Frétt

bb.is | 19.06.2006 | 16:29„Munum ekki sætta okkur við frestanir af hálfu ríkisvaldsins“

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, gerði samgöngumál meðal annars að umfjöllunarefni sínu í hátíðarræðu sinni þann 17. júní, á þjóðhátíðardag Íslendinga. Sagði Halldór að þó mikið hefði gerst í samgöngumálum á Vestfjörðum á undanförnum árum þá væri ekki nóg gert. Nefndi hann meðal annars nauðsyn þess að gera göng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar annars vegar, og Ísafjarðar og Súðavíkur hins vegar. Sagði hann göngin hafa gríðarlega þýðingu fyrir svæðið og að þau myndu gera sveitarfélögunum kleift að sameinast. Þá sagði Halldór að þenslan í þjóðfélaginu væri ekki hér vestra, heldur á höfuðborgarsvæðinu og á fáum en afmörkuðum vaxtarsvæðum. Það væri ríkisvaldsins og viðkomandi sveitarfélaga að bregðast við því, en hér vestra væru hlutirnir á réttri leið og við myndum ekki sætta okkur við að ríkisvaldið frestaði umbótum í vegamálum.

Ræða Halldórs fer hér í heild sinni að neðan:

Íbúar Ísafjarðarbæjar, góðir gestir.

Við sem þjóð erum eilítið nær sjálfum okkur á þjóðhátíðardaginn en aðra daga ársins, við skynjum sterkt þau forréttindi að búa í sjálfstæðu lýðveldi, frjálsu lýðræðisríki og við höldum í heiðri minningu Jóns Sigurðssonar sem fæddist þennan dag árið 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Staður sem skipar mikilvægan sess í sögu íslenskrar þjóðar, staður sem er innan sveitarfélagsins okkar, Ísafjarðarbæjar.

Jón Sigurðsson var tímamótamaður sem lagði áherslu á að við menntuðum þjóðina, nýttum styrk okkar sjálfra og sköpuðum okkar framtíð sjálf en létum ekki aðra um að móta hana. Hann er tákn okkar Íslendinga um samstöðu, stolt og sjálfstæði. Áherslur sjálfstæðishetjunnar okkar eiga margar ef ekki flestar erindi til okkar Íslendinga enn þann dag í dag.

Nú í morgun átti ég þess kost að vera á Hrafnseyri og setja formlega sumarháskóla Háskólaseturs Vestfjarða. Fyrirlesarar í sumarháskólanum koma frá hinum ýmsu löndum og munu eiga sinn þátt í því að auglýsa fyrsta sumarháskólann á vegum Háskólaseturs enda mikilvægt að vel takist til því stefnan er sú að vera með fjölda sumarnámskeiða á vegum Háskólasetursins.

Á Hrafnseyri er safn um Jón Sigurðsson og veitingaþjónusta yfir sumarið. Nú er komið að því að íslenska þjóðin hlúi enn frekar að fæðingarstað sjálfstæðistákns þjóðarinnar. Þetta má gera með enn betri aðstöðu fyrir gesti, aðstöðu fyrir fræðimenn, nýtt og endurbætt safn, heilsársstöðu og búsetu á Hrafnseyri og tryggja þarf nýjan veg út að Hrafnseyri þegar jarðgöng verða komin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Við erum þess fullviss að uppbygging öflugs þekkingar- og þjónustu-umhverfis á Ísafirði sé einn mikilvægustu lyklanna að jákvæðri byggðaþróun á okkar svæði. Um okkur gilda sömu lögmál og aðra Íslendinga þ.e. að við þurfum að taka þátt í þjóðfélagsbreytingunni eða byltingunni sem felst í öðruvísi samfélagi, samfélagi þekkingar þar sem framleiðslugreinarnar vélvæðast sífellt meira eða flytjast til. Aukinni menntun þarf að fylgja störf fyrir menntað fólk á staðnum og þau störf skapa verðmæti fyrir samfélagið í heild. Háskólasetur Vestfjarða sem mun þróast í Háskóla Vestfjarða gegnir þarna mikilvægu hlutverki.

Liður í nýrri atvinnustefnu og því að taka þátt í þjóðfélagsbreytingunni er að hafa frumkvæði og leita nýrra leiða á undan öðrum. Stefnt er að því af hálfu meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að leita samstarfs við önnur sveitarfélög á Vestfjörðum um að vinna eftir hugmyndafræði um stóriðjulausa Vestfirði með sérstakri skilgreiningu í svæðisskipulagi. Á grunni þeirrar hugmyndafræði og landnýtingarstefnu verður leitað eftir samstarfi við ríkisvaldið um aðkomu að verkefnum sveitarfélaga og fyrirtækja. Slík hugmyndafræði útilokar tæpast aðra starfsemi en stóreflis málmbræðslur sem hvergi eiga heima í vestfirskum fjörðum.

Gamli Ísafjarðarkaupstaður er 140 ára á þessu ári og sveitarfélagið Ísafjarðarbær er 10 ára á þessu ári. Það eru liðin heil 10 ár frá því að hér sameinuðust sex sveitarfélög í eitt sitt hvorum megin við Botns- og Breiðadalsheiðar. Ástæðurnar voru margar en jarðgöngin gerðu sameininguna mögulega og færðu dreifð samfélög saman í eitt.

Þó mikið hafi gerst í samgöngumálum okkar Vestfirðinga á undanförnum árum og áætlun geri ráð fyrir fullkomnum vegi um Ísafjarðardjúp og Arnkötludal inn á þjóðveg nr. 1 í lok árs 2008, þá er það ekki nóg. Kröfurnar aukast hraðar en vegabæturnar og vöruflutningar eru nánast alfarið komnir á vegina. Þessu verður að svara með því að hraða framkvæmdum á Vestfjörðum og tengja saman byggðirnar svo Ísafjörður geti nýst öllum Vestfirðingum sem byggðakjarni. Okkar krafa er aukinn hraði vegaframkvæmda á Vestfjörðum.

Rétt eins og göngin 1996 höfðu úrslitaáhrif um sameiningu sveitarfélaga munu göng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar sem og milli Ísafjarðar og Súðavíkur hafa gríðarlega þýðingu fyrir bættar og nútímalegar samgöngur á svæðinu og gera okkur kleift að sameina sveitarfélögin.
Sama gildir um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og Arnarfjarðar og Vatnsfjarðar. Til að tengja saman byggðir Vestfjarða og nýta byggðakjarnahlutverk Ísafjarðar þurfa þessar framkvæmdir að eiga sér stað sem allra fyrst. Það er sameiginleg stefna allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og þeirri stefnu hefur verið og verður áfram fylgt fast eftir.

Það er ljóst að þensla er í þjóðfélaginu og að ríkisvaldið mun fara í aðgerðir til að draga úr þenslunni m.a. með því að fresta framkvæmdum. Það er einnig ljóst hvar þenslan er í þjóðfélaginu. Hún er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og fáum en afmörkuðum vaxtarsvæðum. Þar verður ríkisvaldið og viðkomandi sveitarfélög að beita sínum aðferðum við að draga úr þenslu og verðbólguhættu. Hér loga ekki slíkir eldar, hér eru hlutirnir á réttri leið en við þurfum engrar kælingar við. Við munum ekki sætta okkur við frestanir af hálfu ríkisvaldsins á þessu svæði t.d. í vegamálum þegar og ef slíkar hugmyndir koma fram. Við þurfum á þeim framkvæmdum að halda núna til að viðhalda þeirri bjartsýni og framkvæmdahug sem nú er hjá íbúum og fyrirtækjum Ísafjarðarbæjar.

Það eru aðrir sem taka ákvarðanir um frestanir framkvæmda á vegum ríkisins - en við sem valist höfum til forystu fyrir hönd íbúa Ísafjarðarbæjar höfum þá skyldu að verja okkar stöðu og berjast fyrir framförum, stolt af því sem við stöndum fyrir, með réttlætiskennd og bjartsýni að vopni.

Góðir tilheyrendur, njótum dagsins, rifjum upp með okkur sjálfum að það að vera þegn í lýðræðisþjóðfélagi eykur lífsgæðin. Hugsum til þeirra sem hafa byggt upp okkar þjóðfélag, það fólk á skilið alla okkar þökk og virðingu.

Gleðilega þjóðhátíð.

Halldór Halldórsson

eirikur@bb.is

bb.is | 25.10.16 | 16:54 Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með frétt Jón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 15:53Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Þingeyri á morgun

Mynd með fréttÁ undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í kosningum á Íslandi farið minnkandi, og þá sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram umræður um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og snúa henni við. Meðal annars ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli