annara, kaupmaðurinn sjálfur og skipstjórinn af Skutulsfjarðar-skipinu. Kaupmaðurinn vildi láta reyra fangann við staur allsnakinn, en yfirvaldið aftók það með öllu. Samt var hann klæðflettur á meðan. Maðurinn var bæði hraustur og harðger, eins og margir Íslendingar voru í gamla daga. Hann var ósýktur andlega og líkamlega, og leið píslir sínar að heita mátti kveinstafalaust. Að lokum hné hann til jarðar, meðvitundarlaus, sundurflakandi í sárum og alblóðugur hæls og hnakka milli. Ætluðu þá margir, að hann myndi skilinn við lífið. Fór þá sem hrollur um mannfjöldann, og mátti sjá meðaumkun á flestra svip. Skipstjórinn af danska kaupfarinu var þar allnærri, og hafði honum sem öðrum ofboðið meðferðin. Tók hann þá úr ferðatösku sinni skósíða léreftsskyrtu og breiddi hana snyrtilega yfir hinn margsærða mannslíkama. Jón raknaði við nokkru síðar, og var þá tekinn og lagður í rekkju. Með þessa hörðu ráðningu var honum slept um sinn, því yfirvaldið aftók með öllu, að endurtaka slíka refsingu framar, enda væri það þýðingarlaust, því hann myndi aldrei opinbera nafnið á félaga sínum. Nú væri búið að reyna slíkt til þrautar.

Kaupmaðurinn var sár óánægður með þessi málalok, en varð að hafa það svo búið unz hann kæmi til Kaupmannahafnar. Þar hugði hann að taka málið upp á nýjan leik, og heimta Jón sendan þangað til að þola fullnaðar refsingu. – Búslóð Jóns var því næst tekin og seld til skaðabóta.

Eftir að Jón var gróinn sára sinna beið hann ekki boðanna, heldur hvarf þegar af landinu burt; kom hann sér í skip hjá enskum fiskveiðimönnum, er þá voru margir við Íslandsstrendur. Var hann horfinn af landi burt á undan sjálfum kaupmanninum. Þótti honum heldur súrt í broti, er gæsin var flogin úr greipum hans, því hann hafði gert sér von um alt önnur endalok málsins, er hann kæmi til Kaupmannahafnar. Að minsta kosti hafði hann fyrirhugað Jóni æfilanga fangavist á Brimarhólmi.

Sú fregn gekk líka í hljóði um allar sveitir, að yfirvaldið sjálft myndi hafa hvatt Jón til utanfarar, og leiðbeint honum á ýmsan hátt til að koma því í framkvæmd.


II.

Ekki hafði Jón lengi dvalið meðal hinnar frjálslyndu og harðsnúnu eyjaþjóðar (Englendinga), áður en hann komst í mikið álit, því maðurinn var afbragð að karlmennsku, hugprýði og vitsmunum, og kom sér hvervetna ágætlega. Loks gekk hann í sjólið hans hátignar konungsins, og færðist þar stöðugt upp eftir tignar-stiganum, unz hann var gerður að foringja á herskipi. Stóð hann þar, sem annarsstaðar, prýðis vel í stöðu sinni.

Það bar til fáum árum síðar, að Danir og Englendingar lentu í ófriði saman, eins og oft átti sér stað á fyrri öldum. Voru Englendingar þá, eins og síðar, harðir í horn að taka á sjónum, og fengu dönsku kaupförin að kenna á þeim yfirburðum óvina sinna. Öllum þeim skipum, er ekki báðust friðar þegar í stað, en sýndu mótþróa og reyndu að komast framhjá, var tafarlaust sökt, en hin flutt á enskar hafnir, er gáfu sig viljug á þeirra vald.

Þá kom það fyrir, er Skutulsfjarðar-skipið var á uppsiglingu til Íslands, að skipstjórinn hitti herskip á leið sinni með enskum fána á siglutoppi. Vildi þá danski skipstjórinn gera lykkju á leið sína og komst fram hjá vágestinum á þann hátt. En slíkt var þýðingarlaust, því herskipið var miklu hraðskreiðara. Stefndi það beint á kaupfarið undir öllum seglum. En er það átti fáa faðma eftir til að ná kaupfarinu breytti það alt í einu stefnu sinni og rendi sér aftur fyrir kaupskipið, og var þá um leið hrópað frá herskipinu: „Nú skaltu njóta skyrtunnar góðu, er þú lagðir yfir blóðug bein á Tunguþingi.“ Skildi þar með þeim, og komst danska kaupfarið klaklaust til Skutulsfjarðar í það sinn.


III.

Eins og mörgum mun kunnugt, gengur dalur einn inn í vesturfjöllin, yzt við mynni Skutulsfjarðar, er Hnífsdalur heitir. Þar er landbúnaður nokkur, en þó meiri fiskveiði, einkanlega á seinni tímum. Þar hafa jafnan búið dugnaðarmenn, og margir við allgóð efni. Er saga þessi gerðist, bjó þar bóndi er Sigurður hét, og var talinn ríkasti maðurinn í dalnum, enda var hann mesti dugnaðar-þjarkur. Eftir búðarránið var hann í miklum uppgangi og þótti mönnum ekki einleikið. Fór þá ýmsa að gruna, að þar myndi vera félagi Jóns Hornstrendings. Þó komst þetta aldrei í hámæli verulega. Þó þótti hitt ennþá kynlegra, að enskt herskip fór að leggja leið sína upp í Hnífsdalsvík á hverju hausti og eiga kaupskap við ríka Sigurð. Lét hann flytja um borð í herskipið 50 lifandi sauði til slátrunar, og fór þessu fram í mörg ár. Þetta var gáta, sem enginn fékk ráðið, enda fékk enginn að stíga þar fæti um borð, nema Sigurður einn. Sá eini, sem verulega rendi grun í, hvernig þessu var háttað, var skipstjórinn á danska kaupfarinu, en ennþá sigldi til Skutulsfjarðar, og nú var kominn á efri aldur. En hann þagði eins og steinn. Þegar Sigurður dó féllu þessar ferðir niður með öllu, og kom þar aldrei enskur herknör til fárkaupa framar, og lýkur þar með að segja frá ráninu á Skutulsfjarðareyri.


Eftirmáli til fróðleiks

Mundlaugar-galdrinum var þannig háttað, að tekin var ónotuð eirskál eða eirfat, og rúnastafur einn mikill og margbrotinn, sem kallaður var mundlaugar-stafr, ristur á skálarbotninn, og dreginn í ristinguna blandaður blóðvökvi úr manninum sjálfum, tekinn hægra- og vinstra-megin úr hönd og fæti. Síðan var vatni helt í skálina, og skyldi það tekið úr tærri uppsprettu lind. Síðan var særingar-formúla þulin yfir skálinni, og var þulan alt annað en fögur. Hvarf þá stafurinn á skálar-botninum, en í hans stað sást mynd þjófsins í vatninu. Var hann ávalt í sama búningi, sem hann bar, þá stuldurinn var framinn. Var og myndin svo skýr, að auðvelt var að þekkja manninn, eða mála hann upp. Stafurinn sjálfur var að gerðinni til ekki ólíkur sumum róður-krossum, t.d. þeim stöfum sem kendir eru við Eirík jarl og Ólaf kóng Tryggvason, og eiga að hafa verið notaðir í Svoldar-orustu. Í gamla daga var mikil trú á öllum róðukrossum, og áttu þeir að vera öflug vörn gegn draugum og öndum. Líklega yrðu þeir, nú á tímum, óþarfir gripir á „öndunga“-samkomum.

bb.is | 20.10.16 | 16:48 Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með frétt Gestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 14:50Er lausaganga almennings bönnuð í Skutulfirði?

Mynd með fréttÍ grein sem birtist á vef Bæjarins besta í gær veltir Hörður Högnason upp þeirri spurningu hvort lausaganga almennings sé nú bönnuð í Skutulsfirði eftir að skilti var sett upp við hina nýju varnargarða ofan við Urðarveg sem bannar umferð gangandi ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 13:23Þorpin þurrkast út með uppboðsleiðinni

Mynd með fréttÞað tæki 2-3 ár fyrir þorp eins og Suðureyri að þurrkast út verði uppboðsleiðin svokölluð að veruleika. Þetta er mat Óðins Gestssonar, framkvæmdastjóra Íslandssögu á Suðureyri. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa síðustu daga birt myndbönd á vefsíðu sinni þar sem varað ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 11:50Grunur um að Þorlákur verði gerður út í verkfallinu

Mynd með fréttVerkfall sjómanna hefst þann 10. nóvember og allur fiskiskipaflotinn verður bundinn við bryggju náist ekki samningar fyrir þann tíma. Í Bolungarvík er verið að gera Þorlák ÍS kláran á snurvoðaveiðar, en báturinn hefur ekki verið á sjó síðan Jakob Valgeir ehf. ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 10:51Grísk haustjógúrt frá Örnu gleður

Mynd með fréttMjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur nú sett á markað Gríska haustjógúrt, sem er líkt og nafnið gefur til kynna, árstíðabundin vara. Jógúrtin sem er með handtíndum vestfirskum aðalbláberjum er fallega pökkuð í glerkrukkur líkt og gert var fyrir jólin í fyrra ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:36Djúpmannatal komið út

Mynd með fréttLangþráð Djúpmannatal er komið út en í því er að finna æviskrár Djúpmanna frá 1801-2011. Er með því átt við alla þá Djúpmenn sem heimildir herma að hafi á þessu tímabili stofnað til heimilishalds við Djúp í þrjú ár eða lengur ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:0135 milljóna bætur vegna Bolungarvíkurganga

Mynd með fréttFjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Vegagerðina til að greiða verktakafyrirtækinu Ósafli 35 milljónir króna í bætur vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng. Verktakafyrirtækið, sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka og svissneska fyrirtækisins Marti Contractors, annaðist gangagröft og vegagerð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 07:37Jakob Valgeir og Salting með rúmlega átta prósent kvótans

Mynd með fréttBolvísku útgerðirnar Jakob Valgeir ehf. og Salting ehf. ráða yfir ríflega átta prósentum af krókaaflamarkskvótanum. Stakkavík ehf. í Grindavík er sem fyrr stærsta útgerðin í litla kerfinu, eins og krókaaflamarkskerfið er kallað í daglegu tali. Kvóti Stakkavíkur er 1.928 þorskígildistonn, litlu ...
Meira

bb.is | 19.10.16 | 16:50Muggi og hinir Guðmundarnir verðlaunaðir

Mynd með fréttMarkaðsherferðin Ask Guðmundur hlaut fimm Euro Effie verðlaun við hátíðlega athöfn í Brussel í gærkvöldi, þar sem verðlaunað var fyrir árangursríkustu auglýsingar ársins. Margir muna eflaust eftir herferðinni þar sem hver landshluti tefldi fram sínum eigin „Guðmundi“ og sáust hinir ýmsu ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli