Frétt

Sigurður Bjarnason frá Vigur / Ársrit 1990-91 | 01.01.2002 | 23:59Vigur – eyjan græna í Djúpinu

Bæjarhús og aðrar byggingar á suðuroddanum í Vigur. Myndin er tekin haustið 1995.
Bæjarhús og aðrar byggingar á suðuroddanum í Vigur. Myndin er tekin haustið 1995.
Innan við Vigur við sunnanvert Djúpið eru Skarðströnd og Ögurnes. Lykur þar fyrir sýn inn með Djúpinu sunnanverðu. Til norðurs frá eynni sér inn til Kaldalóns, Drangajökuls og Skjaldfannardals. Þaðan sér út með Bæjahlíð, Snæfjallaströnd, Æðey og til Bjarnarnúps. Á milli Núpsins og Grænuhlíðar eru Jökulfirðir. Má segja að þessi fjöll myndi eina órofa og fagra heild.

Vigur er lítil eyja, um 2 km að lengd og 400 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Hæst er hún 62 m. Þar heitir Borg, norðarlega á eynni. Ber hana hátt og sér þaðan vítt og breitt um Djúpið og út til hafs, milli Bolungarvíkurhyrna og Grænuhlíðar. Útsýn frá Vigur er því mikil og fríð. Beggja megin við Borgina eru grasi grónir hjallar, Borgarhjalli og Töðuhjalli.

Neðst meðfram sjónum heitir Lágeyja með Kórum, Hellravík, Nátthaga, Mánabergi, Straumbergi, Sjávarengi, Bjarnarhól og Sigurðarbrekku.

Vigur er öll grasgefin en nokkuð grýtt norðantil. Lækkar hún frá Borginni til suðurs. Standa bæjarhúsin syðst á eynni. Þar heitir Bæjarvík. Beggja megin við hana eru tveir tangar, Vörðuklettar að austan en Laugartangi að vestan. Nafn sitt dregur hann af heitri laug í flæðarmálinu. Mynda þessir tangar allgott skjól fyrir norðan- og austanátt. Fram úr Vörðuklettum er nú góð ferjubryggja, sem Djúpbáturinn og smærri vélbátar geta lagst við í flestum áttum.

Gegnt Bæjarvíkinni að norðan er Brunnvík. Er þar gott skjól í vestan- og sunnanátt. Þar er gott vatnsból. Hefur vatn verið leitt þaðan í bæjarhús og gripahús.

Æðarvarp er gott í Vigur og lundatekja mikil. Fiskveiðar voru lengi stundaðar frá Vigur meðan aflasæld var mikil í Ísafjarðardjúpi. Má segja að róið hafi verið frá flestum bæjum í Djúpinu. Margir Djúpbændur gerðu einnig út báta sína frá Bolungarvík og fleiri verstöðvum við utanvert Djúpið. Frá Vigur var sjósókn ekki aðeins frá bæjarhúsum við Bæjarvíkina heldur einnig frá svokallaðri Holubúð austantil við miðeyna. Þaðan reri m.a. Einar Guðfinnsson, síðar útgerðarmaður í Hnífsdal og Bolungarvík, á æskuárum sínum. Þaðan var stutt á miðin í þá daga, aðeins út í Vigurálinn, norður undir Æðey eða út á Álftafjarðarmiðin. Það skipti miklu máli á árabátaöldinni er mokafli var oft á þessum miðum.

Landrými er ekki mikið í Vigur. Sennilega er gróði land um 25-30 ha. Hún er engu að síður talin ágæt bújörð. Veldur þar að sjálfsögðu um æðarvarp og fuglatekja, aðallega lundi. Mun hún vera meðal mestu lundaeyja landsins. Margt er þar annarra fugla, svo sem teistu, anda og kríu, að ógleymdum heimilishröfnunum!

Í búskapartíð foreldra minna voru 230-250 fjár á fóðrum á vetrum. Fráfærur voru tíðkaðar fram til ársins 1944. Var þá fært frá 35-40 ám. Fé var yfirleitt talið létt á fóðrum í eynni. Fjörubeit er þar góð. Féð er flutt á land á vorin og rekið í Hestfjörð eða sleppt í Fætinum. Lambfé er þó ekki flutt á land fyrr en að loknum sauðburði. Er féð síðan flutt út í eyna í lok ágúst eða byrjun september.

Kúabú hefur aukist á síðari árum og eru nú að jafnaði 15-20 gripir í fjósi. Jafnhliða hefur sauðfé fækkað nokkuð.

Allur heyskapur er nú unninn á ræktuðu landi. Hefur túnið stækkað mikið frá því sem áður var og nær nú yfir töluverðan hluta eyjarinnar, sem áður var óslétt og óræktað land.

Eyjabúskapur er að mörgu leyti erfiður. Fé þarf að ferja milli lands og eyja og allir aðdrættir fara að sjálfsögðu fram á sjó. Bátaeign þarf því að vera töluverð. Hefur svo jafnan verið í Vigur. Áttæringur er notaður til fjárflutninga og ýmissa aðdrátta. Mun gamli Breiður hafa gegnt því hlutverki í hartnær 200 ár. Var hann smíðaður í Furufirði á Ströndum. Hafa margar svaðilfarir verið á honum farnar. Ein frægust þeirra mun vera ferð frá Vigur til Fljótavíkur árið 1829. Var sú ferð farin til að sækja trjávið. Fékk Kristján í Vigur fósturson sinn, Matthías Ásgeirsson, til að fara þá ferð. Lenti hann í ofviðri á heimleiðinni, hlaðinn stórtrjám. Var skipið þá komið á móts við Rit í hægviðri er stormur brast á. Var þá fyrst reynt að ná Skutulsfirði, síðan Bolungarvík, en loks varð að hleypa til Skálavíkur. Öllum trjáviðnum var varpað fyrir borð og mikil mildi var að áhöfnin skyldi komast lifandi á land. En mjög var skipið liðað í miklum átökum við stórsjóa í þessari sjóferð. Fór fram mikil viðgerð á því að henni lokinni. Síðar fóru fram stórviðgerðir á Breið í tíð séra Sigurðar, Bjarna í Vigur og síðast sona hans, Björns og Baldurs. Framkvæmdi Guðfinnur Jakobsson frá Reykjarfirði á Ströndum þessa síðustu viðgerð. En nú er Vigurbreiður sem nýr og gegnir hlutverki sínu með sæmd sem jafnan áður. Mun hann vera eini áttæringurinn á landinu, sem enn er í notkun.

Í Vigur er einnig eina vindmyllan á landinu, sem enn stendur með fullri reisn. Hefur henni verið vel við haldið af ábúendum. Var síðast malað korn í henni árið 1915. En hún mun nú vera orðin hátt á annað hundrað ára gömul.

Íbúðarhúsið í Vigur er byggt árið 1885 af séra Sigurði Stefánssyni. Hefur það verið endurbyggt nokkrum sinnum, nú síðast árin 1977-82. Var þá reist viðbygging við það og bærinn endurbyggður að mestu leyti. Er bærinn mikið tveggja bursta hús á tveimur hæðum. Ber það svip gamallar og sögulegrar tísku í húsagerð, en má teljast nýtt að mestu leyti.

Elsta húsð í Vigur mun þó svokallað Viktoríuhús, er mun byggt um 1860, af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið. Nýbyggt er sjávarhús, tveggja bursta í stíl við gamalt torfhús er þar stóð áður. Er það geymsluhús, smíðahús og dúnhús.

Lítið eitt um búendur

Í íslenskum fornritum mun Vigureyjar fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar (hinni sérstöku), þar sem sagt er frá ósætti Þórðar og Þorvalds Snorrasona í Vatnsfirði, eftir andlát föður þeirra. Segir þar á þessa leið:

„... og brátt er þeir höfðu við fjárhlut tekið, urðu þeir ósáttir um fé. Þá fór Þorvaldur í Vigur um veturinn eftir andlát Snorra og var þar til vors.“

Þetta hefur sennilega verið veturinn 1194-95, því talið er að Snorri hafi látist haustið 1194. Sú getgáta hefur verið sett fram, að Vatnsfirðingar tólftu og þrettándu aldar hafi átt Vigur og trúlega ýmsar fleiri góðar bújarðir við Djúp, þar sem setið hafi ættmenn þeirra og tengdamenn.

Ekki hefur mér gefist tóm til að kanna heimildir um búsetu í Vigur á fimmtándu og sextándu öld. En vafalaust eru til bæði prentuð og óprentuð skjalagögn um hana. Á sautjándu og átjándu öld glaðnar yfir heimildum um búsetu í Vigur. Meðal búenda á þessu tímabili má nefna Magnús Jónsson digra, Arasonar, Magnússonar prúða í Ögri, sem uppi var árin 1637-1702. Hann rak stórútgerð frá eynni á þess tíma mælikvarða. Var hann einnig hinn merkasti fræðimaður. Segir Jón Helgason prófessor, að á 17. öld hafi verið skráð svo margt rita við Ísafjarðardjúp að hvergi annars staðar á landinu hafi verið unnið jafn kappsamlega að slíkri iðju. Var þetta unnið undir forystu Magnúsar digra. Skrifaði hann mikið sjálfur en hafði einnig í þjónustu sinni ritara, sem unnu að ritstörfum fyrir hann.

Meðal þess, sem var skráð hjá Magnúsi, var Kvæðabók úr Vigur. Fluttust sum þessara rita í bókasöfn í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Lundúnum. Sum þeirra hafa nú verið flutt heim en nokkur eru ennþá í erlendum söfnum.

Magnús kvæntist 25 ára gamall árið 1662, sennilega um það leyti sem hann byrjaði búskap í Vigur, Ástríði Jónsdóttur, prests í Holti í Önundarfirði. Dætur þeirra voru: Þorbjörg, er átti Pál Vídalín lögmann og Kristín er átti Snæbjörn Pálsson (Mála-Snæbjörn) á Sæbóli. Þau hjón skildu með dómi 1676. Önnur kona hans var Sesselja Sæmundsdóttir frá Hóli í Bolungarvík. Áttu þau ekki börn. Launsonur Magnúsar með Guðbjörgu Jónsdóttur, móður Ólafs lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði, var Sigurður er síðar bjó í Vigur. Var hann fæddur árið 1680.

Árið 1703 þegar manntalið er tekið býr Sigurður Magnússon á hálfri eynni, tólf hundruðum, en Oddur Björnsson á hinum helmingi jarðarinnar.

Um skeið eru þeir til húsa í Vigur, Jón Sigurðsson faðir Ólafs lögsagnara á Eyri (1687-1761) og Ólafur faðir hans. En ekki hafa þeir verið búendur þar.

Jón Johnsonius (1749-1826) sýslumaður átti um skeið heima í Vigur. Honum var veitt Ísafjarðarsýsla árið 1797, en fékk lausn frá sýslustörfum árið 1812. Hann bjó í Bolungarvík, síðan á Eyri í Seyðisfirði og síðast í Vigur. Sinnti hann mjög fornum fræðum á meðan hann var í Kaupmannahöfn. Þýddi hann m.a. Njálssögu á latínu og hafði með öðrum umsjón með Sæmundar-Eddu „hinni miklu“, segir Páll Eggert. Var hún prentuð í Kaupmannahöfn 1787-1828. „Vasakver fyrir bændur og einfeldninga“ eftir hann var einnig prentað í Kaupmannahöfn árið 1785. Var það reikningsbók. Einnig eru prentuð eftir hann nokkur ljóð. Hann var kvæntur danskri konu, Johanne Christiane Smith, er lést árið 1820.

Jón Jónsson faktor frá Ísafirði, er var náinn vinur maddömu Önnu, var um skeið til húsa í Vigur, en hann fyrirfór sér. Lét maddama Anna reisa honum veglegan minnisvarða í Ögurkirkjugarði.

Kári Bjarnason og Guðríður Jónsdóttir kona hans búa í Vigur árið 1801. Þórður stúdent Ólafsson frá Eyri (1727-1799) býr í Vigur í allmörg ár. Sonur hans, Matthías Þórðarson, býr ekki í Vigur heldur á höfuðbóli afa síns að Eyri í Seyðisfirði.

Kona Matthíasar, Rannveig Guðlaugsdóttir prests í Vatnsfirði, varð ekkja árið 1793, um það bil fertug að aldri. Hún giftist síðan árið 1805 Kristjáni Guðmundssyni frá Arnardal. Kristján Guðmundsson (1777-1852) bjó í Vigur árin 1820-1852. Rannveig kona hans lést árið 1831. Ári síðar kvæntist hann seinni konu sinni, Önnu Ebenesersdóttur, sýslumanns í Hjarðardal Þorsteinssonar. Áttu þau tvær dætur. Dó önnur þeirra á fyrsta ári en hin síðari, Marta Ragnheiður, fædd 1841, lést árið 1900 á Ísafirði. Var hún trúlofuð Erlendi Þórarinssyni sýslumanni Ísfirðinga. En hann fórst 29. des. 1857 á siglingu frá Vigur til Ísafjarðar. Árið 1862 giftist Marta Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið frá Kollabúðum. Bjuggu þau um skeið í Vigur og Sumarliði síðan í 14 ár í Æðey. Áttu þau einn son, Erlend, skildu síðan og flutti Sumarliði til Ameríku.

Barn átti Marta með Jóni Árnasyni á Fæti. Var það dóttir er var skírð Marta. Dó hún í Vigur árið 1956. Aðra dóttur átti hún með Birni Guðmundssyni á Ísafirði. Var Marta talin uppalin í miklu eftirlæti hjá maddömu Önnu móður sinni í Vigur. Varð hún ölkær og léttúðug alla ævi, en fríð kona.

Dætur Kristjáns í Vigur og maddömu Önnu voru hvorugar taldar dætur hans, þótt hann gengist við þeim.

Mjög fjölmennt var í Vigur á árum þeirra Kristjáns Guðmundssonar og Önnu Ebenesersdóttur. Samkvæmt manntalinu 1845 eru þar þá yfir 30 manns í heimili.

Seinni maður maddömu Önnu var Sigmundur Erlingsson er bjó um skeið í Vigur. Seinni kona hans var Viktoría Kristjánsdóttir. Sigmundur fórst í sjóróðri frá Vigur árið 1897. Við Viktoríu er kennt svokallað Viktoríuhús í Vigur, en það stendur enn er þetta er ritað og er notað til geymslu og dúnhreinsunar.

Talið er að Vigur hafi verið illa setin eftir að Kristján Guðmundsson lést, allt til ársins 1884 er séra Sigurður Stefánsson og frú Þórunn Bjarnadóttir frá Kjaransstöðum á Akranesi hófu þar búskap. Frá því segir m.a. séra Jón Auðuns í bók sinni um æskuslóðir sínar. Séra Sigurður varð prestur í Ögurþingum árið 1881. Bjó hann fyrst ókvæntur hjá Guðmundi Bárðarsyni á Eyri í Seyðisfirði, hinum merkasta bónda og útvegsmanni. Hann studdi prest til þess að eignast hluta í Vigur. Hann hafði eignast alla eyna árið 1909. Var hann mikill áhugamður um búskap og útgerð. Byggði hann upp íbúðarhús og peningshús. Einnig stórjókst æðarvarpið í hans búskapartíð. Síðan 1884 hefur sama ættin búið í Vigur eða í 104 ár.

Séra Sigurður átti sæti á Alþingi fyrir Ísafjörð og Ísafjarðarsýslu nær óslitið frá 1886 til 1923 er hann sagði af sér þingmennsku. Var hann fátækur eftir skólaár sín er hann tók við Ögurþingaprestakalli. En undir það heyrðu Ögurkirkja, Eyrarkirkja og um 10 ára skeið Unaðsdalskirkja á Snæfjallaströnd.

Svo vel undi hann sér í Vigur að hann afsalaði sér dómkirkjuprestsembætti í Reykjavík er hann var kjörinn til árið 1889. Búnaðist honum vel vestra og varð fljótlega vel bjargálna. Hann varð fyrsti formaður Búnaðarsambands Vestfjarða. Ekki hafði hann áhuga á ráðherrasæti þegar hann átti kost á því árið 1911. Sat í Vigur og að kirkjum sínum til dauðadags árið 1924. Má segja að hann hafi heilum vagni heim ekið á sinni fögru eyju.

Við búskap í Vigur af séra Sigurði og frú Þórunni tóku sonur hans Bjarni og Björg Björnsdóttir frá Veðramóti, kona hans, árið 1919. Bjuggu þau farsælu búi í Vigur til ársins 1953, er synir þeirra Björn og Baldur og Sigríður Salvarsdóttir frá Reykjarfirði tóku við jörðinni og bjuggu þar til ársins 1985. Jókst túnræt verulega í búskapartíð þeirra. Ennfremur bættu þeir íbúðarhús og peningshús verulega.

Tveir synir Baldurs og Sigríðar, Björn búfræðingur og Salvar trésmiður og Hugrún Magnúsdóttir stúdent frá Kvígindisfelli í Tálknafirði, kona Salvars, eru nú búendur í Vigur, allt ungt athafna- og dugnaðarfólk. Er óhætt að fullyrða að undir forystu þeirra eigi Vigur bjarta framtíð, okkur frændum þeirra og vinum til mikils fagnaðar.

Bæði Bjarni í Vigur og Baldur sonur hans tóku mikinn þátt í félagslífi og framkvæmdum í Ögurhreppi og héraðinu öllu.

Við, sem erum uppalin í Vigur, fylgjumst af einlægum áhuga með nútímanum í ættarbyggð okkar og í Ísafjarðardjúpi í heild. Þótt fækkað hafi fólki í þessum sveitum trúum við á framtíð þeirra og þess fólks sem þær byggir. Lífsskilyrði eru þar góð, í náinni samvinnu við þróttmiklar útvegsbyggðir og batnandi samgöngur við alla Vestfirði.

Íslendingar verða að byggja allt sitt fagra land. Sjór og sveit verða að haldast í hendur, hvarvetna þar sem dugandi fólk getur notið hamingju og farsældar. Aðeins með því að við unnum landinu öllu getum við verið góðir Íslendingar.

Vigur í júlí 1990.


– Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 32. ár, 1990-91.

Um höfundinn:
Sigurður Bjarnason fæddist í Vigur í Ögurhreppi í Norður-Ísafjarðasýslu árið 1915. Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1936. Lagapróf frá Háskóla Íslands 1941. Alþingismaður Norður-Ísfirðinga 1942-59 og Vestfjarðakjördæmis 1963-70. Sendiherra 1970-85. Ritstjóri vikublaðsins Vesturlands 1942-50. Stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins 1947-56 og aðalritstjóri 1956-70. Ritstjóri Tímaritsins Stefnis 1950-53. Ritstörf: Fjöldi greina í blöðum og tímaritum, ásamt útvarpserindum um þjóðleg og söguleg efni.

bb.is | 25.10.16 | 16:54 Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með frétt Jón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 15:53Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Þingeyri á morgun

Mynd með fréttÁ undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í kosningum á Íslandi farið minnkandi, og þá sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram umræður um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og snúa henni við. Meðal annars ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli